þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Bara smart

Vika liðin og allt með kyrrjum kjörum hér á bæ, nema að ég þarf að auka við verðbólgu í þjóðfélaginu. Verð að eignast rauða skó! Hef aldrei átt slíka og hef þar af leiðandi ekki "fílað" mig eins og drottningu, en nú verður gerð bragarbót á.--- Þegar ég sem ung kona flutti á Hornafjörð var ýmislegt sem var framandi, til að mynda málfarið. Hér tala menn um "flaaagið", langt a og mjúkt g. Haaaginn er líka mjúkur, og kvenmannsnafnið Signý er borið fram sem slíkt! Hljómar ekki með tveimur g-um. Orðið "barn" er ekki borið fram sem baddn, og maðurinn minn heitir Örn, með mjúku n hljóði. Konan er oftast tengd við nafn mannsins, ég er sem sé Gulla hans Bróa. (gælunafn bóndans) Vélin er búin að vera og hér keyra menn ofalllega, neðalllega eða utalllega á vegunum. Með sterku l hljóði. Bekkjatusku hafði ég aldrei notað, né heyrt orðið daut. Það var því margt framandi í málinu. Í dag veit ég hvort vélin er búin að vera, nota mína bekkjatusku og ber Signýjarnafnið fram mjög mjúklega. Hitt læt ég vera og ég keyri bara á réttum helmingi veganna.--Að mínu mati má þessi málvenja ekki glatast, en hún verður að vera fólki eðlileg svo hún hljómi fallega.---Nú er búið að klippa í rósaskálanum og set ég inn mynd fljótlega. Það er undravert að fylgjast með gangi mála þar. Þrátt fyrir kulda og snjó er sólin farin að vinna sitt verk. Um næstu helgi verður hér á Höfn heilmikil blúshátíð, það verður blúsað um allan bæ. Sennilega fer hún að mestu fram hjá mér, reyndi í fyrra en skjögraði út. Hefði betur verið með eyrnatappa! Undirbúningur fyrir kórauppskeru vorsins er á fullu og lífið er nokkuð gott. Af þessu má sjá að það er smart að búa á Hornafirði,til orðs og æðis, að ég tali nú ekki um þegar ég verð komin í rauða skó.--Ameríkufararnir lenda á Íslandi að morgni 18. mars og get ég því núna tekið undir með Birtu....iss piss, þetta er að koma. Þar til næst.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Leikhús,"fjötlun" og hnátan!

Takk fyrir innlitið þið í bloggheimum sem kíkið og kvittið. Bara gaman að því. Vika síðan síðast og margt hefur áunnist sem betur fer. Ég er alveg að verða búin að læra syrpuna sem endar í "klæmexi", þarf sennilega að læra hann utanbókar! Mér varð um margt skemmt þegar ég las blogg hnátunnar um leikhúsferðina á dögunum. Svanfríður hefur kunnað Vesalingana í mörg ár, og sagði gjarnan að þegar hún yrði stór ætlaði hún að fara að sjá sýninguna. Nú hefur draumurinn ræst, og gat ég samglaðst henni verulega.--- Alltaf verið hrifnæm hún Svanfríður.--- Í gegnum tíðina höfum við foreldrarnir farið oft með henni í leikhús, og ekki þekki ég neinn annan sem tekur eins mikinn þátt í leiknum. "Hallæristeórinn" kemur upp í hugann: Hann svaf hjá einhverri, og tómt vesen. Við mæðgur sátum mjög framarlega, og þegar pabbi dömunnar í leiknum kom að þaut tenorinn út en skildi eftir sig buxurnar. Þá stóð sú stutta upp, baðaði út öllum vængjum og hrópaði hátt: Þú gleymdir buxunum!---Hún tvítók það---! Þegar pabbi hennar fór með hnátunni á gott leikrit í Þjóðleikhúsinu gleymdi hún gleraugunum, en dó ekki ráðalaus því maðurinn fyrir framan hana hafði sín á nefinu sem greinilega pössuðu henni allvel. Sat skökk og skæld allan tímann og hreyfði sig í takt við manninn til að sjá sem best. Henni leiddist ekki að fara á tónleika hjá Sinfó, eða í óperuna. Allt var þetta hin besta skemmtun. Í útlöndum var hnátan hinn besti ferðafélagi, var fljót að skanna svæðið og finna út hvað hægt var að gera skemmtilegt. Dubbaði sig upp fyrir kvöldið, pantaði súpu í forrétt og gleypti í sig allt sem hún sá og heyrði. Ekki skrítið þótt Svanfríður hafi "misst" vatnið, fengið gæsahúð og hroll við að sjá loksins Vesalingana. Hef ekki spurt Bert hvort hún hafi látið hátt á sýningunni. Kæmi mér ekki á óvart. Í síðasta pistli dótturinnar tæpir hún á fötlun. Þegar ég þurfti að dvelja langdvölum t.d á Reykjalundi var daman stundum með í för. Á Reykjalundi var mikið af fötluðu fólki, enda staðurinn endurhæfingarstöð. Svanfríður sá aldrei athugarvert við neinn. Þvældist aftan á rafmagnshjólastólum, leiddi blinda, og spilaði við þá sem kunnu svarta pétur. Er skrítið þótt hún þoli ekki steriotýpur, eða þá sem koma ekki til dyranna eins og þeir eru klæddir? Nei, segi ég, mamman. ---Kannski hef ég farið yfir strikið í upprifjunni á gömlum dögum, en þeir eru mér svo kærir, þeir koma upp í hugann á hverjum degi. Mér finnst gott að hugsa til þeirra og finnst þá endilega að allir vilja deila þeirri gleði með mér. Hvað um það, nú er stutt í Ameríkufarana og ég ætla sko að segja mínum snúðum að þeir eigi að taka vel eftir öllu sem er í kringum þá og læra að lifa lífinu lifandi. Það hafi mamma þeirra gert. Þar til næst....

