föstudagur, 30. janúar 2009

Úllen dúllen doff.

Ekki verri titill en hver annar þegar maður æðir úr einu í annað. Nú er enn ein helgin framundan og daginn farið að lengja. Eins og lesendur Ameríkufarans hafa séð eru liðin 4 ár síðan hann flutti á vit nýrra ævintýra. Margan erfiðan daginn hef ég lifað á minni ævi, en brottfarardagur dótturinnar er með þeim erfiðari sem ég hef upplifað. Þegar hún hvarf upp með rennistiganum með litla Eyjólf í poka á maganum varð mér allri lokið. Á dögunum var ég spurð að því hvort hún væri ekkert á heimleið, og þá til frambúðar. Svar mitt var nei: ég væri bara glöð yfir að hún væri ekki á heimleið til langdvalar! Þetta þótti skrítið svar frá móðurinni. Ef svo væri myndi ég missa sjónar á góðum tengdasyni, og strákarnir yrðu af góðum föður. Það er mér mikilvægt að litlu fjölskyldunni líði vel, og litla bláa húsið er þeirra staður. Nú erum við mæðgur farnar að telja niður því á morgun verður keyptur farmiði vestur og þá líður tíminn svo hratt. Hreint eins og þessi fjögur ár sem liðin eru frá flutningi þeirra. Hvert árin fóru sé ég í Eyjólfi og Natta og það er góð tilfinning. ---TR. er næsta mál á yfirreiðinni. Það er meiri asna-stofnunin á margan hátt. Ég fékk loksins í dag endanlegt bréf, svar við 5 bréfum frá mér! Þeirra voru mistökin, ég þarf að standa mína plikt, en TR. segir "sorry" með semingi. ---Um síðustu helgi fór ég á tvö þorrablót. Annað var rólegra en hitt og hentar mér betur, en bæði þrælgóð. Það er mikil menning sem felst í svona skemmtun á stað sem Höfn er. Á "aðalblótinu" eru um 30 hornfirðingar sem sjá um skemmtunina og erum við rík af hæfileikafólki. Annállinn rann í gegn án þess að meiða nokkurn og alveg bráðfyndinn. Heimahljómsveitir héldu svo uppi fjörinu á báðum blótum, og verður einnig svo annaðkvöld. Þá er þriðja blótið á svæðinu, svo Hornfirðingar ættu að vera vel súrsaðir og útpungaðir fram að næsta Þorra. Þessar samkundur minna mig á yndislega upplifun þegar ég var barn í sveit á Vatnsnesi. Þann 17. júní var haldin skemmtun á Hvammstanga sem kölluð var Jósefínu-hátíðin. Formaður kvenfélagsins hét Jósefína. Svo hætti hún sem formaður, en skemmtunin hélt velli og varð að Lárugleði, í höfuðið á nýjum formanni! Þessar menningar- Þorra og bæjarhátíðir eiga að halda velli, þær þjappa fólki saman og veita mikla gleði. Ekki veitir af. Lífið hér er gott og ætla ég að senda góða strauma út um allt þar til næst.

sunnudagur, 18. janúar 2009

TR = KLÚÐUR.

Það þarf töluvert til að gera mig reiða, en nú er ég reið og ætla að beina henni beint til lesenda. Ekki að þeim, nota bene. Samkvæmt læknisfræðilegri greiningu er ég 100% öryrki, en ég get sem betur fer unnið og skilað mínu til samfélagsins. Tryggingastofnun Ríkisins þarf því ekki að borga mér laun, ég vinn fyrir þeim sjálf, en bensínstyrk fæ ég greiddan mánaðarlega frá TR. Kr. 6.ooo. Þá er náttúrulega búið að taka skattinn. Gott mál og ekki mikið reikningsdæmi. Svona hefur þetta verið í áraraðir, og engin launabreyting er hjá mér umfram aðra í hinu "venjulega" launaumhverfi. Fyrir ári síðan fékk ég bréf frá TR. þar sem sagði að ég fyrir misreikning þeirra skuldaði 68.000 krónur. Ég varð æf og eftir mikið japl jaml og fuður fengust þeir til að hætta að greiða mér bensínstyrk þar til skuldin væri greidd, en það gekk ekki átakalaust fyrir sig. Fyrr í þessari viku kom svo annað bréf: Nú skulda ég kr. 29.000. Þá gekk yfir mig og sendi þessum reikningshausum tölvupóst þar sem ég krafðist skýringa. Daginn eftir kom staðlað bréf þar sem sagði að þetta væri skuld síðan 2005! Ekkert meir. Þá lagðist ég aftur í skriftir, og krafðist skýringa.....hvað var ég að borga í fyrra.....hver er ekki að vinna vinnuna sína? Þarf náttúrulega ekki að taka það fram að ég hef ekkert svar fengið, og mun sennilega ekki fá því þeir hjá TR kunna bara að senda rukkanir og stöðluð svör. Ég er jafndauð fyrir 29.000 krónurnar, en ég ætla ekki að borga þegjandi og hljóðalaust.(tek það fram að allir mínir pappírar eru í lagi) Ef ég skulda einhverjum vil ég vita af hverju, ef TR kann ekki að reikna þá er það ekki mitt mál. Það versta er að svona stofnun vinnur alltaf, og ég veit að svona rukkun barst ekki eingöngu til mín. Fari þeir og veri ásamt fleirum sem kunna ekki að vinna vinnuna sína. Svo mikið er víst að ég héldi ekki minni vinnu með svona slugsaragang. ---En ég er ekki séra Jón.--- Jæja, þá er ég búin að pústa, en þrátt fyrir það er ég ennþá örg, og ekki skánaði ergelsið við að horfa á fréttirnar í kvöld. Þar heyrði ég að ALLIR vissu um hrunið í bankakerfinu, og það fyrir löngu. Ég ætla að nota ljótt orð sem hefði verið bannað í mínum uppvexti: skítapakk. Þar hafið þið það kæru bloggvinir, ég er ekki alltaf eins kurteis og ég "lít" út fyrir að vera. Þar til næst.

