fimmtudagur, 22. desember 2011

Og aftur hækkar sól.

Ojæja, ekki er myndin eins falleg og blessað bragðið, og er komin á þá skoðun að það eigi að alfriða rjúpuna. (Leyfa sósuna, en banna fuglinn!) Í foreldrahúsum var ég vön hamborgarhrygg og fannst ekki vera jóla án hans. Eftir að við bestimann héldum okkar jól var úr vöndu að ráða, því bestimann var rjúpumann í gegn! Mér aftur á móti fannst þessi matur lítt kræsilegur, en hvað gerir ekki ástfangin kona? Úr varð samkomulag: Hamborgarhryggur önnur jólin og hin jólin rjúpa. Ok, en samkomulagið fólst í að byrja á rjúpunum! Og rjúpa hefur það verið síðan heillin, og allir glaðir. Núna finnst mér eins og fuglinn eigi að fá að vera í friði, við eigum nóg af öðrum mat.... græðgistuðrurnar sem við erum! Munið þið hér um árið? Kengúra, og hvað veit ég, gott ef ekki kjöt af krókódíl. ---Hér á bæ er allt í góðum gír, og ég hef verið í fullri vinnu við að jafna mig á hremmingum ársins. Gengur það bara þokkalega, en aukaverkanirnar verða sennilega seint út af dagskránni. Hef þó vel funkerað og tekið þátt í jóla jóla. Það eina sem hrjáir mig er söknuður eftir litlu fjölskyldunni minni. Svona er þetta bara og ekkert til að væla yfir í raun, því öllum líður vel og er það fyrir mestu. Eitt er víst að með vorinu þá mun sjást undir iljarnar á okkur bestimann hvar sem við fljúgum vestur.--- Þangað til verður undrið skybe að duga. Ég minnist oft mömmu minnar þegar systir mín bjó úti í Danmörku með litla ömmustelpu. Þá var ekkert nema handskrifuð bréf og símtal þegar mikið lá við. Mamma fór þá í sína fyrstu utanlandsreisu og dvaldi hjá systur minni og fjölsk. í mánuð. Þegar við pabbi tókum loks á móti henni var hún lygalaust með ruggustól undir hendinni. Sko, mamma var innan við 1.60 en stóllinn ansi gerðarlegur. Pabbi fór í flækju en tollararnir brostu. Ég veit alls ekki hvernig hún fór að þessu. (Smá útúrdúr) Í dag setjum við spjaldtölvuna í vasann og leggjum í´ann. --- Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og friðsældar þar til næst.

þriðjudagur, 6. desember 2011

Úr snjó og hjartaryl.
Hér er snjór, en hér er friður. Hún elskuleg dóttla mín varð að fá sumt staðfest, svo þessar myndir af foreldrunum eru sérstaklega ætlaðar henni. -- Vessogú hjartans mín! --Annars staðfesta myndirnar líka annarsvegar að ég er að baka tertu + að ég hef marglitt og skrítið hár, og bestimann hnoðast sem best hann má. Bara gaman að þessu. Dagarnir eru rólegir hjá mér, en samt tek ég þátt í lífinu. Ætla að vera með á jólatónleikunum með mínu fólki, og stefni á að fara í kennslu eftir áramótin. Heilsan kemur eins og ljósið, langt og mjótt, finn mikinn mun frá fyrri viku. Að vísu er ég tilfinningarlítil í tánum og með náladofa í öllum puttum, hef samt tilfinningu í blá-fingurgómunum. Ég get spilað, en úthaldið frekar snubbótt. Allt frekar skrítið, en lífið er samt dásamlegt og nokkuð auðvelt fyrir utan meyrnina sem fylgir mér og mínum á þessum tíma, svona ljúfsár tilfinning ef þið skiljið mig. ---Úti er snjór sem fýkur þvers og kruss en innandyra er allt hlýtt og bjart. Flestir jólasveinarnir eru komnir á sinn stað og líka Jesú og familí. Yndislegi jólabangsinn er kominn á flygilinn og brosir kampakátur út í lífið eins og ég þar til næst.mánudagur, 28. nóvember 2011

Það kom aððí!!

Heil og sæl heilsa ég öllum....þarf ekki að koma í skoðun fyrr en eftir 4 mánuði. Ég er svo himinsæl með sjálfa mig að sjálfhverfari get ég varla orðið. Fékk semsagt flotta skoðun í dag, og frá mínum bæjardyrum séð er ég aaaalveg að verða góð. Fer heim í kotið mitt á morgun og þakka pent fyrir mig.... Heyrumst innan tíðar og þakka ykkur öllum stuðninginn þar til næst. PS. enn og aftur ég er svo glöð..... þið vitið: Brosi svona hringinn, er þakklát, er hamingjusöm og á fullt af jólasveinum! PPS. Kann ekki að setja broskarl!

fimmtudagur, 17. nóvember 2011

Svoddan er það nú....

Jæja gott fólk nú eru tvær vikur frá síðustu geislum og þá hélt ég að allt væri nú orðið gott. Ég er enn að brenna undan þeim og komin með bullandi sýkingu. Er að verða alveg hundleið á þessu og bið bara orðið um gott veður mér til handa, þrátt fyrir hitabylgju utandyra. Sálin er þó í góðum gír þrátt fyrir allt, og meðan svo er "höndla" ég þetta. Þegar ég verð komin í stuð þá skrifa ég pistil sem eitthvert fútt verður í en núna er fúttið í fýlu. Jólapakkinn í litla bláa húsið fer á morgun og það var svo gaman að týna í hann. Það verður ekki langt í að ég setji sko mína sveinka upp, og draumurinn er að geta baka nokkrar kökur. En þar til næst kveð ég frk. fýlu og sendi ljúfastar yfir.

miðvikudagur, 2. nóvember 2011

Limmið!

Nú er frúin sprungin á limminu, en ég veit ekki hvað eða hvar limmið er. Veit bara að núna líður mér eins og ég hafi lent undir valtara. Ég er semsagt búin að gera skyldu mína við frk. kröbbu og var útskrifuð með láði í dag. Vonandi verð ég aldrei aftur vör við þá frauku, því hún er ekki geðslegur förunautur. Ég er þakklát.....þakklát fyrir að hafa greinst í tæka tíð, og er þakklát fyrir óendanlega gott heilbrigðisteymi. Ég er þakklát fyrir yndislega fjölskyldu og vini, og er þakklát fyrir lífið. Þegar allt virtist óyfirstíganlegt og erfitt fékk ég "búst" frá vinum og fjölskyldu, búst, sem hjálpaði mér í gegnum næsta skref. Reynslunni ríkari og 9 tánöglum fátækari held ég áfram í átt að fullri heilsu, og vonandi með sömu hjálp og hingað til. Núna finnst mér að ég þurfi ekki að passa mig á að ganga ekki á grasinu eða biðjast afsökunar á að hnerra, er frjáls....... Það er góð tilfinning. Svo er ég búin að kaupa mér TVO jólasveina af tilefninu......og ég á von á einum frá Hollandi! Ég kannski kaupi mér einn enn, sá einn lítinn og feitan, hvur veit...á ég hann ekki skilið þar til næst?

þriðjudagur, 25. október 2011

"sprell alife"!

Ég vil þakka öllum sem drukku með mér kaffisopann á dögunum fyrir síðast, og finnst að svona hittingur eigi að verða aftur. ----Er að hvíla mig á sjúkrahótelinu þessa vikuna og dveljum við bestimann í íbúð úti í bæ. Geislar og allt sem þessu fylgir er mín fulla vinna, en í aukavinnu fórum við hjónin á frumsýningu Töfraflautunnar og sáum svo Listaverkið í Þjóðleikhúsinu. Ég ætla ekki að fara grundikt í þessar sýningar, en mikið lifandis skelfing var þetta skemmtileg helgi. Fleira er á döfinni sem er skemmtilegt, sennilega svo skemmtilegt að ég gleymi kláða og bruna á geislasvæðinu. Nú er farið að styttast í annan endann og það veit himnafaðirinn og öll sú fjölskylda að þá verður kátt í kotinu, sko mínu altso!............Held svei mér þá að ég kaupi mér eitthvað fallegt og haldi svo veislu þar til næst. Ps. Ég er að fá fyndið hár!

miðvikudagur, 12. október 2011

og áfram seiglast ég.

