föstudagur, 31. janúar 2014

Það var nebblega.....

Heil og sæl þið þarna úti í víðáttunni. Janúar á enda og maður skilur hvorki upp né niður í tímanum, og ég neita ekki  að " I´ve been there, done that" eigi sér einhverja stoð uppá íslensku. Kannski svolítið rétt. Fyrst bíður maður eftir að fermast, svo að verða átján, svo 21.....klára skóla, gifta sig o.sv.frv. Eftir allt þetta, rúmlega sextug get ég svosem sagt...I've been there og þess vegna líður tíminn svo hratt, þarf ekki að bíða eftir neinu stórmerkilegu nema að lifa lífinu sjálfu. Það gengur nefnilega vel á alla kanta og þorrablótið yfirstaðið með miklum bravúr. Í ár var einvalalið eins og alltaf er í þorrablótsnefndum, því allir verða að vinna saman. Þarna kynnist fólk hvert öðru á annan hátt en venjulega, enginn skorast undan og allir sýna það besta sem þeir eiga. Meira að segja verða allir nokkuð glúrnir söngvarar!  Þetta er það sem mér finnst svo yndislegt við að búa á litlum stað eins og mínum.  Eins og myndin að ofan sýnir þá skemmtum við bestimann okkur konunglega ásamt því að skemmta öðrum. Ef ykkur finnst tjenustupian ( uppá "goldönsku") og bestimann með slaufu ekki sóma sér vel út í byrjun blóts þá þið um það. ---- Það er nokkuð merkileg skemmtan þessi þorrablót, fyrir nú utan að eta sérstakan mat. ( Ólst upp við slíkan og finnst hann lostæti. Því súrari, því betri) Hér á Höfn er kosin ár hvert nefnd til að sjá um blótið. Nefndin sú gerir allt nema að elda matinn og spila fyrir dansleik. Þetta er töluverð vinna sem fólk lítur á sem samfélagsverkefni og leysir vel af  hendi. Mér finnst því ferlega skemmtilegt þegar jafnréttis......?  hvaðanæva af landinu vill hafa puttana í þorrablótum landsbyggðarinnar. "Sinn er siðurinn í landi hverjinu" sagði kerlingin og ég tek undir með henni. Hver og einn má, og á að hafa sín sérkenni ef allir á réttum slóðum eru sáttir. Núna vorum við bestimann elstu pörin, og nutum þess að vinna með yngra fólkinu .Þau eru svo full af orku og andansríki að unun var að vinna með þeim. Á næstunni verður stuttur febrúar og svo og svo....þar til næst....

laugardagur, 11. janúar 2014

Það var og.....


Jájá ég veit, jólin eru búin og ég óska öllum gleðilegs árs. Nú eru allir sveinkarnir mínir lagstir í dvala og ég verð voða glöð en hissa þegar ég tek þá upp næst, hissa á því hvað tíminn líður hratt. Sá á efri myndinni kom rétt fyrir jól frá Þýskalandi, feitur og pattaralegur, algjör rjómalús. Vinahjón komu hér rétt fyrir þrettándann, höfðu farið í jólaþorpið í Hafnarfirði og séð þennan líka fína og sæta jóla"svein" og keyptu fyrir mig. Það sem þau vissu ekki og var svo yndislegt að þessi var sá eini sem mig vantaði í familíuna sem átt hefur heima í eldhúsglugganum nokkuð lengi. Vonandi eignast ég svo fyrir næstu jól þann hollenska með svarta þrælinn sinn. Ég á þá á einhverju plasti til að líma á rúðu, en mig langar bara að eignast stytturnar. Allt í bígerð. Jól og áramót liðu ljúflega og kökkurinn farinn, nú hlakka ég einungis til Ameríkuferðar í sumar. Vorönn að hefjast á öllum tónlistarvígstöðvum, og þorrablót á næstunni. Í  þorrablótsnefnd sitjum við bestimann....það er doldið töff! Við erum ellismellirnir með alveg stórgóðu hugmyndaríku fólki sem víla ekkert fyrir sér. Það er mikil upplifun að vinna með öllu þessu unga fólki og sjá hvað þau eru á góðum stað í lífinu í öllu tilliti, og  sjá líka hvað við bestimann erum  heppin með að hafa lifað það lengi vel virk til að njóta þess að vera þátttakandi og hrífast með yngri kynslóðinni.  Mér finnst t.d. alveg dásamlegt að kenna börnum fyrrum nemenda minna, nemenda sem orðið er fullorðið fólk. Ég þekki bakgrunn barnanna þeirra og líka hvernig hljóðfæri þau eiga! Þetta eru forréttindi skal ég segja ykkur. Fátt er annað títt úr mínum ranni fyrir utan þetta daglega brauð sem allir glíma við. Þarf ekki að fara spönn frá rassi fyrr en í mars, og tel mér trú um að þá séu vetrarveðrin að baki, vitandi þó betur. Eins og bestimann segir gjarnan: þú átt ekki að fara út fyrir pípuhlið frá október og fram í maí. Legg ekki meira á ykkur þar til næst.