þriðjudagur, 19. maí 2009

Hugleiðingar um strák.

Fyrir nokkrum árum fékk ég nemanda sem langaði að læra á hljóðfæri. Ég var óörugg, og nokkuð viss um að ég gæti ekki staðið undir væntingum hans. Samt fór það svo að við byrjuðum. Þá var ég búin að undirbúa mig, að ég hélt, en bara að einu leyti: Ég betrekkti einn veginn í stofunni með öllum nótnatáknum sem þurfti til að veggurinn fylltist! Hugsaði með mér að þetta væri gott fyrir alla nemendur. Stráksi kenndi mér margt, hann t.d. sagði mér hvenær ég var orðin svöng, ég lærði að kúrekaglás væri bragðgóð, hann kenndi mér allt sem ég gat innbirgt um Malasíubrautina, hann kenndi mér hreinskilni og hrekklausa gæsku, og hann þoldi mig ekki væri ég í rauðum fötum í kennslustund.-- Það var altso vont.-- Í nokkur ár kom vinur hans alltaf með honum, en beið frammi og þeir röltu svo saman til baka. Eftir fyrstu önnina kunni stráksi allt betrekkið utanbókar! Sjónminnið alveg brilljant, takturinn er honum í blóð borinn og gáfurnar í besta lagi. Stráksa líkar ekki þegar ég veikist, eðlilega, því þá hleypur kannski einhver annar í skarðið ef vel liggur á mönnum. Svo var komið að fyrstu tónleikum þar sem minn maður lék einleik. Ég sat svona til hliðar með smá hnút og var til taks. Í dag er ég ennþá á hliðarlínunni, hnútlaus að mestu, en stráksi þarf mín varla með. Sér einfaldlega um hlutina sjálfur. Nú er strákurinn minn orðinn jafnhár mér og kemur alltaf einn í tíma. Búinn að segja vininum upp! Hann þolir mig ekki ennþá í rauðu, og er ég farin að hallast að því að sá litur einfaldlega klæði mig bara alls ekki. (fyrir utan rauðu bomsurnar!) Núna á dögunum spilaði þessi nemandi minn fyrir bláókunnan prófdómara og gerði það með bravör, og stefnum við á grunnpróf á vetri komanda. Af hverju er ég að skrifa þessar hugleiðingar? Jú, þessi vinur minn og nemandi hefur sýnt það og sannað að þrátt fyrir einhverfu getur maður gert það sem kennarablókin taldi í upphafi nokkuð ljóst að ekki væri hægt. Sem betur fer erum við ekki öll eins, en við eigum að geta lifað og leikið saman. Þar til næst kveð ég úr hornfirsku vori.

sunnudagur, 17. maí 2009

Skólalok og fjör (ur)

Síðan síðast hefur mikið gengið á. Próf og glæsileg skólaslit með óvissuferð kennara á eftir. Hér á Hornafirði er boðið upp á ýmislegt til afþreyingar, og þar á meðal fjöruferðir. Ég lét mig hafa það og skemmti mér sennilega betur en allir aðrir. Það er nefnilega svo að það sem flestir telja auðvelt getur vafist fyrir mér. Skemmst er frá að segja að ég fór í litlum báti yfir fjörðinn, og lærði á fjórhjól sem ég keyrði svo alveg sjálf! Ég var afar varkár en komst samt það sem hinir komust þótt færi aðeins hægar yfir. Yndislegt veður, sól og regnbogi þótt engin væri/kæmi rigningin, jöklahringurinn óendanlega fallegur og krían í þúsundatali. Þarna á fjörunum átti ég heiminn, og þið sem hingað komið verðið hreinlega að upplifa þessa stemningu.--- Í gær fór ég svo með oktettinn minn í tónleikaferð austur á land og heppnaðist allt mjög vel, og þá er bara eftir að klára upptökur með þeim. Síðustu tónleikar þetta vorið verða svo með Gleðigjöfum 21. maí og tónleikaferð þeirra 26. maí. Ég held svei mér þá að ég loki hljóðfærinu eftir það og taki til við að huga að Ameríkuferð okkar bestamanns. Þetta er að verða gott þennan veturinn.--- Smá hugleiðingar um fésið.... Bestimann er þar en stundar fyrirbærið lítið, það er helst ég sem stelst til að kíkja á hana dóttlu mína, en svona örskeytaháttur á ekki við mig, og ætla því að halda mig við pistlaskrif af og til. Hvort einhver nennir að lesa er svo annað mál, en vænt þykir mér um heimsóknirnar. Þar til næst kveð ég úr undurblíðu og segi enn og aftur: það var fjör á fjórhjóli á fjörunum.

mánudagur, 11. maí 2009

Heill í hjúskap, happ í búskap!

Á lokadaginn,11.maí fyrir 35 árum hófum við bestimann búskap. Ekki var nú hreiðrið stórt eða ríkmannlegt af veraldlegum gæðum, en okkur leið vel. Smám saman óx okkur ásmegin, en á þeim árum varð að fara sparlega með. Þá varð maður helst að eiga fyrir hlutunum, nú eða geta fært sönnur á því að við værum borgunarmenn fyrir því sem kaupa átti. Gleymi því aldrei þega ég fór ein og sér til bankastjórans hér á Höfn og bað um smálán, alveg titrandi á beinunum. Þá vildi bankastjórinn vita til hvers ég ætlaði að nota peningana. Þegar ég stundi upp úr mér að mig vantaði píanóbekk fékk ég umsvifalaust það sem ég bað um. Fyrir allt streðið er ég óendanlega þakklát, og þakklát fyrir góða fjölskyldu.--- Á föstudaginn fórum við í tónleikaferð norður í land og lentum í arfavitlausu vetrarveðri og ófærð! Eftir 8 tíma þvæling sungum við tónleika sem gengu glimrandi. Laugardagstónleikarnir voru ekki síðri,bæði húsin góð og frábær hljóðfæri. Móttökur allar sem best verður á kosið fyrir utan norðlenska stórhríð. Næsta ferð verður á laugardaginn og þá hreinlega heimta ég gott veður af þeim guði sem ku stjórna veðrinu!--- Nú fer að styttast í annan endann á þessum vetri og verður gott að komast í frí. Dóttla mín kemur bráðum og svo erum við bestimann til 35 ára flogin. Þar til næst bið ég um gott veður hvarvetna.

fimmtudagur, 7. maí 2009

Farin!

Altso í tónleikaferð norður í land þar sem veturinn er ennþá. Brrrrrr. Góða helgi allesammen þar til næst.