Er ekki munur?, en hárið er mjög torkennilegt svo ekki sé meira sagt, þar er marglitt! - Ég þakka ykkur öllum góðar kveðjur, mér þykir vænt um þær. Tíminn líður frekar hægt, en seiglast þó áfram. Þótt ég finni ekkert til í geislunum bregst líkaminn við þeim, og þeim skilaboðum verð ég að hlýða með hvíld og að næra sálina. Það gerði ég t.d. í dag. Fór á hádegistónleika í Fríkirkjunni og voru þeir mikil sálarnæring. Yndislegt að geta farið alltaf á hádegistónleika á miðvikudögum. Þrátt fyrir að notfæra mér ekki Ljósið er margt sem ég geri til að stytta dagana. Fyrir svona landsbyggðardömu eins og mig fara allar þessar vegalengdir fyrir brjóstið á mér, og skortur á bílastæðum víða. Lenti í veseni í gær við Lansann, fékk sekt þrátt fyrir að vera með P merkið. Stöðumælavörðurinn baðst afsökunar en gat ekkert gert. Ég átti að andmæla......mikið djö.....hvað mig langaði að andmæla öllu mögulegu. Endaði í Vonarstræti hvar sem gengið var frá andmælunum! Asnalegt í meira lagi, en svona uppákomur stytta t.d.dagana!. Nú, svo skrapp ég heim um síðustu helgi og var það yndislegt. Bestimann fékk nöldrið sitt heim og allir glaðir. Hann verður svo með mér í viku bráðum. ----- Núna á laugardaginn ætla ég að fara í Kringluna um kl. 3 og fá mér kaffi á kaffibarnum fyrir framan Byggt og Búið. Má bjóða einhverjum með?-----Farið varlega elskurnar þar til næst.

föstudagur, 30. september 2011

25mínus2eru23!

Eins og sést fer ég að geta slengt lokkunum og fengið valkvíða við að velja sjampó! Komin til vetrardvalar liggur við og er byrjuð í geislum. Það er alveg sama hvaða teymi tekur við mér, allir eru englar. Dreif mig í Ljósið strax á öðrum degi og fékk nærri hjartaáfall. Þarna var þá akkúrat þann daginn prjónakaffi! Halló, sá sem veit eitthvað veit um mig og handavinnu. Ákvað að hlæja frekar en að fá áfall, en mikið hvað okkur bestimann þótti þetta skondið. Hvað ég geri er allsendis óljóst, kannski ég byrji nú á einhverju prjónlesi eða öðru föndri!? Þarna get ég líka lært skartgripagerð og keramikmálun, en ég held bara að ég sleppi þessu. Dagarnir hljóta að líða þrátt fyrir skort minn á allrahandaföndri. Ýmislegt er gert í Ljósinu og finnst mér það sem ég sá og heyrði yndislegt. Staðreyndin er nú sú að t.d get ég illa stundað þá hreyfingu sem í boði er, og ef ég get ekki gert hlutina vel þá sleppi ég þeim opinberlega og geri þá á heimavelli. Ágætis lausn. Er hjá sjúkraþjálfa og þar fæ ég að púla. Annars bara í þokkalegum gír, og bannorðið mitt næstu vikurnar er LEIÐI, algjört tabú því ég er í góðum málum. Þarf eingöngu þolinmæði, og hingað til hefur hún verið á góðu róli. ----Ég þori ekki að fullyrða neitt, en ég er samt viss um að ég sá eina bloggvinkonu með sínum manni í gærmorgun á leið minni á spítalann........Kannaðist við svipinn á þeim í gegnum bílrúðurnar. Doldið fyndið ef satt reynist hvað landið er lítið. Katla voru þið á ferð á Snorrabrautinni á ljósleitum jeppa? Annars á maður ekki vera að glápa út og suður á keyrslu, ekki frekar en að borða spaghetti undir stýri. Geislandi glöð kveð ég þar til næst. Ps. Sakna bestimanns all svakalega.

laugardagur, 17. september 2011

Og áfram skal haldið.

Bara svona rétt til að þið fáið vatn í munninn, og lygalaust, þetta var gott. Ekki amaleg svona matarboð. ---Nú hefur lífið tekið enn og aftur stóran sveig miðað við fyrri plön. Plön eru ekki vinir mínir þessa dagana. Eftir hremmingar mínar undanfarið er búið að setja stopp á frekari lyfjagjafir, ég yrði bara aftur veik og jafnvel verri en síðast. Þetta er allt útpælt og engir sénsar gefnir. Í dag eru nákvæmlega 6 mánuðir síðan ég greindist og þá tókum við bestimann þá ákvörðun að treysta læknateyminu algjörlega fyrir lífi mínu, og það hefur ekkert breyst. Ef þeir segja að ég sé búin að fá nóg, nú þá er það svo.

Lyfin eru farin að gera ógagn, og ég VEIT að líkaminn er búinn að fá nóg. Nú semsagt byrja geislarnir sem áttu samkvæmt ritúalinu ekki að byrja fyrr en í lok október. Ég er náttúrulega glöð með það, en samt: Ég var búin að stimpla allt annað í hugann, og þarf minn tíma til að plana upp á nýtt. ---Var einhver að tala um einhverfueinkenni?--- Nú er bara eitt eftir sem ég þarf að taka á, það er að þurfa að vera í Rvík. í tæpar 6 vikur. Þar er ég nú fædd og uppalin og á fjölskyldu og vini, en get samt illa þrifist þar. Kannski ég hitti ykkur öll á kaffihúsum borgarinnar, sitji í stúku í Hörpu og gefi öndunum brauð á morgnanna. Ef þið sjáið hávaxna konu á eirðarlausu rölti með einhverskonar höfuðfat og tvær svartar hækjur þá er það ég þar til næst.

sunnudagur, 11. september 2011

jæjajæja

Mikið verður gaman fyrir mig, að ég tali nú ekki um þá sem kíkja hér inn að geta farið að skrifa eitthvað skemmtilegt. Er ennþá á sjúkradeildinni en er ekki eins einangruð og áður. Vonandi fæ ég heimfararleyfi á morgun því allt er á uppleið. Búin að fá tvær einingar af blóði, úr Jóni og Sigursteini! Ég er viss um að Jón er þægilegur náungi en hinn er örugglega stór og gráhærður þrjóskupungur en með gott blóð.Að vísu hafa neglurnar á stórutánum sagt sig til sveitar í bili, en ég býð þeim glöð lögheimili sitt aftur í fyllingu tímans hjá mér. Hér hafa allir verið yndislegir, og get ég seint þakkað þessu góða fólki hjálpina, og gert mér kleift að dvelja í heimabyggð. Hér er fagfólk í hverju rúmi. Haha, ástkæra ylhýra og allt það. Fagfólkið er sem sagt ekki rúmliggjandi. Í gær var hittingur hjá karlakórnum og var yfirmáta fúlt að geta ekki tekið þátt í gleðinni sem var mikil, og bestimann þurfti að skreppa af bæ svo hann komst hvergi heldur. Sveinar kátir og Þú álfu vorrar hljómar svo svakalega vel úti í guðsgrænni náttúrunni. Á fimmtudaginn fer ég í næstsíðust lyfjagjöfina og bið svo innilega um gott veður. Þá er bara ein eftir og ef allt gengur eins og það á að ganga er það Ameríka. Við bestimann verðum nefnilega fara að sjá fæturna á tengdasyninum, annað gengur ekki. Natti minn fann það út að í gegnum skybið sjáum við bara andlitið á Bert. Ekki lappirnar! ---Nú sendi ég rólegheita kveðju úr firðinum fagra sem umlykur allt svo vel. þar til næst, Gulla tásla

þriðjudagur, 6. september 2011

Ljótan atarna!

