laugardagur, 26. október 2013
Saknisakn...
Þar sem ég var alveg viss um að mín væri saknað skellti ég mér á svosem eitt blogg. Það eru að vísu flestir hættir að blogga eða kíkja í kaffi, en mér finnst þetta form miklu skemmtilegra en fb. Mín sérlunda. Ég nefnilega ætlaði aldrei að byrja að blogga, en ung og góð stúlka taldi mér trú um að þetta yrði ég að gera og setti mig upp eins og hún kallaði það svo fagmannlega! Sjálf er hún svo löngu hætt að skrifa! --- Fyrir tveimur vikum fórum við bestimann ásamt fylgdarliði norður á Vopnafjörð, og alveg í himinsins blíðu. 16 stiga hiti báða dagana. Þar upplifði ég algjöra menningarveislu, og fékk að taka þátt í henni með kvartettssöng vopnfirskra karla + bestimanns. 3ja tíma veisla, troðfullt hús og engum leiddist. Vopnfirðingar: ef þið læðist hér inn þá eigið þið hrós og heiður skilinn. Fagridalur, Framtíð, Holt og allt hitt....takk. --- Nú, ekki létum við bestimann deigan síga eftir Vopnafjarðarför heldur drifum okkur í málningarvinnu hér á bæ. Nú er allt svo skínandi hvort sem það er bókarskotið, dóttlusvítan eða lyklakippusafn bestimanns. 1100 kippur á vegg og hver og ein þvegin! --- (Er þetta ekki hálfgerð "belun"?!) Skólinn, kórarnir og allt annað sem tengist lífi okkar gengur sinn besta gang, cd upptökur Jökuls að klárast og ég sit sveitt yfir h moll svítu Bach. --- Minn draumur hefur verið lengi að skrifa pistil sem er bara á neikvæðum nótum....þið vitið, svona um ambögur, íþróttamál, ljótar fréttir og dýrkun á vitlausu fólki úti í hinum stóra heimi. En núna komst ég ekki í þann gírinn. Lífið er nefnilega svo miklu skemmtilegra án þessa sem ég ætla þó einhverntíman að skrifa um þar til næst. Sendi ljúfar yfir og allt um kring.
laugardagur, 5. október 2013
Já lífið.....
...er gott, og mikið gott. Síðan síðast hef ég fengið brautskráningu frá kr.meins.skurðlækninum mínum og hinn gaf mér góða skoðun og þarf ekki að koma aftur fyrr en eftir 6 mánuði. Efsta myndin er svolítið skemmtileg. Eftir brjóstnámið dvöldum við bestimann á sjúkrahótelinu í góðri umönnum og mikilli hlýju.Ég átti að æfa mig á að "ganga" upp vegg til að ná góðri teygju á handlegginn. Déskolli sárt. Alltaf þegar við höfum þurft að "ganga til lækna" (þið munið, Guðrún frá Lundi!) þá gistum við á téðu hóteli og mjög gjarnan í sama herberginu. Meðal annars var það mitt verelsi í fimm vikur meðan á geislum stóð. Bestimann setti lítið blýantsstrik í upphafinu, og sést það enn, allavega sjáum við það. Á myndinni sést hversu mikilli teygju ég hef náð, og á samt töluvert eftir .Hef alltaf getað spilað, sú hreyfing tapaðist aldrei, (svona út og suður hreyfing) en ég á erfiðara með að hengja upp þvott, og þar kemur bestimann oft sterkt inn! Síðan síðast:--- Bestimann vaknaði MJÖG snemma daginn eftir góða skoðun frúarinnar og datt þá í hug að skoða bílakaup, og jafnvel að kaupa einn slíkan. Skemmst er frá að segja að bíll var keyptur....algjör drossía! Við þennan fína bíl gat frúin varla látið sig sjást á komandi jazz og dixilandtónleikum öðruvísi en í nýjum kjól. Til að gera langa sögu stutta: Það er lítil yndisleg búð á Njálsgötu 62 sem selur það sem drottningar þurfa, og það fyrir mjög sanngjarnt verð. Þangað fer ég svo sannarlega aftur og mæli með búðinni. --- Síðan síðast: --- Afmælistónleikar og ball....sungið og spilað og ágóðinn rann til Krabbameinsfélags suð-austurlands. Alveg fullt af "pjéningum" sem Hornfirðingar gáfu af heilum hug í viðbót við þá skemmtun sem sóst var eftir. --Alveg magnað hvað samstaða fólks getur náð langt. Bestimann var í denn tid....sko fyrir heilum 49 árum í hljómsveit, Pan kvintett sem spiluðu víða og voru að mér skilst déskolli góðir. Fyrir mína tíð. Áttu búninga og æfðu grimmt. Flottir gæjar. Nú komu þeir saman aftur og hafa bara orðið betri með árunum ef eitthvað er. Fyrir 49 árum voru þeir kornungir og kunnu lítið fyrir sér, en allir músíkalskir og höfðu stóra drauma sem þeir létu rætast. Allar götur síðan hafa þeir verið viðriðnir tónlist hver í sínu lagi og stundum saman og hafa nú reynslu, grátt hár og yfirvegun.--- Síðan síðast ákváðum við bestimann að skreppa aftur norður á Vopnafjörð á næstunni og taka þátt í söng og gleði með heimamönnum. Ég er veðurskræfa og bið því um gott veður í öðrum skilningi en svo oft áður. Því skyldi það ekki ganga upp núna eins og fyrr? Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)