fimmtudagur, 25. febrúar 2010

Fréttir dagsins..... eru....

Svosem ósköp litlar hjá mér samanborið við "aðal" fréttirnar. Er satt að segja að uppgefast á þeim eins og Guðrún frá Lundi tók svo skemmtilega til orða. Mínar fréttir eru þó allavega heilbrigðar. (hinar tel ég helsjúkar) Síðasti pistill hefði þessvegna mátt standa óhreyfður fram eftir ári og alltaf verið ferskur! -- Undirbúningur vorsins, vinnulega séð er í fullum gangi, tónleikar, próf og kórastarf. Allt tekur þetta sinn tíma og hann líður hratt. Þegar litið er í baksýnisspegilinn skilur maður ekkert í hvert tíminn flaug, og vildi ég óska að rúmlega næsta ár verði fljótt að líða bæði í áframgír og bakkgír. Asnalega til orða tekið, en ég get ekki lýst þessu betur. Jæja, nú er Bleik brugðið hvað varðar vígin, það síðasta er fallið! Hún dóttla mín er farin að stunda sprikl eins og hinir!. Ég virði alla þá sem nenna að stunda þetta pungsveittir daginn út og inn, og ætla ekki, segi og skrifa að gera lítið úr hoppinu. Ef grannt er lesið er þetta sagt með dassi af öfund, því ég arkaði á fjöll i den tid og dansaði gömlu dansana af þrótti, en íþróttir voru aldrei í myndinni. Hvað þá að líkamsræktarstöðvar væru til. --En aftur að dóttlunni. Í barnaskóla var alltaf gaman hjá henni nema þegar leikfimin var annarsvegar, þá kom mín heim örlítið stúrin. En viti menn, einn daginn kom hún syngjandi sæl heim. Hafði komist upp í rimil tvö, og allir glaðir með það, en hinar krakkaskammirnar höfðu þá hlaupið upp og niður rimlana í sirka tvo ár! Sprikl hefur alltaf verið fallegt "joke"milli okkar mæðgna, en nú tek ég hattinn minn ofan fyrir henni (geri það þó alltaf) á meðan hún endist, og endist hún sem lengst. ---Músarindillinn er horfinn úr sólskálanum og búið að klippa rósirnar. Nú bíð ég eftir að geta snuddað þar með hækkandi sól, og eitt er víst að hann verður í blóma þega litla fjölskyldan mín kemur í ömmu- og afa hús. Megi tíminn líða sem hraðast þar til næst.

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

sagan endalausa

Nú hef ég fundið upp heljarins mikið ráð, og fæ ykkur með í bisnissinn. Auðvita bara þá sem hafa áhuga. Ég ætla nefnilega að taka lán út á andlitið á mér, altso á langveginn, því ég er öll uppí móti. (eða níðrí móti). Lánið verður sirka svona stórt/langt..... Svo lána ég þér bloggvinur góði sirka helminginn af því og þú borgar mér með engu veði, en lánar aftur á móti ömmu þinni hlut af þínu og maki þinn afa sínum. Þar er kominn slatti af millum. Til að gera enn betur taka töntur og aðrir sem lítið hafa að segja innan familíunnar veð í lánum afa ykkar og selja það til fjarskyldra móðurafa. Gott ef þeir eru ekki þrír, en þegar þarna er komið sögu hljóta allir að hafa grætt töluvert og geta hætt að fjárfesta í andlitinu mínu. Ekki er það svo, því familían, vinir og þeir sem leigja kjallarann vilja sinn skerf af kökunni þannig að þá þarf ég að taka lán út á bestimann! Þar segi ég stopp. Ég hef nefnilega smá standard, en það hafa ekki spekingarnir sem ég horfi of oft á þessa dagana. "Meikar þessi pistill sens" ? Svari mér hver sem best hann getur þar til næst.

laugardagur, 6. febrúar 2010

Þefur af vorinu?

Jamm, fór í skutltúr í dag og sá fólk klippa í görðum sínum. Fór á markaðinn og keypti hrogn og lifur, og ég át yfir mig. (tilheyrir) Krakkar voru í boltaleik á götum úti en aðrir fóru í sund. Nú er bara að bíða eftir að rauðmaginn skili sér frá Djúpavogi og/eða Vopnafirði. Músarindillinn er ennþá að kroppa í sólskálanum, en það er sennilega orðið fátt um fína drætti þar. Þykir súrt að klippa frá honum rósirnar, látum það bíða enn um stund. Á svona dögum er engu líkara en að vorið sé handan hornsins þótt enn sé þorri. Ætli ég segi ekki bara eins og kerlingin: þetta hlýtur að koma í bakið á okkur, sennilega vísar þetta á gos! Suðursveitungar blóta þorra í kvöld, og eins gera burtfluttir Hornfirðingar í Reykjavík. Vonandi skemmtir fólk sér vel og fallega, en þar til næst ætla ég að fara út á pall (kem inn aftur)og þefa meira af vorinu.