Ég var varla búin að blása á blekið í sjálfblekungnum síðast þegar alræmd sýkingin bauð góðan dag. Og nú var sko ekkert elsku mamma eða amma. Síðan á föstudaginn var hef ég legið í einangrun að mestu leyti og allt heimsins besta lið vakið og sofið yfir velferð minni. Ég sem skjólstæðingur HSSA á Höfn hef ekki orðið vör við niðurskurð, en auðvitað er hnífurinn hér á lofti eins og annarsstaðar. Hví í veröldinni er ekki hægt að þyrma grunnstoðum samfélagsins. Við búum við allsnægtir, að geta gengið inn og fengið góða læknisþjónustu er því miður ekki allsstaðar í boði. Skólarnir... Æ, ég kann ekki ráðin, en ég kaus fólk einusinni til að ráða þessu en það lið stendur varla undir sjálfu sér í dag. Hvað þá á grunnstoðunum!---Fréttatíðnin er lítil þessa dagana, en bestimann er sá eini sem er æskilegur að hitta mína æruverðugu persónu, og ekki fer elskulegt starfsfólkið að segja mér djúsí fréttir. Þess vegna hlusta ég bara á RUV horfi á sjónvarpið en yfirleitt eru augun dottin og þannig líða dagarnir. Þó hef ég tekið meira eftir lífinu í kringum mig í dag en í gær, einfaldlega vegna þess að mér líður mun betur. Farin að geta talað og kyngt, sýkingin í olnboga og augum líka á undanhaldi.---Ég týndi sem betur fer ekki sálinni, hún bara hvíldist um stund. Svo segi ég bara eins og karlinn, Vittu til........á morgun verð ég bæði falleg og mikið brött. Þar til næst elskurnar.

laugardagur, 20. ágúst 2011

hremmingar í rénun

Já, ég þarf ekki annað en að horfa á snúðana mína til að lífið gangi betur, að ég tali nú ekki um stóra snúðinn sem keyrir ungana. Eftir síðustu inngjöf var allt í góðum gír þrátt fyrir allt, og sárin komu í munninn á nokkurnveginn réttum tíma. Í stað þess að hverfa á tveimur dögum fékk ég sýkingu í allan munninn, út í eyru og langt niður í "vil ekki segja hvert". Þá fór nú að syrta í álinn og dugnaðurinn að dvína, því ef ég fæ ekki að borða er voðinn vís. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá er ég loksins að verða frú Guðlaug aftur, enda ekki seinna að vænna, næsta inngjöf er eftir helgi, og þá verð ég að vera orðin nógu góð til að takast á við hana.

Ég er hreinlega farin að hallast að því þessi sýking hafi kannski ekkert með inngjöfina að gera, það virðast margir þjást af öndunarfærasýkingum þessa dagana. ---Við þessi skrif mín er eins og ekkert skemmtilegt gerist, en það er öðru nær því lífið er skemmtilegt, nú og svo styttist í Ameríkuferð. Ætlum auðmjúklega að lofa tengdasyninum að lenda almennilega áður en innrás tengdaforeldranna hefst. Með því að horfa á allar fallegu myndirnar sem ég á af fólkinu okkar bestimanns hvetur það mig til frekari dáða, og segir mér að hætta öllu röfli, og kyngja hvort sem ég get það eður ei þar til næst.

fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Vegurinn styttist

Jæja, í morgun hófst nýr kafli í lyfjagjöfinni. Uppfull af sterum sit ég hér og trúi varla að þetta sé yfirleitt að gerast, en samt er ég farin að telja niður! Er sem sagt hálfnuð. ---Húrra fyrir því.--- Lyfin sem ég fæ núna eru öðruvísi en trukklyfin sem ég hef fengið, og vonandi léttari.Var sett í frystihanska til að bjarga nöglunum, og það var fjandakornið doldið vont. Líkamshitinn í mér var þó það góður að skipta þurfti þrisvar um hanska. Eftir blóðprufuna sem var tekin áður en lyfin voru blönduð í mig sýndi að ég tek þessu alveg ótrúlega vel. Orðrétt sagði læknirinn að ég væri sko ekki til vandræða.... ég ætla að minna mitt fólk á þetta nokkuð reglulega! Ég þarf ekki ennþá 7-9-13 að fara í milliblóðprufu, gildin mín eru ennþá það góð. ---Húrra fyrir líka.--- Þetta hefur örugglega eitthvað með gildismatið að gera! Ein hliðarverkun getur fylgt svona miklum steragjöfum, og þetta er ekki lygi. Verslunar-æði getur gripið fólk, og þá sér í lagi konur! Bestimann dreif mig því beint í náttstað eftir inngjöfina svona til vonar og vara, og hann hefur mikinn hug á að fara snemma af stað með mig heim á morgun, og mig sem vantaði svoooo margt. Jæja, koma tímar og koma ráð, og kann ég margar leiðir að góðum ráðum. En nú er ég heimaskítsmát...eldrauð og þrútið steratröll sem langar helst að smíða á nóttinni kann ekkert annað ráð en að þrauka þar til bara næst elskurnar mínar. Læt þó eitt Húrra fylgja í lokin og bið ykkur að fagna með mér.


fimmtudagur, 28. júlí 2011

Blómskrýdd frú!Það er nú bara þannig að ég elska lífið. Sérstaklega eftir góðar fréttir af tengdasyninum. Sem fyrr stendur dóttlan mín sem þessi stóri klettur í lífsins ólgusjó. Nú fer þetta að verða gott, og héðan í frá ætla ég að elta Bert upp stigann, og í lok árs ullum við hvort í kapp við feðginin, því þau standa nefnilega í ströngu. Að vera aðstandandi er heilmikið "djobb". -Héðan af Hólabrautinni er allt gott í sumarblíðunni. Garðurinn í blóma, rósaskálinn flottur, frúin málar og málar og býr til kæfu eins og enginn sé morgundagurinn. Sko, þegar sterarnir eru við völd ræð ég mér ekki fyrir kæti og krafti, en þegar þeir fjara út verður allt mikið rólegra og eðlilegra. Mikið lifandi skelfing skil ég litlu börnin núna betur sem þjást af ofvirkni og athyglisbresti. Þau eru nefnilega lítil og skilja ekki staðreyndir. Ég er fullorðin og veit um hvað málið snýst, en ræð ekki við að ná eðlilegri orku. Tek þó fram að steranir ráða ekki alveg yfir þessum þremur vikum sem líður á milli lyfja. Margir dagar eru eins og ég vil hafa þá. Í næstu viku hefst seinni skammtur af lyfjum, og þá verður fróðlegt að sjá hvernig ég virka... Okkur var sagt að seinna hollið væri vægara og því ætla ég að trúa.... Því...ég ætla í lítið blátt hús....ég ætla að faðma fólkið mitt í tætlur og ég ætla að tala við dóttluna alla nóttina! (á sterum væntanlega!) Við bestimann fórum í 36 klukkustunda ferðalag á dögunum og vorum sem fyrr skemmtilegir ferðafélagar í augum hvors annars. Merkilegt nokk eftir 37 ára búskap. Gaman að þessu kæru ferðafélagar í lífsins litrófi þar til næst.

laugardagur, 16. júlí 2011

Föðurhús þann 17. júlí 2o11.

Svona byrjuðu oft bréfin í þann tíð er engar tölvurnar vóru!

Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það, og má alveg fullyrða að svo sé rétt. Þessvegna ætla ég að leyfa mér það að halda því fram að litla stelpan mín sem á afmæli í dag skari fram úr öðrum snótum í mínum augum! ---Þar sem ég sit núna og læt hugann reika upplifi ég komu dóttlunnar í heiminn, og þrátt fyrir að vera ósköp bág var hún strax fallegust. Við það ætla ég að halda mig og ekki orð um það meir. ---Afhverju er ég að brölta með þessi skrif á blogginu mínu? Einfaldlega vegna þess að mig langar til þess. Ég er alveg óhrædd að segjast elska dóttluna, bæði við hana sjálfa og aðra. Hví skyldi ég þá ekki leyfa mér að blasta því hér? Þessi litla hnáta sem þurfti svo mikið að hafa fyrir lífinu fyrstu vikurnar er mér efst í huga núna. Hún sýndi það strax að hún var baráttujaxl, og gaf lítið eftir ef svo bar undir, og nú lá lífið við. Hún ætlaði ekki að láta í minni pokann, enda stóð hún uppi sem sigurvegari. Ég lít ennþá á hana sem sigurvegara. Hún yfirvann nefnilega svo margt sem erfitt er að leggja á litlar manneskjur, allt gerði hún það með bjartsýnisgleraugun á nebbanum, hvikaði aldrei. Þegar hún þurfti "pepp" nú þá vorum við til þjónustu reiðubúin og alltaf á vaktinni eðlilega. Þessi litla hnáta óx úr grasi sem ábyrgur og heilbrigður einstaklingur með hjartað á réttum stað. Dálítið utan við sig á stundum og átti það til að "týna" hlutum....eða eigum við kannski að segja að "gleyma" hlutum? En hvað svosem eru vettlingar, eldhússigti, nafnskírteini (þegar mikið lá við) og fermingarföt í stóra samhenginu? Kröfur hefur daman aldrei gert, bað um 100 kall fyrir tyggjói og skilaði svo afganginum. Bleik og dömuleg föt voru ekki nógu hentug fyrir hana, of skítsækin. ( Mamman reyndi þó mikið og oft.) Lærði á endanum að frökenin hafði sinn eigin fatasmekk og þar kom minn smekkur ekki til greina, en alltaf var hún fín. Líka þegar hún kom fram obinberlega í smókingnum af pabba sínum og í skyrtu af Torfa. Tíminn leið, hún varð okkar besti félagi á ferðum okkar í útlöndum, og við sáum allt í gegnum hennar gleraugu. Líka þegar heyrðist hátt í stjörnunum, þá göptum við bestimann af hrifningu. Einu sinni sáum við hana dágóðan spöl frá okkur húkandi á hækjum sér og fólk dreif að og nánast húkti líka. Þá var mín að skoða maura við vinnu og hóaði bara í næstu menn til að sýna þeim undrið og gleðjast með sér. Svona hefur dóttlan mín verið alla tíð. Á auðvelt með að hrífast með og fá aðra til að taka þátt í gleðinni. Auðvitað er hún ekki alltaf á skemmtivaktinni, en fjandakornið, það er stutt í hana. Nú er hún að upplifa allt þetta í gegnum sína syni, og er fljót að tileinka sér þeirra hugsunarhátt. Hún er nefnilega alveg þrælflottur uppalandi. (Ég held samt að hún velji ennþá á þá föt og komist upp með það!) Síðustu mánuðir hafa ekki verið auðveldir fyrir dömuna mína. Svo mikið hefur gengið á í kringum hana að mér/okkur hefur ekki alltaf staðið á sama. En...enn og aftur kemur í ljós hversu mikill baráttujaxl hún er.......Hún stendur uppi með pálmann í höndunum. Alveg sama hvernig jörðin snýst í kringum hana, hún skal gera gott úr öllu. Því bið ég þess að nú fari útlegð míns elskulegar tengdasonar að ljúka og hann komi hress heim í lítið blátt hús. Svanfríður mín á semsagt afmæli í dag og ég tek ofan fyrir henni á allan hátt. Hjá henni er góðvinkona íslensk og munu þær þeytast um í orði og borði eins og enginn sé morgundagurinn.--- Langar til að vera fluga á vegg þar til næst. Hjartans mín, til hamingju með daginn.

