sunnudagur, 15. september 2013

Uppsafn og uppsóp!

 Þetta ætlar ekki að ganga eins og til var ætlast. Ég er að átta mig á því að tæknin og ég eigum alls ekki samleið. Kann að setja myndir af myndavélinni á tölvuna, senda og setja inn á þessa síðu. Nú hins vegar gerist ekkert, og ef þetta blog skilar sér ekki verð ég fantafúl. Síðan síðast hefur margt gerst í lífi kotkerlu. Fór í aðgerð í lok ágúst í vonandi lokahnykk á brjóstsvæðinu og eftir það dvöldum við bestimann í algjörri sæluviku á Bergheimum á Sólheimum í Grímsnesi. Dvölin þar gerir manni eitthvað svo ótrúlega gott, maður kemur ekki alveg sami maður til baka. Þeir sem að þessu "batteríi" standa eiga allar heimsins orður skildar.--Eftir þessa dásemdardvöl  hófst kennslan og söngför Gleðigjafanna minna undirbúin af krafti. Í gærkvöldi komum við svo heim ferðalúin en alsæl með yndislega tónleika og frábærar móttökur Vopnfirðinga. Ég hef oft spilað þar tónleika  sem alltaf hafa verið vel sóttir, og þeir eru höfðingjar heim að sækja. Vopnafjörður er einn af fallegustu bæjarstæðum sem ég þekki og landslagið ótrúlega fallegt. Það er auðfarið á Vopnafjörð, beinn og breiður vegur alla leið. Mæli með honum.  Framundan er lífið í allri sinni mynd, og með öllu því sem það býður uppá gott eða slæmt. Ég hef því ákveðið að lífið verði gott og ég hlakka til komandi verkefna sem eru ærin. Þar stendur "doldið" uppúr: Ég er  nefnilega að æfa jass og dixilandlög á píanóið og er algjör tréhestur. Sko, ég er ekki dökk á brún á brá hvar sem þeir eru bestir í þessari tegund tónlistar. Ég er rétt aðeins sólbrún eftir Spán með klassík í puttunum. Mér er samt talin trú um að ég geti þetta og fyrst svo er ætla ég bara að æfa mig í að vera swinguð! Núna í vikunni förum við bestimann til Rvík. og þar ætla ég að biðja mína góðu lækna um gott veður fram að næsta vori. Ætlum líka í leikhús og ef ég verð dugleg og heppin hitti ég kannski einhverja góða í Kringlukaffi....læt vita síðar þar til næst.
Posted by Picasa