laugardagur, 28. nóvember 2009

Loksins, loksins!

Já, og auðvitað öllum til gleði er ég ofar moldu. Eins og mér finnst gaman að fá innlit á síðuna er ég ekki nógu virk, en svo verður bara að vera. Lífið gengur sinn gang hér á bæ, og er mikið að gera. Væri ég barn væri örugglega búið að setja mig á ritalín, en mér líður vel með það sem ég er að bardúsa. Tónskólinn er 40 ára 1. des. og er töluverð vinna í sambandi við það. Eins og við kennararnir höfum ekki nóg með okkar fullu kennslu þá erum við með "kennaraband" hvar ég sit sveitt við píanóið og reyni að vera ekki tréhestur þegar kemur að "swing" tónlist! 4 kvöld í viku er svo kórastarf, og ýmislegt annað dunda ég mér við, en líf tónlistarmannsins á litlum stað getur verið krefjandi og ýmislegt komið uppá. Er þó búin að nota Frelsið eins mikið og ég mögulega get. Meðan kökurnar eru í ofninum skutlast ég smárúnt til að kíkja á jólaljósin og banka á eldhúsglugga hjá vinum og nágrönnum! (um helgar n.b.) Mikið hvað ég held að bæjarbúar verði þreyttir á mér þegar vorar! ----Við bestemann höfum sennilega/vonandi fengið vetrargesti. Músarindill hefur gert sig heimakominn í sólskálanum og lifir þar á löngu dauðum lúsum. Honum hafa verið færðar krásir sem hann lætur ekkert í, en meðan hann getur fundið einhverja lús og lifað á henni erum við glöð. Hann lét jólahangikjötið vera og þá þykir mér hann kresinn, því ketið það er sko ekkert slor. Úr Nesjunum altso, en Hornafjörðurinn er matarkista mikil, allt frá hatti ofan í skó! --- Er að lesa frú Vigdísi, konan er frábær en bókin ekki rúmvæn. Bestemann stakk uppá að ég tæki hana með á Frelsið til að nota nú tímann, en maðurinn veit ekkert hvað hann er að tala um, ég þarf að vera á jólaljósaútkikkinu! Á morgun tökum við Jesú og hans fjölskyldu upp í tilefni aðventunnar, og ég er alveg orðin sátt við þann gjörning eftir að diskóljósin voru tekin úr sambandi. Íslensku sveinkarnir ásamt þeirra hyski fara svo í glerskápinn, og eftir það ætla ég að rifja upp jólalögin fyrir kórana. Látið ykkur líða vel þar til næst.

föstudagur, 20. nóvember 2009

Ferð til fjár!

Jú, jú, við bestemann komumst til Reykjavíkur þrátt fyrir darraðadans í Öræfunum. Það er svosem ekki í frásögur færandi þar sem krákan ég er á ferð.
Mig langaði helst til að snúa við en Ástardrykkurinn og fleira lokkaði. Ég fyllist alltaf lotningu og tilhlökkun þegar ég fer í Óperuna. Þar hef ég aldrei orðið fyrir vonbrigðum með það sem ég hef séð og svo var líka núna. Við eigum þvílíkar listaperlur, perlur sem verða láta sér nægja óviðunandi aðstæður. Mikið hlakka ég til þegar söngvarar og hljóðfæraleikarar fá almennilegt hús til að vinna í. Ég hafði nokkrar áhyggjur að tónsprota hljómsveitarstjórans á tímabili þegar bífur kórmanna dingluðu niður í gryfjuna, en auðvitað slapp það, því listamennirnir þekkja hvern millimetra í þessu húsi. --Yfir einu er ég þó hugsandi.--- Þarf endilega að selja vín í Óperunni? Sessunautur minn hefði betur setið heima með sitt vín. Ég á bágt með að líða þegar fólk kemur of seint, sendir sms og vill hjálpa hljómsveitarstjóranum að hafa hemil á sínu fólki. Allt þetta og fleira truflandi gerði sessunauturinn og uppskar olnbogaskot frá mér tvívegis. Mér finnst leiðinlegt að siða til fullorðið fólk. -- Hildigunnur, ef þú rekst hér inn skilaðu þakklæti til Giannettu.---Við bestimann fórum svo í Hallarmúlann að skoða og mynda Völuspá dóttlunnar, og mikið hvað við vorum stolt af hnátunni, og vona ég að þessi frumraun hennar skili sér í fleiri verkum. --- Ýmislegt annað gerðum við, en mikið hvað ég var glöð að komast heim. Við utanbæjarmenn tölum gjarnan um stress í Reykjavík, en sennilega eru það við sem sköpum mesta stressið. Við ætlum nefnilega að gleypa allt á tveimur dögum í öllu kraðakinu og helgarumferðinni. En heima er best, sama hvar svo sem við búum, en hér líður mér best og ætla ekki suður fyrr en vorar! --Mikil annavika er á enda og ef veður leyfir á morgun ætla ég að "skutlast" eitthvað í mínum fjallagalla og kaupa bland í poka fyrir Ameríkuguttana mína. Farið varlega út í helgina þar til næst.

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

Út um víðan völl

Ekki spennandi tiltill, en eitthvað verður barnið að heita. Ég vil þakka öllum innilega fyrir góðar kveðjur mér og Frelsinu til handa. Mér þótti vænt um þær. Flygillinn minn og skutlan eru einhver bestu kaup sem ég hef gert um ævina, og það liggur við að það sé það eina af veraldlegum gæðum sem ég hvað stoltust af að eiga. Ég nota Frelsið þegar tími og veður gefst, og finnst ég eiga heiminn. ---Lífið gengur sinn vanagang hér á bæ við allt sem er á könnunni, og mér finnst hún stækka með "ári hverjinu" eins og kerlingin sagði. Kennslan, kórarnir, oktettinn og önnur aukastörf taka sinn tíma, en samt er ég búin að baka nokkrar til jólanna! Komið bara í kaffi og sannfærist. ---Það tínist til í Ameríkupakkann og leggur hann í langferð eftir helgina. Bloggið er ekki alvont eins og margir segja. Ég náði eftir bloggleiðum í barna draumabókina + geisladisk fyrir litlu guttana vestra, og þakka ég fyrir kærlega. Þið sem hafa lesið þessar línur mínar muna ef til vill að ég þoli ekki vetrarferðir, ég virðist vera mikil óveðurskráka þegar að þeim kemur. Mér virðist þó að annað fólk geti skroppið til Reykjavíkur og hvert á land sem er bara ef það ætlar sér það. Hef ekki komið til Rvík. síðan í Maí en á morgun á að leggja í hann eftir vinnu. Óperan og fleira skemmtilegt. Veðrið hefur verið með eindæmum gott síðan ég ætlaði norður yfir heiðar fyrr í haust en komst ekki vegna ófærðar. Núna er spáin þannig að allt virðist fara í vaskinn. Ef svo fer verð ég fúl, og þá er ekki gott að lifa hjá annarri eins geðprýðismanneskju sem ég er. -- Halló, búin að redda fríi og á nýjan kjól! Krossið putta kæra fólk, mig langar í Óperuna, og mig langar að hitta vini, og mig langar í sextugsafmælið sem okkur bestimann var boðið í fyrir mörgum vikum. Tek mér í munn setningu á góðri íslensku: ef það "sé ekki", fer ég aldrei af bæ nema á sumrin. Kærust yfir og allt um kring þar til næst.