laugardagur, 30. júní 2012
föstudagur, 29. júní 2012
Fréttir að vestan!
Nú er gaman að lifa, hér erum við bestimann í góðu yfirlæti hjá okkar fólki. Vikan hefur liðið eins og hendi væri veifað. Það lá nærri að við kæmumst ekki hingað því það fyrirfórst að sækja um ferðaleyfi til USA. Nýjar reglur sem fóru algjörlega fram hjá okkur. Starfsfólk Delta á Íslandi brást við og allt gekk þetta að lokum. En það get ég sagt með sann að það fór um Gvend og meyna. Nokkurra tíma seinkun í NY vegna brjálaðs veður, og sátum við í 3 tíma í vélinni og hristumst á jörðu niðri. Þegar við fórum svo loksins í loftið vorum við 6. flugvél í röðinni, en fyrir aftan okkur voru allavega 11 vélar að bíða eftir flugtaki. Það er því eins gott að dvelja um stund í faðmi fjölskyldunnar. Snúðarnir mínir yndislegir og vel gerðir náungar sem gaman er að umgangast. Eyjólfur les á morgnana fyrir afa sinn og eru það góðar stundir fyrir báða. Við erum búin að fara á safn "route 66" og sjá minningarmark og kapellu í minningu Roy Rogers. Í dag var það svo "draugabær". Þegar gullnámurnar kláruðust fór fólk og eftir varð draugabær, sem er orðinn að vinsælum ferðamannastað. Það var eins og að taka þátt í gamalli káboy mynd úr villta vestrinu að koma þarna. Kæru vinir, lífið er sól og blíða þar til næst.
föstudagur, 15. júní 2012
Mannlíf, ten points!
Mannlíf hér er voða voða gott, og myndin a tarna sýnir Staka Jaka út við ysta haf á fallegu kvöldi eftir tónleika. Dulítið dökk, en hvað með það, allir voru bjartir þegar myndin var tekin.Margt hefur á daga mína drifið síðan krummi sendi mér golfkúluna. Húsið málað (það sem þarf) , minningarreiturinn hreinsaður og með fínum blómum og síðast en ekki síst er girðingin kringum Stafafellskirkju á góðri leið með að verða eins og ný. Eins er ég búin að fara til Reykjavíkur í eftirlit og sagði læknirinn að ég væri bara flottust! Næsta skoðun er eftir 4 mánuði. Það er ótrúleg rússíbanareið að fara í eftirlit, ég hefði ekki trúað því. Það er eins og maður búist við hinu versta þrátt fyrir bjartsýni og jákvætt hugarfar. Þegar allt reynist svo í orden er maður eins og sprungin blaðra og tárakirtlarnir vita ekki hvenær þeir eiga að skrúfa fyrir. ---- Nú er Ameríkuferð alveg að detta á, og þegar húsflugan flytur inn erum við farin. Ég er einhvernveginn svo yfirmáta á alla vegu að ég er að pakka niður og faðma mitt fók um miðjar nætur..... sko, altso hér í mínu rúmi. Gengur ekki, en mér er alveg sama. Sef síðar. Kannski bara í flugvélinni. Núna stendur mikið til hér á Höfn við undirbúning mannlífsþáttar sem sjónvarpið er að taka upp. Bærinn er fullur af fólki sem tekur þátt í að fegra miðbæinn og stemning mikil....nóttin björt og mannlíf gott þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)