sunnudagur, 10. júlí 2011

jamm og jæja

Þá fór hringvegurinn í sundur. Einmitt þegar ég ætlaði að vera á ferð í skjóli jökla. Náttúran lætur ekki að sér hæða og tekur ekki tilllit til eins né neins! Neitaði að fara fjallabaksleið, þannig að ég kom fljúgandi án bestimanns og fer í lyfjameðferð á morgun. Við Bert stöndum því í ströngu á morgun, sitthvoru megin Atlandsála. Þið sem komið hingað í heimsókn hugsið nú fallega til okkar. Á morgun er ég hálfnuð með lyfin, og þar með þessum sterku lyfjum. Síðustu 4 skiptin eru vægari, og sennilega gefin með viku millibili. Veit ekki hvort það er slæmt eða ekki, en allavega klárast meðferðin fyrr. Kannski þoli ég vikumeðferðina ekki eins vel og hingað til, en það verður seinnitíma vandamál. Má fjandakornið ekki vera að drolla þetta mikið lengur, ég þarf að fara að komast í lítið blátt hús. Ljúfastar yfir og allt um kring þar til næst.

mánudagur, 4. júlí 2011

gottgott!

Fötin fundin, fötin fundin trala la la la þar til næst. (syngist) Ps. Næstu skrif verða fyrr en síðar því mikið liggur undir. Litla hnátan mín verður stór og um hana ætla ég að skrifa næst, en hvað það verður veit nú enginn. (enn erum við að syngja) Ég ætla bara að láta hugann og puttana ráða för, en helst þó sálinni. Ljúfastar yfir þar til næst.

mánudagur, 27. júní 2011

Ósár og sæl.

Ekki þýðir að segjast ætla að skrifa sig frá hlutunum og gera það svo ekki. Kanadaferðin var alveg ógleymanleg, og ég kom ekki söm heim. Veikindi mín létu ekkert á sér kræla og var ég ótrúlega hraust og heppin með sjálfa mig. Gott ef mér bara líkar ekki við mig! ---Tónleikar okkar tókust mjög vel og segi það enn og skrifa: Ég þekki ekki eins sterka liðsheild og karlakórinn Jökull er. Hef ferðast með þeim í 36 ár, og aldrei neitt komið uppá sem spillir tilgangi ferðanna eða vinskapnum. Ég vissi að Íslendingar í Vesturheimi halda í gamla landið með margs konar hætti, en að mér dytti í hug að upplifa það svona sterkt. Að hitta 3ju kynslóð landnemanna og heyra þá tala á nánast lýtalausri íslensku kom virkilega við hjartað í mér. Skil ekki hvernig fólkið komst af á þessum endalausu sléttum með tvær hendur tómar, kunni ekki að yrkja landið, mállaust og allslaust. Svo erum við varla talandi nema að sletta og ælandi hikorðum út og suður! Flugum út og heim með litla appelsínugula fuglinum, og það er ekki gott til afspurnar. 6 klst. seinkun á heimleiðinni og var ég því orðin harla úldin. Inngjöf morguninn eftir, en þrátt fyrir mikla þreytu var dokski voða ánægður með mig og mín gildi. Hef svo gott gildismat sjáiði til. Myndin sem fylgir þessu bloggi sýnir okkur bestimann uppstríluð í konsertfötum og með regnhlíf sem ég fékk að gjöf eftir tónleika. ---Ósköp venjuleg mynd, en tek ég fram að kjóllinn minn er sko Design from Dior. Þannig er nú komið að þessi annars fínu föt urðu eftir í fataskáp á hóteli okkar í Winnipeg! (vonandi hanga þau þar ekki lengur) Hver gleymdi? Nú það veit ég ekki, en sá sem er orðinn meira en sextugur í karlkyni verður að skrifast fyrir þessu. Nú eru hinir og þessir vonandi að redda Diornum og dressi bestimanns. -- Nú ætla ég að njóta þess að vera til og eins hraust og hugsast getur. Hef ekkert orðið veik, og asnalega tímabilið gengur yfir á 4-6 dögum. Eftir næstu inngjöf verð ég hálfnuð með lyfin. Allt líður þetta. Nú er bara að vona að allt gangi fljótt og vel hjá litlu fjölskyldunni minni vestanhafs, þar eru allar bænir mínar. Ég vildi óska að ég gæti einhverju ráðið, þá er ég að tala um það sem ekki er hægt nema í draumum. Enginn á að fá krabbamein fyrr en vel fullorðinn. Hljómar asnalega, en vel fullorðin manneskja hefur lífsreynsluna og langt líf að baki. Ég læt þessa setningu standa þar til næst.

laugardagur, 11. júní 2011

ha ha!Las í rólegheitum Fréttablaðið með mitt fína höfuðfat....Þessi náungi fyllti út eina síðuna og ég er enn að hlæja, og þannig ætla ég til Kanada, en með annarskonar höfuðfat. Ha ha þar til næst.

miðvikudagur, 1. júní 2011

Veit ekki....allt mögulegt.

Skipað gæti væri mér hlítt, og mér var bæði hlýtt og hlítt þegar myndin atarna var tekin. (Ástkæra ylhýra og allt það) Þar sem engin hafði áhuga á skrautlegu orðunum úr síðasta pistli ætla ég ALDREI að upplýsa hvað þau þýða! -- Þetta með málið, hef bæði heyrt gos sett í margföldun þar sem útkoman varð gös, og heyrði konu tala fjálglega á öldum ljósvakans um menningararf.... sem varð að menningarörfum! Er ekki með tuð og tuldur, bara datt þetta svona í hug í þessum "töluðum" orðum. Svo get ég endalaust pirrað mig, en jafnframt brosað þegar íþróttafréttamenn og iðkendur "allskonar" eru að lýsa gangi mála. Fyrir leik, og eftir að hafa tapað leik, nú eða unnið með jafntefli! Hvaða vit hef ég á svosem á svona uppákomum. -- Af mér er annars allt gott að frétta, og hafi ég haldið að ég væri gerð úr afgöngum er það sannast sagna alrangt. Ég er greinilega sterk bæði andlega og líkamlega. (Ok, þrátt fyrir hnén) Mér hefur ekki orðið flökurt og þaðan af síður gubbað. Að vísu geng ég í gegnum asnalegt tímabil í sirka 3-4 daga, en það er varla til að kvarta yfir. Svefnleysi og lopabragð í munni angra mig mest. Lopabragðið gengur fljótt yfir en svefninn er ferlega skrykkjóttur, en hef ákveðið að láta það ekki á mig fá. Það er enginn sem rekur mig á fætur klukkan 7 á morgnana, og ef ég á vonda nótt þá bara sef ég þegar Óli lætur sjá sig. Hafi ég lært á lífið þegar ég átti í sem mesta basli með að halda hnjánum þokkalegum þá held ég að nú sé ég komin með meistaragráðu. Ég er nefnilega ekki í þeim forréttindahópi sem ég hélt ég væri, ég er ekkert endilega búin að fá minn skerf af lífinu, ég er mannleg, ég er breysk og get djöflast út í almættið fyrir vonda meðferð. Ég er núna eins og svo oft áður búin að sjá að ég er þrátt fyrir allt forréttindapía sem glímir við nokkurnskonar lúxusvandamál. Ég er ekki að gera lítið úr því sem ég /við erum að ganga í gegnum, en ... það eru svo margir, svo margir sem hafa það milljón sinnum verr en ég. Það læknar mig að vísu ekki, en ég horfi í kringum mig og þakka fyrir það sem ég hef. Þið þarna úti hafið veitt mér mikinn stuðning, og stuðningur er meira virði en margur heldur. --Takk takk. -- Nú er ég að undirbúa mig fyrir tónleikaferð til Kanada, andlega og líkamlega. Á fullt af húfum, skuplum, slæðum og flotta kjóla, og nýjan augnbrúnalit. Hlakka til þegar allt verður í gróanda á kollinum á mér þar til næst.