sunnudagur, 11. janúar 2009

Úr grárri forneskju?

Ég er sennilega afar gömul og fastheldin. Fastheldin á það sem ég þekki og kann en er smeyk að breyta út af venjunni. Af hverju að skipta út einhverju sem er fyllilega boðlegt, og af hverju að hlaupa eftir öllu sem í boði er? Ekki ætla ég að skipta út bestemann þótt hann sé með grátt hár! Einu sinni voru fótanuddtæki mjög í tísku og allir áttu slíkt tæki. Þegar ég sá kynningu fyrir nokkrum árum á nuddpottum flissaði ég eins og smástelpa. Þar var komið risastórt (fóta)nuddtæki sem allir urðu að eignast. Ég barðist lengi við nota greiðslukort og farsíma, ég tala nú ekki um tölvu. Bestemann vissi sem var að það þurfti smákúnst við að koma mér á bragðið. Honum tókst það og ég get ekki hugsað mér að vera tölvulaus, en hitt er mér nokk sama um. Kann þó takmarkað að nýta mér tölvuna, en það sem ég kann dugir mér.--Allavega í bili---. Fésbókin er nýjasta dæmið um tileinkun okkar duglegu þjóðar að gleypa. Ég veit eiginlega ekki um hvað málið snýst. Eitt veit ég: ég á fullt af vinum sem mér þykir óendanlega vænt um. Þarf semsagt ekki á bókinni góðu að halda enn sem komið er. En í dag las ég grein um eina hefðarkonu rúmlega áttræða sem heldur úti samskiptum á fésbókinni, með myndum og alles! Halló....ég á ekki einu sinni stafræna myndavél. Ég tek hattinn ofan fyrir þessari góðu frú og heiti því að þegar ég verð áttræð skal ég geta þetta. Svei mér þá. Margir hafa sent mér póst og boðið mér að vera vinur á fésbókinni, en ég guggna trekk í trekk. Hef sennilega alveg nóg með að skrifa blogg endrum og sinnum um þankaganga konu í nútímatæknifjötrum! Verum líka vinir í bloggheimum, þar til næst.

sunnudagur, 4. janúar 2009

Nú árið er liðið...

Já það er liðið og kemur ekki til baka. Ég óska öllum sem hingað koma gleðilegs árs og friðar með kærri þökk fyrir liðið ár. Ekki ætla ég að bæta um betur við upprifjun ársins 2008, en þrátt fyrir óreglu og óáran í vetrarbyrjun leið árið sem að mér sneri nokkuð vel. Byrjaði að vísu með látum þar sem ég bókstaflega fauk milli Hafnar og Reykjavíkur nokkrum sinnum að láta lappa upp á hnéð. Allt fór síðan í góðan gír og hélst þannig. Margt skemmtilegt gerðum við bestimann, og litla fólkið okkar úr bláa húsinu dvaldi hér í nokkrar vikur. Það stendur uppúr. ---Nú er jólafríið mitt á enda runnið og hef ég sjaldan ef nokkurn tímann haft það eins rólegt og gott yfir hátíðarnar. Varla farið úr þeim þverröndóttu nema af brýnni nauðsyn. Lesið amk. 10 bækur, spilað kasínu og scrabbl, og ráðið hálft annað tonn af krossgátum, eða þannig. Etið rjúpur, hangikjöt, hamborgarhrygg, ferskan lambahrygg og humar svo fátt sé nefnt. Mér hálfpartinn klígjar við þessa upptalningu. Á morgun byrjar raunveruleikinn aftur og ef ég er ekki úthvíld núna verð ég það aldrei. Ég hlakka bara til. Ég hlakka líka til að fara að skipuleggja ferð vestur um haf, (stundaskrá okkar bestimann verður grandskoðuð)hlakka til þegar daginn fer að lengja og hlakka til að fara út í hvern dag (vonandi) með bros á vör. Ég semsagt hlakka til að lifa lífinu áfram. Vonandi með hækkandi sól geta fleiri og fleiri tekið undir með mér. Þar til næst.