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Mannleg..?

Þá er komið að því! Gott eftir annasaman dag að setjast niður og tæma hugann af þönkum. Það sagði við mig góð kona á dögunum að ég skrifaði svo "mannlega" pistla, og auðvitað tók ég það sem hrós....en eftirá að hyggja fór ég að efast um að það væri spennandi aflestrar....lagðist svo í djúpar "pælingar" og taldi að þeim loknum að mér væri óhætt. Þau blogg sem ég les eru mannleg, mér finnst gott að lesa þau og mér finnst gott að fá komment frá hinum sem eru líka mannleg. (veit ekki alveg hvað konan átti við, við erum jú öll mannleg) Í foreldrahúsum ólst ég upp við elsku, var alin upp í KFUK, ólst líka upp í kórum og tónlistarskólum. Allsstaðar voru mannleg samskipti í hávegum höfð. Eftir að ég fór út á vinnumarkaðinn hefur tónlistarkennsla verið mitt líf, og þar eru mannleg samskipti mikil.--- Einkakennsla, kórstjóri og undirleikari.--- Í því starfi hlýtur að reyna verulega á mannleg samskipti. Mér er ekki tamt að rífast...mér leiðist ef fólk er ósátt, og ef ég væri kóngur eins og í ævintýrunum liði öllum eins og mér, fyrir utan hnén! Ég er meira að segja svo "mannleg" að ég veiði óæskileg skordýr og gef þeim frelsi, og gef krumma líka að borða. Svona er ég nú mannleg og góð!!! ----Nú eygir í Ameríkufarana---- Ég get varla beðið. Ætla að búa til barnaherbergi með leikföngum, gullakassa, bókum og huggulegheitum. Ég ætla að baka súkkulaðitertu, ég ætla að eiga rúsínur og ég ætla að.........gera svo margt. En áður en barnaherbergið verður standsett ætla ég að vera búin að læra alla músíkina sem ég þarf að læra, því þá verður flygillinn notaður í að spila Lilla klifurmús og aðra nauðsynlegri músík. Á þessum mannlegu nótum kveð ég þar til næst.

þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Börn, uppruni og rætur.

Börn eru mikil meistaraverk, þau eru kraftaverk hvernig sem á það er litið. Börnin eru framlenging á okkar lífi og við viljum vernda þau allar götur. Því miður eru ekki allir svo heppnir að eignast börn á þann hátt sem flestir vilja, en í þeirri stöðu eru kostir. Allir eru þeir erfiðir, en fólk gengur þann veg sem þarf, til að eignast barn. Ég tek ofan fyrir því fólki, og hef ærna ástæðu til. Sjálf var ég gefin þriggja mánaða, lenti á flakki í of langan tíma en var svo tekin í langvarandi ást tæpra fimm ára. Mínir "foreldrar" áttu þó börn fyrir en gátu deilt lífi sínu með litlu barni sem öðrum hafðu mistekist að tengjast. Þeim er ég þakklát, ævarandi. Ég hef fylgst með vinum ganga í gegnum barnleysi, og líka fylgst með þeim ættleiða barn. Það barn er orðið fullorðið og hefur ekki veitt foreldrum sínum neitt annað en gleði. Það þarf sterkar tilfinningar og mikla ást að taka að sér lítinn einstakling og koma honum til manns, sama hvaðan hann kemur. Börn eru öll eins, þurfa hlýju og umhyggju. Þau gera engan greinarmun á litarhætti eða uppruna. Þau þurfa bara ást. Núna veit ég af litlum snáða í fjarlægu landi sem er að bíða eftir að komast til mömmu og pabba, og verður ekki langt í að þau sameinist. Ég óska þeim alls hins besta, og vonast til að geta litið þennan sómapilt augum í framtíðinni. Upprunann þurfum við öll að vita,( hvað svo sem við gerum við hann) en ræturnar eru hinsvegar þar sem mamma og pabbi eru. Ræturnar eru það líf sem við höfum lifað. Kannski of djúpt fyrir bloggfærslu, en mér er þá nokk sama kæru vinir. Takið utan um börnin ykkar og segið að þið elskið þau. Þar til.... kær kveðja.