laugardagur, 21. júlí 2012

Ferðalangar

n
  Nú er mikið ferðalag að baki......í bili. 3ja daga ferð og bara nokkuð strembin, en hverrar mínútu virði. Við bestimann erum skemmtilegustu ferðafélagar ever! Ok, nokkuð stórt tekið upp í sig. Það voru margir sérkennilegir karakterar með Greyhound, og kannski höfum við hjónakornin verið skondin í þeirra augum. Leiðin til San Diego er yndisleg, landslagið fjöllótt og gróið. Borgin sjálf er mjög falleg, og það var gaman að sjá hana frá sjó. Það er ekki nema örfá háhýsi, ekkert yfirþyrmandi. Við gistum á hóteli í gaslampahverfinu, ofsalega fallegt svæði. USS Midway , kafbátar og sigling var á dagskránni....dagskráin var doldið stíf hjá gömlu brýnunum.......en eitt skal sagt.....við erum að njóta hverrar mínútu. Söknuðum snúðanna okkar, og er ég farin að undirbúa mig andlega að kveðja í þetta skipti. Natti minn sofnaði í fanginu á mér yfir úlfamyndinni, en æðsti snúður hélt fyrir augu og eyru af því að það var kvöld! Það er nefnilega verra að horfa á svona úlfa á kvöldin. Las síðan sögu fyrir þann sem hélt sér vakandi, og ætla að leggjast uppí og láta mig dreyma súkkulaði eins og Natta dreymir á hverri nóttu en þar til næst hlakka ég til daganna sem eftir eru.

sunnudagur, 15. júlí 2012

Og tíminn flýgur.....





Skil ekki frekar en fyrri daginn hve hratt tíminn líður. Við erum komin á seinni hluta yndislegrar dvalar hér í bláa húsinu. Snúðarnir mínir eru hörkunaglar sem skilja mælt mál á tveimur tungum. Það er dásamlegt að fylgjast með málþroskanum. Natti minn veit að maður segir smámunAr í stað piece of cake! Þeir kunna vísur og faðirvorið, allt uppá punkt og prik. Ég tek ofan nýja sólhattinn minn fyrir henni dóttur minni, eljunni við að halda þeim við efnið. Það er nefnilega bara hún ein sem talar málið við þá, og þess vegna væri svo auðvelt að sleppa þeim við að læra það.  Natti litli er bara fimm síðan í vor, en hann er víkingur til allra verka og skarpur. Hann vílar fátt fyrir sér, en er einnig blíður og góður. Eyjólfur stóri snúður er hugsuður og ferlega klár, blíður og góður. Þeir bræður mega helst ekki af hvor öðrum sjá, en geta líka verið hundleiðinlegir hvor við annan innanum og samanvið. Eðlilegustu snúðar og bestastir auðvitað, og flottir á brettunum eins og myndin sýnir. Dagarnir líða semsagt, og áður en litið verður um öxl sitjum við bestimann í flugvél heim á leið. Í næstu viku ætlum við að skreppa til San Diego og fara með Greyhound rútu! Eyjólfi mínum líst ekki of vel á þetta ferðalag gömlu hjónanna, gætum misst af lestinni einhversstaðar. Við bestimann verðum því kannski eins og farþegarnir sem maður sá í gömlum bíómyndum, það er "stórskrítnir" ferðalangar í Greyhound.....en þar til næst ætla ég að halda áfram að hafa það sem best og sendi ljúfastar yfir hafið.

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Án titils....

Heima hjá okkur tökum við bestimann gjarnan veðrið, og helst allar veðurfréttir. Við eigum þó ekkert undir, hvorki heyskap eða sjósókn.Bara vani.  Hér á bæ er hitamælir sem skín aldrei sól á, og seinnipartinn sýndi hann 40 %.....varð heitara fyrr. Það er svo skrítið að sami Spánarhiti væri búinn að hálfdrepa mann vegna raka. Hér í eyðimörkinni er "bara" heitt. Skrokkurinn elskar þetta loftslag, en við ætlum ekki að flytja!.....San Diego er á dagskránni......en áður en hún verður farin verð ég að setja inn brettamennina mín sem hafa smáholu (alltaf) fyrir ís. Bestimann og guttarnir sitja þá gjarnan í skugga og ræða málin með kveðju þar til næst.

föstudagur, 6. júlí 2012

Er ég fræg?

Já, við mæðgur erum frægar eins og þið sjáið. Erum búin að gera víðreist í dag, dag sem maður þarf að melta um stund. Allt var svo mikið eitthvað. Vorum í frægri götu í Beverly Hills t.d. hvar ég þóttist sjá eina fræga úr sjónvarpsþætti bandarískum. Hinir sáu hana líka og allir voru kátir. Það þarf ekki mikið til að gleðja Vögg! Þegar maður sér stjörnugötuna í sjónvarpinu virkar hún svo gasaleg, en í raun er þetta ósköp venjuleg gangstétt og lætur akkúrat ekkert yfir sér. Þetta var samt gaman, og að sjá stóru Hollyvoodstafina í fjallinu gerði helling fyrir mig og mína. Bert er flottur bílstjóri og við hlið hans voru dóttlan mín og Guðm. P. Sigfússon sem skiluðu okkur öllum heilum heim. En mikið hvað ég er mikil gunga þegar akreinarnar í sömu átt eru 6..... Ég á yndislega vinkonu frá því gamla daga..... mikið góðar vinkonur sem hittumst alltof sjaldan. Þegar ég var í geislunum, og var í Rvík í margar vikur var reynt að koma saman í mat...Ekki gekk að finna tíma sem hentaði öllum. Til að gera langa sögu stutta hittumst við í dag í LA... Lygalaust, dóttir hennar og tengdasonur búa hér og úr þessu varð heljarins mikið pönnukökukaffi. Já, lífið er gott og ég á gott, og ég á líka gott í töskunni minni þar til næst.

miðvikudagur, 4. júlí 2012

Enn það sólskin um mýrar og ..........

Gatan hér er mjög falleg, eða réttara sagt húsin og garðarnir við hana. Margir klippa gróðurinn til í skúlptúra, og er þetta virkilega fallegt. Gras er ekki víða því þá þyrfti að vökva látlaust, og vatn er ekki eitthvað sem fólk bruðlar með. Hér er hitinn alltaf eins, 35 - 40 stig, en loftið er þurrt svo þetta er ekkert bagalegt. Húsin eru vel loftkæld og hansagardínur halda sólinni úti. ------ Í þessum hita og ljúfa lífinu þessa dagana bregður svo við að ég finn ekkert til í skrokknum. Krabbameinstaflan sem ég tek daglega hefur valdið stirðleika og leiðindum, en núna......volá..... Mikið gaman framundan, LA .... kannski verðum við fræg..... ef ekki þá er það bara allt í lagi þar til næst.

þriðjudagur, 3. júlí 2012

Þessi dagur hefur liðið eins og í blíðri sólskinssögu. Fórum með tveimur ungum mönnum á ströndina þar sem mokað var af krafti. Eftir það fóru þeir á sundnámskeið og það kostaði fótanudd á bæði borð yfir sjónvarpinu. Lífið er lottery, og okkar lottery er að eiga gott og yndislegt fólk þar til næst!