sunnudagur, 21. apríl 2013

Ljósadýrð húsið fyllir...

Á ferð okkar bestimanns suður um daginn fórum við að vanda í Rauðakross búðina í Austurveri til að kaupa bækur. Gerum það gjarna og skilum þeim jafnvel aftur til að aðrir geti keypt. Gott ráðslag og fín nýting á lesefni. Ég var fljót að velja og rölti um. Sá ég ekki hvar tvö ljós sátu á hillu og biðu eftir að ég keypti þau. Nákvæmlega ljós eins og mig "vantaði" og í sama stíl og steindi glugginn minn er.  Í tuttugu ár hafa verið í þessu bókaskoti einhverjir alljótustu ljósakastarar ever. Bestimann var ekkert yfir sig hrifinn, en það þýðir ekki að deila við ljósameistarann á heimilinu. Ljósin voru keypt, veskið opnað og tólfþúsund krónur borgaðar. Svo datt okkur hjónum að kíkja í Bauhaus....ekki getur maður verið maður með mönnum án þess að fara í þá búð. Ferlega leiðinleg gönguferð um t.d. ljósadeildina. Minnug ljósanna góðu fór ég skoða og spekúlera. Jújú, mörg fín og flott ljós, en ekkert eins flott og mitt ljós. Rak svo augun í ljós, ekkert spes svosem...það kostaði 106.000 krónur! Hver kaupir ljós á 106.000 krónur? Mér hálfpartinn svelgdist á...sér yfirhöfuð einhver hvað fjandans ljósið kostar?  Allavega er ég alsæl með mín ljós, og bestimann hreifst með sinni frú og allir ánægðir. ---Núna er að hefjast mikil vinnu- og tónleikatörn sem endar 9. maí en þá fer ég suður og "geng til lækna".. Yndislega orðað hjá Guðrúnu frá Lundi. ( Búin að lesa hana alla) Föstudaginn 10. maí ætla ég hinsvegar að fá mér kaffisopa í Kringlunni svona uppúr 4....og ég býð í kaffi með mér, allavega þeim fyrsta sem kemur, hinir verða bara að borga fyrir sig sjálfir!  Fyrir framan Byggt og búið er fínasta kaffihús. ---Nú eru 49 dagar þar til mitt fólk kemur frá Ameríku, og já, ég tel. Svei mér þá, ég hlakka ósegjanlega til þar til næst.

föstudagur, 5. apríl 2013

Af listfengi!Heil og sæl öll um kring. Stundum er maður misskilinn, og það er oft fyndið. Ekki hef ég getað státað af teikni-eða hannyrða listfengi á ævinni, það fengu systkini mín í aftur á móti í vöggugjöf. Ég fékk bara annað, ekki síðra skal ég segja ykkur og mitt mesta yndi þegar fer að vora er að mála og gera fínt eins og sagt er. Altso utanhúss. Sá svona líka bráðskemmtilega ámálaða steina í görðum hjá henni dóttlu minn í Ameríku, og  myndaði grimmt og galið, ákveðin í að gera svona líka. Við bestimann lögðum okkur verulega fram í að finna tvo steina sem hentuðu í verkið, annan ætlaðan okkur en hinn til góðs granna. Nú er komið vor og þá mundaði ég pensilinn, var búin að grandskoða myndirnar að vestan og teikna upp á blað. ( Hann Halldór bróðir hefði varla getað betur!) Allt klárt og ég yfir mig ánægð með afraksturinn og bestimann hrósaði mér fyrir listfengið. Jæja, svo kom að því að sýna gestum og gangandi, og það örlaði á stolti hjá frúnni. Okkar bestu og traustustu vinir klikkuðu aldeilis.......Nei en flott, kettir bannaðir! Einn meira að segja gerðist svo djarfur að spyrja hvort þetta virkaði! Hvursu listblindir geta menn og konur orðið? Mér er spurn....sjá ekki allir að þetta er bannmerki á þjófa?!!! Og þetta sem menn töldu vera kattareyru er sko kraginn á þjófs-frakkanum og hana nú. Ég er viss um að þá á enginn eins flott bannmerki og moi!--- Neðri myndin sýnir svo mikla list, bæði frúna og fjallið þar til næst.