mánudagur, 23. maí 2011

aska,eldfjall, dýr og snjór

Þetta er náttúrulega ekki bjóðandi mönnum og skepnum. Mikið ofboðslega finn ég mikið til með bændum vestur frá. Við bestimann vorum að músísera á laugardaginn fyrir útskriftanema frá FAS, en drifum okkur svo. Langaði á tónleika hjá KR-ingum í gær og því voum við snillarnir svona ljónheppin að keyra syngjandi sæl vestur í Víkur. Karlakórarnir hans Friðriks sviku ekki eyrun frekar en venjulega, drengirnir sumir stóðu ekki út úr hnefa en sungu eins og litlir strákar geta best sungi', og gömlu kempurnar hafa engu gleymt. Takk fyrir okkur. Nú er bara Harpa eftir. Gott að eiga eitthvað eftir. ---Fór í lyfjagjöf nr. 2 í morgun og var doksi bara vel ánægður með frúna og sagði að blóðgildin mín væru óvenjulega góð, en ég veit svosem ekkert hvað það þýðir eiginlega. Vonandi veit það á gott. Á morgun fer ég í slökun og hvað ég hlakka til að hitta þessa yndislegu konu. Eftir það förum við að huga að heimferð.....sennilega norðurfyrir ef það 'sé' sem virist vera orðið fast í of mörgum sem eiga að tala gott mál! Þoli það illa, en heyrði aftur á móti skemmtileg orð á dögunum. Það fylgdi þeim skýring, en gaman þætti mér vita hvort þið þarna úti hafi heyrt þau notuð. Í næstu skrifum kem ég með skýringarnar. Lifið heil þar til næst og hugsum til allra sem standa í ósköpunum vegna Grímsvatna. Orðin eru...Lomma, slomma, gluggabrauð, glenna og kviðsletta. Kíkið helst ekki í orðabók, ef ske þetta skyldi standa þar svart á hvítu. Góða skemmtun.

fimmtudagur, 19. maí 2011

Númer 200!

Einu sinni ætlaði ég aldrei að eignast tölvu, aldrei gemsa eða neitt annað svo flókið! Jæja, ég hef ekki staðið við neitt af þessu, nema heimabankann....hann kemur aldrei...eða þannig. Svo ætlaði ég heldur alls ekki að skrifa neitt á tölvuna sem gæti komið fyrir almenningssjónir. Nú, Kibba kom mér á lagið, sagði að þetta væri svo bráðnauðsynlegt, og hvað gerist þá? Hún hætti að blogga og flaug á vit fésins en þangað ætla ég heldur aldrei. Ég verð fjandakornið að standa við gerða samninga við sjálfa mig. Semsagt fésið og heimabankinn eru ekki í spilunum! Hvað um það, þetta er blogg númer 200 og það finnst mér "cool". Eiginlega afmæli...það á afmæli bloggið o.sv.frv. --- Ég er glöð og bara nokkuð hress. Hárið er að vísu farið, en ég á margar húfur. Eftir Júróvísion hreinlega datt það af. (dularfull tímasetning) Mér fannst það súrt í broti því ég spilaði tónleika með þeim ungverska daginn eftir á Hammondhátíð á Djúpavogi. Gerði það bara með húfu. Ég hef ekki orðið veik, en ýmis asnaleg einkenni hafa gert vart við sig, svo sem eins og allsvæsin svitaköst og ullarbragð í munni. Þá nebblega verður matarbragðið svona ullarkennt, ef þið skiljið hvað ég meina! Annars hef ég ekki yfir neinu að kvarta. Vona svo sannarlega að þetta gefi tóninn fyrir framhaldið, svo áframhaldandi bænir og hlýjar kveðjur eru virkilega vel þegnar. Síðustu dagar hafa einkennst af mikilli prófatörn í skólanum og þessum venjulegu vorverkum þar. Sem betur fer hef ég getað tekið drjúgan þátt í að klára veturinn, og slitum við skólanum nú í dag. Samkennarar mínir eru núna úti í þeirri guðsgrænu að fagna lokum og er ég með þeim í huganum. Þarf að undirbúa mig andlega og líkamlega fyrir næstu lyfjagjöf sem verður á mánudaginn. Mér finnst núna eins og allt sé á uppleið, vorið og gróandinn, minn elskulegi tengdasonur reyndist ulla á skjaldkirtilinn og Svanfríður mín og snúðarnir eru flottust. Hvað get ég beðið um meira? Þar til næst sendi ég ljúfastar yfir.

sunnudagur, 8. maí 2011

Í faðmi blárra fjalla.Ég heilsa ykkur öllum með bros á vör. Síðan síðast (fyrir utan fyrstu nóttina eftir inngjöf) hefur allt gengið vel og vona ég að nú hafi ég gefið tóninn um það sem koma skal.-- Er að læra á líðanina og læra að sættast við hlutskipti mitt næstu mánuði. -- Vorið komið, allt er að lifna til lífsins og ég ætla að taka þátt í þeirri lífsbaráttu. Á skutluferð minni um hornfirska "búlluvardinn" er yndislegt að sjá fjöruna og fjörðinn fullan af lífi. Ótal eyjar kúra í firðinum fullar af fugli. Umlykjandi þessa fegurð eru svo jöklarnir þannig að manni vefst oft tunga um tönn gagnvart fegurð náttúrunnar hér eystra. --- Að vaða úr einu í annað hefur aldrei verið bannað, en mikið lifandis ósköp gerði ég góð skutlukaup hér um árið, því Frelsi ég finn!---- Nú, svo ég svo yfir mig glöð að litla fjölskyldan mín skuli nú loksins ná saman í stóra landinu. Það voru björt bros á skybinu í dag. Til stóð að við bestimann færum til þeirra frá Kanada 19. júní, en það bíður betri tíma, en spilandi ætla ég til Kanada. Þar til næst sendi ég ljúfastar yfir úr 8 vikna reyklausu koti.

mánudagur, 2. maí 2011

Hænufetið.

Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum sem styðjið svo vel við bakið mitt með bænum og góðum kveðjum. Mætti í morgun illa sofin og full kvíða í fyrstu inngjöfina, en hefði alveg getað sleppt þessum látum. Allt gekk eins og í sögu, æðin var góð ég reyndi að hugsa fallega um þetta góða efni sem á að lækna mig. Er með slatta af pillum í farteskinu við ógleði, og svitna eins og húðarklár. Ekki ætlast ég til að komast í gegnum þetta án þess að finna fyrir því, en það veit guð að ég vona að hliðarverkanirnar verði vægar. Vonandi verður máttur allra góðra bæna það mikill að bærilegt verði. ---Við bestimann fórum á tónleika Fóstbræðra sl. laugardag og nutum hverrar mínútu, og ekki var síðra kvöldið í óperunni. Maður lifandi hvað lífið var gott þennan dag þrátt fyrir vetrarveður og færð, asnalegt svona á vordögum, en sló svo í 15 stig í dag og stór hópur fólks hljóp hér framhjá léttklætt með þunga byrði á hausnum, og eða í fanginu. Talandi um kýr á vorin? Fyrsta skrefið var stigið í dag, og ég ætla að líta á hálffullt glasið en ekki hálftómt. Lífið er bara nokkuð þokkalegt núna, og ég vona að ég geti sagt það líka þar til næst.

