Eins og sést fer ég að geta slengt lokkunum og fengið valkvíða við að velja sjampó! Komin til vetrardvalar liggur við og er byrjuð í geislum. Það er alveg sama hvaða teymi tekur við mér, allir eru englar. Dreif mig í Ljósið strax á öðrum degi og fékk nærri hjartaáfall. Þarna var þá akkúrat þann daginn prjónakaffi! Halló, sá sem veit eitthvað veit um mig og handavinnu. Ákvað að hlæja frekar en að fá áfall, en mikið hvað okkur bestimann þótti þetta skondið. Hvað ég geri er allsendis óljóst, kannski ég byrji nú á einhverju prjónlesi eða öðru föndri!? Þarna get ég líka lært skartgripagerð og keramikmálun, en ég held bara að ég sleppi þessu. Dagarnir hljóta að líða þrátt fyrir skort minn á allrahandaföndri. Ýmislegt er gert í Ljósinu og finnst mér það sem ég sá og heyrði yndislegt. Staðreyndin er nú sú að t.d get ég illa stundað þá hreyfingu sem í boði er, og ef ég get ekki gert hlutina vel þá sleppi ég þeim opinberlega og geri þá á heimavelli. Ágætis lausn. Er hjá sjúkraþjálfa og þar fæ ég að púla. Annars bara í þokkalegum gír, og bannorðið mitt næstu vikurnar er LEIÐI, algjört tabú því ég er í góðum málum. Þarf eingöngu þolinmæði, og hingað til hefur hún verið á góðu róli. ----Ég þori ekki að fullyrða neitt, en ég er samt viss um að ég sá eina bloggvinkonu með sínum manni í gærmorgun á leið minni á spítalann........Kannaðist við svipinn á þeim í gegnum bílrúðurnar. Doldið fyndið ef satt reynist hvað landið er lítið. Katla voru þið á ferð á Snorrabrautinni á ljósleitum jeppa? Annars á maður ekki vera að glápa út og suður á keyrslu, ekki frekar en að borða spaghetti undir stýri. Geislandi glöð kveð ég þar til næst. Ps. Sakna bestimanns all svakalega.
föstudagur, 30. september 2011
laugardagur, 17. september 2011
Og áfram skal haldið.
Bara svona rétt til að þið fáið vatn í munninn, og lygalaust, þetta var gott. Ekki amaleg svona matarboð. ---Nú hefur lífið tekið enn og aftur stóran sveig miðað við fyrri plön. Plön eru ekki vinir mínir þessa dagana. Eftir hremmingar mínar undanfarið er búið að setja stopp á frekari lyfjagjafir, ég yrði bara aftur veik og jafnvel verri en síðast. Þetta er allt útpælt og engir sénsar gefnir. Í dag eru nákvæmlega 6 mánuðir síðan ég greindist og þá tókum við bestimann þá ákvörðun að treysta læknateyminu algjörlega fyrir lífi mínu, og það hefur ekkert breyst. Ef þeir segja að ég sé búin að fá nóg, nú þá er það svo.
Lyfin eru farin að gera ógagn, og ég VEIT að líkaminn er búinn að fá nóg. Nú semsagt byrja geislarnir sem áttu samkvæmt ritúalinu ekki að byrja fyrr en í lok október. Ég er náttúrulega glöð með það, en samt: Ég var búin að stimpla allt annað í hugann, og þarf minn tíma til að plana upp á nýtt. ---Var einhver að tala um einhverfueinkenni?--- Nú er bara eitt eftir sem ég þarf að taka á, það er að þurfa að vera í Rvík. í tæpar 6 vikur. Þar er ég nú fædd og uppalin og á fjölskyldu og vini, en get samt illa þrifist þar. Kannski ég hitti ykkur öll á kaffihúsum borgarinnar, sitji í stúku í Hörpu og gefi öndunum brauð á morgnanna. Ef þið sjáið hávaxna konu á eirðarlausu rölti með einhverskonar höfuðfat og tvær svartar hækjur þá er það ég þar til næst.
