föstudagur, 25. maí 2012

Jákvæð broskerling!

Einu sinni var kona hér í bæ sem var mikill golfspilari, og góð kona. Hún gaf krumma alltaf að borða. Í þá daga pössuðu menn upp á golfkúlurnar sínar og merktu þær vel og vandlega. (Ekkert bruðl þá) Staðurinn lítill og ekki margir golfarar. Rétt hjá heimili konunnar var staður sem hún gaf krumma að éta, og voru allir glaðir með það. Einn daginn sér konan út um eldhúsgluggann glitta í eitthvað hvítt þar sem "matardallur" krumma var og fór út að gá. Var þar þá ekki komin vendilega merkt golfkúla matmóðurinnar, sagt og skrifað. Krummi var sennilega að þakka fyrir sig.-- Í gær hringdi nágranni og sagðist halda að fugl hefði verpt í blómabeði okkar bestimanns og að hreiðrið væri sennilega yfirgefið. Bestimann fór út og fann þessa fínu golfkúlu hálffalda í mold. Við þvott kom í ljós bleika slaufan, og finnst mér sem krummi sé að þakka mér fyrir allt gúmmelaðið sem hann hefur fengið frá mér, og jafnframt að segja mér að nú sé nóg komið og ég sé orðin frísk! Ég nefnilega gef krumma, en aldrei hér inni í bæ. Við höfum margoft séð þann svarta með golfkúlu í gogginum, sem hann lætur svo detta trekk í trekk í von um að eitthvað sé inni í henni. Eitt af mínum uppáhaldslögum er einmitt Krummi, eftir Tryggva M. Baldvinsson við texta Davíðs Stefánssona, og  ég ætla að gefa krumma áfram. Tel mér trú um að þessir tveir sem ég gef séu alltaf þeir sömu, en ég get náttúrulega ekki verið alveg viss. ---Jæja, nú erum við bestimann altso að fara vestur, og það í Blátt hús....að vísu ekki lítið, en í mínum huga er þetta litla Bláa húsið þar sem svo mikill kærleikur hefur ríkt, og hann verður fluttur með til vesturstrandarinnar. Ég er orðin svo spennt að ég veit varla hvernig ég á að anda. Allt klappað og klárt, svo nú er bara að njóta. Áður en það verður ætla ég í smá söngferðalag með Gleðigjafa, og taka sprett með Stökum Jökum, en þeir syngja Krummann svo fallega. Fréttir daganna eru oft svo leiðinlegar, en mér finnst eins og þær nái ekki inn í sálartetrið mitt. Njótið með mér þar til næst.