laugardagur, 30. apríl 2011

Næsta skref

Stórtónleikar í gærkvöldi, og flottir, maður lifandi og nánast fullt hús. Í stað blómvandar í lokin fékk ég svakalega töff húfu. Sé mest eftir því að hafa ekki opnað gjöfina og spilað aukalögin með hið flotta höfuðfat. Get nú státað af einum sjö höfuðfötum sem virkilega slá út hattabilunina í brullaupi nokkru bresku sem vonandi endist sem lengst. -- Sjúkraþjálfan linaði auma vöðva í v.handlegg í morgun og er þetta fyrsti dagurinn í fimm vikur sem ég finn verulegan mun til hins betra þrátt fyrir mikið álag í gærkvöldi. Í morgun tók síðan hárgreiðsludaman mín við mér með sinni yndislegu nærveru og gerði mig gasalega drengjalega til höfuðsins. Svei mér , ég er fín en doldið létt á hoveded. Sumsé, er í stífri aðlögun fyrir lyfjagjöf mánudagsins. Veit ekki "rassgat" hvernig hún kemur til með að virka á frúna, en vona og trúi því út í hið óendanlega að ekkert hér eftir geti orðið eins slæmt og það sem búið er. Er þó ekki að kvarta, en þetta hafa verið djöfullegar vikur, en ég læt ekki bugast. Á morgun ætlum við bestimann á tvenna tónleika....sjáið til...menningarferð í bland við annað. Fóstbræður klukkan "fjégur" og óperan klukkan átta. Þessir yndislegu tenorar eru flottir hver á sinn hátt, en ef þeir ætla að keppa hver nær hæst og með mestu hljóðunum, þá lem ég þá með hækjunum. Get það alveg skal ég segja ykkur. ---Nú er kominn "Össurar"tími á þessi skrif svo hætta ber á stundinni. En hvað gerir maður ekki þegar Óli Lokbrá neitar að kíkja við? Bestimann kom með "frábæra" lausn á dögunum sem mér líst vel á, allavega ef maður er ekki raunsær,,,,,,bara ástfanginn eftir tæp 40 ár. Bestimann langar til að ræna mér og taka mig á eyðieyju þar sem ekkert slæmt getur komið fyrir..... Vitið þið hvar þessi eyja er? --Ég veit hvar hún er....Ætla ekki að segja ykkur núna hvar hún er, en endilega reynið að finna það út. Ég ætla að upplýsa ykkur seinna hvar hún er. Ég á þetta blogg og ræð því öllu hér, líka þeirri eyðieyju hvar bestimann ætlar að planta sér með sinn ránsfeng. Elskurnar þarna úti, ég þarf allan styrk sem þið getið gefið. 2. maí er dagurinn sem ég þarf á ykkur að halda. Þar til næst skal menningin blómstra og við bestimann ætlum að lifa lífinu lifandi þar til næst.

föstudagur, 22. apríl 2011

Að kvöldi dags.
Þrátt fyrir allt náði ég að klára tónleika með Gleðigjöfum og Stökum Jökum, þau skiptu með sér tónleikunum. Á þessum myndum sjást stakir syngja með mínum mönnum úr Gleðigjöfum, svo tökum "við" stakir lagið uppá við og erum vinir. Sveinar kátir og allt það. Ég var alveg 100% á því að reyna að klára þessa tvo hópa mína með tónleikum, og það hófst. Var í raun góð æfing fyrir tónleika karlakórsins sem verða í næstu viku, því þar þarf ég að taka nokkra góða spretti á píanóinu. Hef þó ekki alveg orku í að sitja við æfingar mjög lengi, en reyni að gera eins vel og ég get. --- Lífið er nokkuð þokkalegt á þessum bæ og vorið er komið. Tjaldurinn vappar í fjörunni, lóan er í stórum hópum á kirkjuhólnum og þrestirnir eru að undirbúa búskapinn hér í garðinum. Hef ekki getað notað skutluna mína núna í nokkurn tíma og er virkilega farin að þrá að nota hana, en þori ekki að offra heilsunni í útivist því lyfjagjöf hefst eftir rúma viku.
Er nokkuð bjartsýn á sjálfa mig eftir að hafa fengið þær fréttir að beinaskanninn sýndi einungis fögur bein! Það var síðasti hræðsluferillinn. "Upp með sálina stelpa saggði ég þá" og við það ætla ég að standa þar til næst.

laugardagur, 16. apríl 2011

Húfur og hattar


Sko, ég er kona sem hef aldrei notað höfuðföt. Í mesta lagi hef ég sett á mig skyggni (ágætt) í mikilli sól á suðurslóðum. Núna er ég sextug og í aðlögun! Það er sko hreint ekkert gefið að mér líki við að nota húfur og hatta. Hvað um það, aðlögunin hlýtur að skila sér. --- Ef þið rekið augun í veggteppið að baki mér, (sem þið komist ekki hjá) keypti ég það fyrir margt löngu af mikið fötluðum listamanni sem bjó í Skálatúni. Horfði smám saman á listaverkið verða til, en það tók langan tíma að klára það. Peysan góða sem ég klæðist er einnig listaverk, og ég sjálf sem manneskja er líka listaverk. Maðurinn er eitt allsherjar listaverk. -- Bíðið bara þar til næst, ég á fleiri húfur!

miðvikudagur, 13. apríl 2011

jamm

Tók stórt skref í dag, og fékk þrjár húfur, fjandi smart barasta. Allavega ætla ég að horfa þannig á þetta. Undirbúningur er af hinu góða tel ég mér trú um og þar sem ég er svo trúuð á sjálfa mig get ég gert allt mögulegt. Líka að vera eins og Florence Nightengale einn daginn, Mary Poppins annan daginn og Greta Garbo þann þriðja. Svo ætla ég líka að eiga túrban að hætti ríkra olíufursta! ----- Í síðustu suðurferð drukknaði minn dásamlegi sími í LGG morgundrykk. Fer ekki út í það nánar, en það er víst hægt að drekkja síma í LGG. Svaraði ekki kosnaði að gera við hann, svo í morgun lagði ég í símakaup. Og það get ég sagt með svo miklum sann að ég veit akkúrat ekkert um fídusuna í þessum græjum. Sá Nokiasími sem nálgaðist að vera eins og sá sem drukknaði fæst ekki í landinu sem stendur, svo þá helltist yfir mig valkvíði, og ekki hafði afgreiðslumaðurinn nokkurn skilning á fötlun minni. Ropaði því þó út úr sér að þessi hérna væri mikið keyptur og þætti góður. Það dugði mér og ég festi mér einn þannig. Spurði mannin hvort þetta væri Nokia........Nei....þetta er LG! Það lá við að ég skellti upp úr. Síminn er flottur, ekki vantar það, en ég þyrfti að fá einhvern í 5 bekk til að kenna mér á hann. ---- Fer í síðustu rannsóknina á morgun fyrir lyfjagjöfina, og verð fegin að fá hvíld frá amstrinu þar til hún byrjar. Sendi ljúfar yfir þar til næst.

laugardagur, 9. apríl 2011

Áfram skal haldið

Enn og aftur þakka ég ykkur þarna úti fyrir stuðninginn, hann er ómetanlegur. --Nú er að halda í næsta verkefni, og það geri ég með bjartsýnina að vopni og þeim styrk sem ég finn allsstaðar. Eftir ótal rannsóknir og viðtöl við teymið er meðferðin ákveðin, og byrja ég í lyfjameðferð 2. maí. Fæ inngjöf á þriggja vikna fresti, og alls verða þær átta. Fjórar fyrstu með dálitlu trukki, en hinar fjórar ögn léttari. 8. ágúst er þá þeim kafla lokið, og sá næsti tekur við. Ég er á fullu að reyna að undirbúa mig andlega fyrir það sem koma skal, þannig að sem fæst komi mér á óvart. Ég hef líka ákveðið að gúggla ekkert eða að reyna að gerast sérfræðingur, og fara ekki eftir rauna/reynslusögum annarra. Þetta hljómar kannski hrokafullt, en það getur enginn sagt mér hvernig mér kemur til með að líða, því hver og einn er sérstakur og upplifir hlutina á mjög ólíkan hátt. Ætla því að leggja allt mitt traust á þá sem eru að lækna mig, og reyna að halda mér eins flott á floti og ég get. Hef fulla trú á mér og mínu teymi og hana nú. ---- Þrátt fyrir allt næ ég að mestu að klára mínar skuldbindingar fyrir vorið. Tónleikar með Gleðigjöfum, Stökum jökum og karlakórnum nást í þessum mánuði, en kennslunni næ ég því miður ekki að klára. Ferð okkar bestimanns í lítið blátt hús frestast örlítið, en vonandi "meika é´ða" í Kanada. Á ljúfum nótum bið ég ykkur vel að lifa, og munum að lífið er of gott til að eyða því karp og vitleysu. Þar til næst.....