sunnudagur, 11. september 2011
jæjajæja
Mikið verður gaman fyrir mig, að ég tali nú ekki um þá sem kíkja hér inn að geta farið að skrifa eitthvað skemmtilegt. Er ennþá á sjúkradeildinni en er ekki eins einangruð og áður. Vonandi fæ ég heimfararleyfi á morgun því allt er á uppleið. Búin að fá tvær einingar af blóði, úr Jóni og Sigursteini! Ég er viss um að Jón er þægilegur náungi en hinn er örugglega stór og gráhærður þrjóskupungur en með gott blóð.Að vísu hafa neglurnar á stórutánum sagt sig til sveitar í bili, en ég býð þeim glöð lögheimili sitt aftur í fyllingu tímans hjá mér. Hér hafa allir verið yndislegir, og get ég seint þakkað þessu góða fólki hjálpina, og gert mér kleift að dvelja í heimabyggð. Hér er fagfólk í hverju rúmi. Haha, ástkæra ylhýra og allt það. Fagfólkið er sem sagt ekki rúmliggjandi. Í gær var hittingur hjá karlakórnum og var yfirmáta fúlt að geta ekki tekið þátt í gleðinni sem var mikil, og bestimann þurfti að skreppa af bæ svo hann komst hvergi heldur. Sveinar kátir og Þú álfu vorrar hljómar svo svakalega vel úti í guðsgrænni náttúrunni. Á fimmtudaginn fer ég í næstsíðust lyfjagjöfina og bið svo innilega um gott veður. Þá er bara ein eftir og ef allt gengur eins og það á að ganga er það Ameríka. Við bestimann verðum nefnilega fara að sjá fæturna á tengdasyninum, annað gengur ekki. Natti minn fann það út að í gegnum skybið sjáum við bara andlitið á Bert. Ekki lappirnar! ---Nú sendi ég rólegheita kveðju úr firðinum fagra sem umlykur allt svo vel. þar til næst, Gulla tásla
þriðjudagur, 6. september 2011
Ljótan atarna!
Ég var varla búin að blása á blekið í sjálfblekungnum síðast þegar alræmd sýkingin bauð góðan dag. Og nú var sko ekkert elsku mamma eða amma. Síðan á föstudaginn var hef ég legið í einangrun að mestu leyti og allt heimsins besta lið vakið og sofið yfir velferð minni. Ég sem skjólstæðingur HSSA á Höfn hef ekki orðið vör við niðurskurð, en auðvitað er hnífurinn hér á lofti eins og annarsstaðar. Hví í veröldinni er ekki hægt að þyrma grunnstoðum samfélagsins. Við búum við allsnægtir, að geta gengið inn og fengið góða læknisþjónustu er því miður ekki allsstaðar í boði. Skólarnir... Æ, ég kann ekki ráðin, en ég kaus fólk einusinni til að ráða þessu en það lið stendur varla undir sjálfu sér í dag. Hvað þá á grunnstoðunum!---Fréttatíðnin er lítil þessa dagana, en bestimann er sá eini sem er æskilegur að hitta mína æruverðugu persónu, og ekki fer elskulegt starfsfólkið að segja mér djúsí fréttir. Þess vegna hlusta ég bara á RUV horfi á sjónvarpið en yfirleitt eru augun dottin og þannig líða dagarnir. Þó hef ég tekið meira eftir lífinu í kringum mig í dag en í gær, einfaldlega vegna þess að mér líður mun betur. Farin að geta talað og kyngt, sýkingin í olnboga og augum líka á undanhaldi.---Ég týndi sem betur fer ekki sálinni, hún bara hvíldist um stund. Svo segi ég bara eins og karlinn, Vittu til........á morgun verð ég bæði falleg og mikið brött. Þar til næst elskurnar.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)