Nú gengur mikið á í íslensku þjóðlífi og náttúröflin brjáluð. Ég ætla ekki að tjá mig um hið fyrrnefnda því mér er ofboðið, og mér vöknar ekki einu sinni um augun við að horfa/hlusta á grátandi afsökunarbeiðendur. Ef ég ætti að kjósa á morgun yrði það bara hún Ása frænka. Hún er þó heiðarleg. --- Náttúruöflin eru ofarlega í huga mér þessa dagana og finn ég fyrir ótta. Ég finn virkilega til með bændum og búaliði undir fjöllunum og bið allar góðar vættir að vaka yfir mönnum og búfé. Íslenski bóndinn er útsjónarsamur og harðduglegur. Við eigum öflugt almannavarnarkerfi, frábærar björgunarsveitir og greinilega yfirstjórn sem veit hvað þarf að gera. Ef það virkar ekki eiga þessir aðilar "plan" B, og jafnvel plan C. (Það höfðu bankamennirnir og stjórnvöld ekki, og því fór sem fór.) Þessvegna trúi ég að fólkið undir fjöllunum haldi sjó og komist frá þessum ósköpum. --Síðan síðast hefur ýmislegt gerst hér á bæ. Komst lifandi frá kjálkaskurðlækninum, en með naumyndum þó. (vitlaust skrifað?) Tunguhelvítið leitar sí og æ í plötuna sem er yfir skrúfunni og get ég varla beðið eftir lokasprettinum til fegurri geiflu. Upptakan á geisladisk kvartettsins er yfirstaðin og langur laugardagur Jökuls einnig. Ég fer að verða of gömul fyrir svona spretti. Í næstu viku verða svo vortónleikar Jökuls hér heima og söngferð austur á land. Tónleikar eldri nemenda skólans verða líka í vikunni svo ég ligg ekki í leti frekar en hinir sem taka þátt í þessu. Af skutlumálum er það helst að hún er notuð við hvert tækifæri sem gefst, og rósirnar í sólskálanum brosa við mér á hverjum degi. Lóan er komin og öll tún morandi af gæs. Nú er klukkan 21.18 og það er bjart úti. Ég vildi óska að það verði bjart undir fjöllunum, ekki seinna en núna.--- Hefur örlítið grynnkað í kýrhausnum, þar til næst bið ég ykkur að hugsa fallega til allra undir Eyjafjöllum.
laugardagur, 17. apríl 2010
mánudagur, 5. apríl 2010
Líkindi?
Kærar þakkir fyrir afmæliskveðjurnar. Það eru forréttindi að eiga afmæli, og gaman að fá sönginn sunginn af góðu fólki. ---Mér finnst svo gaman að sjá hver er líkur hverjum, sérstaklega ef það snýr að mér sjáfri! Eins og ég hef sagt hér áður líktist ég ekki neinum þegar ég var að alast upp, því blóðfólkið þekkti ég ekki. Svo þegar Svanfríður mín fæddist voru flestir sem sögðu að hún líktist mér, en hún var/er eðlilega skemmtileg blanda af báðum foreldrum, þótt hún líkist mér meir og meir með aldrinum. Nú er lítill Natti kominn í spilið og er kominn með "fastan" svip, svip sem mér finnst ég þekkja af mér sem lítilli stelpu. Kannski sér enginn þessi líkindi nema ömmuhjartað. ---Aftur á móti er Eyjólfur sterklíkur Bert, en svipar þó til frænda sinna í Fljótsdal. Gaman að þessu. Nú er páskafríið búið og hlakka ég til að takast á við verkefnin sem vorinu fylgir, vinnulega séð. Á morgun hefst svo næsta skref í tannlæknastólnum í átt að fallegra brosi. Hlakka ekki til, held reyndar að þetta verði alveg djöfullegt! Ég kveð samt á fallegum nótum og sannfæri sjálfa mig að ég verði eins og hetja í stólnum á morgun. Farið varlega þar til næst.
föstudagur, 2. apríl 2010
af ungum og gungum.
Lítil vinkona sagði að ekkert nammi væri í páskaeggjum, bara ungar! Er hrædd um að hún verði fyrir vonbrigðum þegar hún uppgötvar sannleikann. Lítill frændi sagði svo bestimann á dögunum að páskarnir væru inni í páskaegginu. --Gott að hafa svona hluti á hreinu.--- Af gungunni er það helst: Ég er hrædd við eldgos, og er hrædd um/við fólk sem ekki hlustar á síendurteknar viðvaranir um hættusvæði, þoli ekki sjóferðir og er dauðhrædd við tannlækna. Er byrjuð í ferli sem endar í fallegri tönn ef ég lifi það af! Prófsteinninn verður næsta þriðjudag svo ég bið um fallegar bænir mér til handa. ---Var að horfa á mynd um sjálhverfa snillinga og veit ekki ennþá hvort mér líkaði hún betur en auglýsingin frá Iceland express. ---- Talaði við Natta patta í dag, hann talaði mjööööög mikið og ég skildi sumt, en afi átti í einhverju basli. Eyjólfur er náttúrulega orðinn hálffullorðinn og kemur sínu vel til skila. Er farin að telja dagana þar til litla fjölskyldan úr bláa húsinu koma í ömmu- og afahús. Þar til næst, farið varlega og gleðilega páska.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)