fimmtudagur, 31. mars 2011

kafli 2

Jæja gott fólk, nú hefst kafli 2. Ekki varð mér að ósk minni um auðveldu leiðina út, ónei. Lyfja- og geislameðferð verður mitt aðalverkefni næstu mánuðina, en byrja ekki alveg strax. Er algjörlega meinalaus, og ekkert hefur dreift sér. Fyrir það má þakka. Nú hefur öllu mínu lífi verið snúið á haus og ég er greinilega ekki í neinum forréttindahópi sem sleppur alltaf! Ég ætla ekki að ríða grindum og görðum, reyni heldur að tækla þetta á annan veg. Bjartsýni og æðruleysi verða því að vera mínir fylgifiskar á næstunni, ég má ekki við öðru. Hvort það tekst alltaf veit ég ekki, en það veit sá sem allt veit að ég ætla að leggja mig alla fram, en ég er viss um að við bestimann eigum eftir að gráta, bölva og hlæja, en saman ætlum að komast í gegnum streðið. Þið þarna úti hafið veitt mér mikinn stuðning, og stuðning þarf ég áfram. Ég hef ákveðið að skrifa á síðuna mína eftir því sem ég get, finnst eins og það kunni að hjálpa mér. Nú ætlum við heim á Höfn í nokkra daga og ná vopnum okkar. Semsagt, svona fór um sjóferð þá þar til næst.

þriðjudagur, 29. mars 2011

dagur 9


Dagurinn í dag var fjandi strembinn, en losnaði þó við drenið. Þá er bara ein hjásvæfa eftir sem ég að reyna að vingast við. Matarlystin lætur aðeins á sé kræla, en þetta er óttalegt kropp. Ég fæ lystina ekki fyrr en eftir fimmtudaginn, og dett svo almennilega í gírinn þegar ég kemst heim. Þegar ég hugsa og horfi á litla fólkið mitt fyrir vestan eykur það kjarkinn og bjartsýnina. Í hana rígheld ég og bið enn og aftur að fimmtudagurinn gefi mér byr undir báða vængi og taki smám saman stóra kökkinn sem læðist að mér af og til og sendi hann austnorðvesturogniður. Svo mörg voru þau orð þar til næst þið góða fallega fólk.

sunnudagur, 27. mars 2011

Dagur 7

Annars er ég hætt að telja því þetta er bara ég! Lífið lufsast áfram í dálitlum hægagangi sem er gott bæði fyrir sál og líkama. Ég hef lært það í gegnum tíðina að með því að anda djúpt og ná venjulegri hugarró eru mér margir vegir færir, ég geri eins og dýr eyðimerkurinnar, hægi eins mikið á líkamsstarfseminni og ég get. Blóðþrýstingur er því venjulega þessa dagana 67 á móti 122, eða alveg eins og hjá reyklausri unglingsstelpu!. Húmorinn minn er að ná sér á strik sem sannaðist í fyrradag. Fór í stólaleikfimi hér á stofnuninni og var langyngst. Allrahanda æfingar með höndum og handleggjum þar sem ég var ekki að sýna tilþrif þrátt fyrir góðan vilja. Ok hugsaði ég, það kemur, bara 3 sólarhringar frá aðgerð. Síðan voru fótaæfingar og þá skeit nú í það! Ég svosem gat allt sem ég átti að gera, en frú tónlistarkennarinn var alltaf skrefi á eftir og var það verulega fyndið. Ég vissi alveg hvernig átti að fara að þessu, en hljóð og mynd fór ekki saman. Allavega lyftist sálin töluvert, og hún hélt takti. -------Nú eru 4 dagar þar til stóridómur fellur á einhvern veg. Mig langar svo að koma vel út úr þessu að mig verkjar. Mig langar svo að allir komi vel út úr öllu svona, en það er barnaleg einföld ósk því skyldi ég sleppa en ekki hinir? Þið skiljið samt hvað ég er fara. Að fara? jú, ég ætla til Kanada í söngferð og líka í lítið blátt hús. Allar góðar vættir gefi mér styrk til efna þetta allt. Þið úti vitið hreint ekki hversu mikinn styrk þið hafið gefið mér, og munið gera áfram. Á þessum nótum ætla ég að reyna að sættast við hjásofelsin mín, drenið og draugaverkina. Ef ég næ 4 tíma svefni dansa ég eins og ein góð orðaði það svo skemmtilega. Það er kátínuhopp þar til næst.

föstudagur, 25. mars 2011

Dagur 5

Sterkari í dag en í gær, og sálin bjartari. Kemst ekki í neitt nema í serk og víðar náttbuxur, en þær ku jú vera í tísku. Vonandi verð ég laus við drenið fljótlega eftir helgi, og þá ætla ég að fara í föt með stóru effi. Ég finn svo mikinn stuðning og mikla hlýju allsstaðar, það er örugglega mikil lækning sem kemur frá öllum þessum fallegu sálum. Þegar við bestimann fengum greininguna henti ég sígarrettunum og þar við situr, og ég er svo hreykin af mér. Í dag í vel upplýstu samfélagi ætti enginn að byrja að reykja, það er bara þannig. Að takast á við reyklaust líf er létt, og jafnvel á stundinni sem ákvörðunin var tekin. Ég er nefnilega þannig sem hrútur.......allt eða ekkert! Ég laumaðist niður í morgun í píanóið sem hér er og ég gat spilað. Ég veit náttúrulega ekki um úthaldið nákvæmlega núna, en krafturinn er til staðar og enginn dofi í vinstri handlegg. Enn og aftur gott fólk, takk fyrir stuðninginn og ef ég má gera kröfur þá er vel þegið að þið haldið áfram að hugsa fallega því biðin er doldið erfið. Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.

miðvikudagur, 23. mars 2011

dagur 3.

Mikið þakka ég góðar kveðjur og bænir mér til handa. Það er ómetanlegt að vita af ykkur öllum þarna úti. Nú er fyrsti kaflinn búinn, og við tekur rúmlega vikubið sem vonandi endar vel. Ég ætla að halda áfram að hugsa fallega, og standa mig. Við bestimann sendum ljúfar yfir þar til næst.

sunnudagur, 20. mars 2011

Ferðalag

Kæru góðu vinir þarna úti, ég þakka innilega fyrir hlýhug og góðar óskir. Í fyrramálið legg ég af stað í þetta ferðalag og vona að mér takist að ulla framan í allt sem er ljótt og ógeðslegt. Ég veit ekki hvenær ég skrifa aftur, en þar til sendi ég ykkur kveðju Guðs og mína.

föstudagur, 18. mars 2011

Rússibanaferð!

Kæru vinir þarna úti. Nú er ég að upplifa eitthvað sem ég get ekki lýst öðruvísi en verulegum hremmingum. Mér finnst eins og ég hafi keyrt stjórnlaust á steinvegg. Fyrir tveimur vikum fór ég í árlega brjóstaskoðun, og núna stend ég frammi fyrir að missa annað brjóstið. Aðgerðin verður gerð á mánudaginn og það eina í stöðunni er standa í báðar fætur. Ég er sterk kona, þokkalega greind, hraust, bjartsýniskella að eðlisfari og ætla mér að reka þennan fjanda af höndum mér. Þetta geri ég ekki ein og vinalaus. Þvílíkt lækna og hjúkrunarteymi sem heldur utanum okkur...... Þetta fólk kann sitt fag, og á það ætla ég að treysta. Fjölskylda okkar beggja sem og vinir eru gull. Vinátta og sterk fjölskyldubönd gera kraftaverk vil ég trúa. Bestimann er sem fyrr minn klettur, og ég hans, svo saman erum við gott team. Restin af teyminu okkar er í landinu stóra hvar ég vona að Bert verði kominn heim til að halda utanum sig og sitt fólk. Lifið í friði og látið tékka á ykkur öll sem eitt. Þar til næst.

föstudagur, 11. mars 2011

Bara smá......

