mánudagur, 28. nóvember 2011

Það kom aððí!!

Heil og sæl heilsa ég öllum....þarf ekki að koma í skoðun fyrr en eftir 4 mánuði. Ég er svo himinsæl með sjálfa mig að sjálfhverfari get ég varla orðið. Fékk semsagt flotta skoðun í dag, og frá mínum bæjardyrum séð er ég aaaalveg að verða góð. Fer heim í kotið mitt á morgun og þakka pent fyrir mig.... Heyrumst innan tíðar og þakka ykkur öllum stuðninginn þar til næst. PS. enn og aftur ég er svo glöð..... þið vitið: Brosi svona hringinn, er þakklát, er hamingjusöm og á fullt af jólasveinum! PPS. Kann ekki að setja broskarl!

fimmtudagur, 17. nóvember 2011

Svoddan er það nú....

Jæja gott fólk nú eru tvær vikur frá síðustu geislum og þá hélt ég að allt væri nú orðið gott. Ég er enn að brenna undan þeim og komin með bullandi sýkingu. Er að verða alveg hundleið á þessu og bið bara orðið um gott veður mér til handa, þrátt fyrir hitabylgju utandyra. Sálin er þó í góðum gír þrátt fyrir allt, og meðan svo er "höndla" ég þetta. Þegar ég verð komin í stuð þá skrifa ég pistil sem eitthvert fútt verður í en núna er fúttið í fýlu. Jólapakkinn í litla bláa húsið fer á morgun og það var svo gaman að týna í hann. Það verður ekki langt í að ég setji sko mína sveinka upp, og draumurinn er að geta baka nokkrar kökur. En þar til næst kveð ég frk. fýlu og sendi ljúfastar yfir.

miðvikudagur, 2. nóvember 2011

Limmið!

Nú er frúin sprungin á limminu, en ég veit ekki hvað eða hvar limmið er. Veit bara að núna líður mér eins og ég hafi lent undir valtara. Ég er semsagt búin að gera skyldu mína við frk. kröbbu og var útskrifuð með láði í dag. Vonandi verð ég aldrei aftur vör við þá frauku, því hún er ekki geðslegur förunautur. Ég er þakklát.....þakklát fyrir að hafa greinst í tæka tíð, og er þakklát fyrir óendanlega gott heilbrigðisteymi. Ég er þakklát fyrir yndislega fjölskyldu og vini, og er þakklát fyrir lífið. Þegar allt virtist óyfirstíganlegt og erfitt fékk ég "búst" frá vinum og fjölskyldu, búst, sem hjálpaði mér í gegnum næsta skref. Reynslunni ríkari og 9 tánöglum fátækari held ég áfram í átt að fullri heilsu, og vonandi með sömu hjálp og hingað til. Núna finnst mér að ég þurfi ekki að passa mig á að ganga ekki á grasinu eða biðjast afsökunar á að hnerra, er frjáls....... Það er góð tilfinning. Svo er ég búin að kaupa mér TVO jólasveina af tilefninu......og ég á von á einum frá Hollandi! Ég kannski kaupi mér einn enn, sá einn lítinn og feitan, hvur veit...á ég hann ekki skilið þar til næst?