Ætlaði að skrifa, en læt það bíða betri tíma. Nú er hugurinn við tónleika sunnudagsins með þeim ungverska, en mig vantar mína alkunnu hugarró. Hún kemur, og skal koma þar til næst.

sunnudagur, 27. febrúar 2011

Ég er glöð

Eftir hálf leiðinlega viku birti þó upp og beinhimnubólgan í mínum vesælu fótum gaf sig. Fyrir það er ég glöð. --Skemmti mér því prýðilega með mínu fólki í karlakórnum á árshátíð í gærkvöldi, hvar ég fékk þennan líka æðislega hring að gjöf frá þeim. Vatnajökull heitir gripurinn og fékk ég ást á honum strax, sem er óvanalegt með mig þegar kemur að skartgripum. Afmælisgjöfin hitti því beint í mark, en dagurinn er þó ekki alveg strax. Er semsagt líka glöð yfir að ná því að verða sextug, og skammast mín ekkert fyrir að upplýsa aldurinn. Það ná honum nefnilega ekki allir. Skil ekki þetta með konur og aldur.... við ættum frekar að þakka fyrir hvern dag og vera stoltar af að hafa náð honum og bera höfuðið hátt. Í Gleðigjöfunum mínum eru bara heldri konur, og þær eru upp til hópa fallegar og frjóar. Svoleiðis ætla ég að verða þegar ég verð stór.--- Mánuðurinn senn á enda og þá eru bara "svona margir dagar" þar til ég flýg á vit ævintýranna. Með þeim orðum sendi ég ljúfar yfir þar til næst.

laugardagur, 19. febrúar 2011

Í boði hússins.


Fyrstur kemur fyrstur fær!

sunnudagur, 13. febrúar 2011

Björt og brosandi...

Sunnudagskvöld og heimurinn bíður eftir að ég taki þátt í lífsleiknum.
Ég ætla svo sannarlega að gera það, og vonandi með miklum bravúr. Í dag taldi ég svona á puttum og tám allavega 80 lög sem ég þarf að kunna mjög vel, og finnst mér það hálfur annar hellingur. Æfing með þeim ungverska gekk vel í gær, og tónleikar um miðjan mars. Þá verður stutt í að ég, unglambið eigi sko stórafmæli. Sumir læðast með veggjum þegar þeir ná góðum aldri, og er ég svosem engin undantekning þar á. Sem er frómt frá sagt asnalegt, því það ná ekki allir að eiga afmæli. Ætlaði semsagt í lengstu lög að skauta framhjá deginum, en bestimann sem er ennþá að reyna að axla ábyrgð á flettaradæminu fékk mig ofan af "skautunum". Auðvitað hefur maðurinn rétt fyrir sér, eins og alltaf!!! Tónleikar skulu haldnir og öllum boðið.... ykkur líka. (eða þannig) Nú, svo kemur vorið með tónleikahrinu og prófum....Eyjólfur verður búinn að missa tönn og Natti farinn að bíða eftir að hann missi líka tönn! Svo er Kanadaferð og AMERÍKA, en þar ætla ég að halda uppá afmælið mitt á hverjum degi. Ég ætla að knúsa mitt fólk eins lengi og þau nenna að knúsa mig. Núna ætla ég hinsvegar að setja upp bjartsýnisgleraugun og krossa fingur að mér takist þetta allt saman án stórskandals. Hvernig er það, eru engin svona bjartsýnis-Bröste í boði?! Jæjajæja, þar til næst sendi ég ljúfar yfir.

föstudagur, 28. janúar 2011

Axlaröxl.

Það þykir sko ekki fínt nú til dags að axla ábyrgð, en menn tala þó fjálglega um að svo beri að gera.--- En það eru bara hinir sem eiga að gera það.--- Ég veit ekki betur en ég hafi þurft að axla ábyrgð þegar ég fimm ára var látin skila dúkkulísunum sem ég stal forðum úr bókabúðinni, var látin skila góssinu! Ég bar líka ábyrgð þegar ég sló víxilinn fyrir mínu fyrsta píanói á fullorðinsárum, og ég hef alltaf, segi og skrifa, axlað ábyrgð á velferð minnar fjölskyldu. Þó það nú væri. ---Fyrir nokkrum árum var ég að spila konsert með góðri óperusöngkonu, og þurfti flettara í einu stykkinu. Þar sem nótnalesandi flettarar liggja ekki á lausu fyrir hunda og manna fótum ákvað bestimann að nú væri komið að því. Hann skyldi altso fletta, það væri nú ekki mikið mál. Æfði sig vel og lengi, og ég þurfti ekki að rymja "fletta núna" út úr mér á ögurstundu. Allt gekk vel þar til kom að síðasta konsertinum. Hann fletti jú alveg á réttum stað, gekk síðan frá píanóinu og tók hækjurnar mínar með sér! Í klappinu sá ég hvar hann sat aftast í salnum skælbrosandi með hækjurnar mínar á milli hnjánna. Þetta gat varla orðið asnalegra. Axlaði hann ábyrgð? Ég veit það ekki, því það er enn hlegið að atvikinu. Í ljósi líðandi stundar ætla ég að hætta að hlæja að þessu og krefjast þess að minn bestimann axli ábyrgð á þessu flettaradæmi og biðjist að minnsta kosti afsökunnar. Ég ætlast þó ekki til að hann segi sig lausan frá mér og mínum frekar en hinir þarna úti. (sitji hann sem fastast) Nú er Kanadaferð framundan, og tel ég nokkuð ljóst að ég þurfi flettara, en bestimann verður ekki fyrir valinu! Ég vil að menn axli ÁBYRGÐ þar til næst. ----- Ps. Það er eins gott að minn elskulegi sé ekki að þvælast um á blogginu!.

þriðjudagur, 18. janúar 2011

Fegurð.


Það eru ekki allir með sömu skoðun á hvað er fallegt, en hver skoðun á rétt á sér.
Ég upplifi mikla fegurð þessa dagana, og er hún fólgin í ýmsu. Hér er alauð jörð, en birtan er að aukast, hænufet hvern dag. Það er fegurð fólgin í því. Hreindýrin sem þvælast fyrir okkur í mínum fjórðungi eru líka falleg, og skýin eru dásamleg. Ungur nemandi minn sem hélt að tiltekin nóta héti Þ var líka sætt. Lítill frændi bestimanns sem var á heimleið frá dagmömmu í dag í fylgd mömmu og ömmu var dásamlegur á sínum stuttu fótum. - Það var fallegt.- Í kvöld var kóræfing hjá mínum Gleðigjöfum hvar sem hver og einn er fallegur og veitir ekkert annað en gleði. Margt annað get ég talið upp sem er fegurð í mínum kolli, en sennilega gubba þá einhverjir af væmninni. Mætti ég þá frekar biðja um svona fegurðarfréttir í fjölmiðlum en þær sem dynja yfir okkur alla tíð, og ég skal glöð hafa gubbupoka mér við hlið ef væmnin keyrir úr hófi. --Á þessum nótum í Þ sendi ég ljúfar yfir þar til næst.

sunnudagur, 9. janúar 2011

Hvippurinn og hvappurinn!

Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs árs, með þökk fyrir innlitin á síðasta ári. Það hefur heldur fækkað í þessum bloggheimi frá því sem áður var, og sakna ég margra. Er haldin einhverju heilkenni þar sem mér finnst að allt eigi að vera eins og var, en altso eftir mínu höfði!
Jólin eru búin og grýla farin, en það verður víst ekki langt þar til jóladótið verður tekið fram á ný ef fer sem horfir. Nánast kominn miður mánuður. Grýluljósmyndin hefur fengið sinn sess á heimilinu og enn fær bestimann smá hland fyrir hjartað við að horfa á hana! ---- Eins og það er gott að flækjast um á náttbuxunum í góðu fríi er jafn ömurlegt að þurfa að hanga í þeim og vera með samviskubit. Bölvuð flensupest gerði mér lífið leitt í viku, en nú er ég að ná vopnum mínum og held glaðbeitt og hress út í vinnuvikuna og er bara bjartsýn. Ekki svooo langur tími þar til litla fjölskyldan mín í Ameríku sameinast á ný, og ekki svoooo langt þar til við bestimann sjáum þau. Ég er hreykin eins og hani á haug hvað þau hafa öll staðið sig vel. --- Hef ótrúlega lúmskt gaman af þegar dóttlan mín lýsir talanda nattalíusar. ----Ég viðhef (ó)-virka hlustun og brosi í laumi og minningarnar flæða fram, því einu sinni var hnátan lítil og þurfti að tala, og hún gat talað endalaust. Þegar við vorum t.d. að koma frá Reykjavík og sáum Höfn af hæðinni hjá Stapa var eins og flóðgáttir hefðu endanlega opnast, og bunan stóð út úr henni. ---Yndislegt í minningunni.---Mér skilst að ég hafi verið eins sem barn, og ef enginn nennti lengur að hlusta þá söng ég bara. Enginn skyldi halda að eðlið segi ekki til sín. --- Áramótaheit gaf ég engin nema þau að halda áfram að reyna að vera mér og öðrum góð. Á þeim nótum sendi ég ljúfar yfir þar til næst.