Jamm, nú skal haldið í'ann. Garðurinn flottur, 70 fermetrarnir málaðir og húsið hreint. Við besti helmingurinn tékkum okkur út og pössunarhúsflugurnar tékka sig inn. Á næstunni ætla ég að liggja og lesa, skoða mannlífið, borða góðan mat, stinga táslunum í sjóinn og drekka kaldan öl klukkan 5! Þegar ég kem heim verð ég sælleg og hraust og tilbúin til að takast á við nánast hvað sem er. Elskurnar mínar, ekki gleyma að kíkja í kaffi til hennar dóttlu minnar í Ameríku þann 17. júlí. Þá á hún afmæli og hún á örugglega góða köku að smjatta á. Þar til næst... |
sunnudagur, 13. júlí 2008
Flogin!
sunnudagur, 6. júlí 2008
Var skotin...og er skotin!
Syngibjörg beindi haglaranum á mig, og ég læt vaða. Veit samt varla hvað ég á að segja um mig, svo ég ætla að byrja á óskostunum. T.d. er ég langrækin ef einhver gengur illa á minn hlut og er oft óþolinmóð yfir einhverju sem ekki skiptir máli. (asnalegt) Að vísu er ekki ókostur í mínum augum að þola ekki óstundvísi, en hún á ekki að líðast. Þoli ekki hvað ég er sein að fatta brandara, og trúi öllu sem í mig er logið.(nema illmælgi) Er B manneskja þegar ég get leyft mér það, (mörgum finnst það óskostur) get alls ekki borðað brauðsúpu og finnst hafragrautur óyndislegur. Elska kaldan bjór en þoli ekki koníak, rauðvín og viský. Þetta eru ókostirnir sem mér dettur í hug núna, en ég er viss um að þeir eru stærri og fleiri, en kostirnir kæru bloggvinir eru náttúrulega miklu fleiri en lestirnir!! Réttlæti, óeigingirni, stundvísi og heiðarleika reyni ég fylgja af bestu getu. Mér finnst hin almenna manneskja spennandi og hef gaman af að hitta gott fólk.--- Aðra læt ég í friði. ---Einn af mínum "ókostum" sem ég ræð þó lítið við er innilokunarkennd. Sennilega eitthvað gamalt. Allavega verð ég að ráða aðstæðum í það og það skiptið svo ekki fari illa. Meðan Svanfríður mín bjó fyrir norðan áttum við mæðgur saman þar nokkra daga í sól og sumaryl. Ég var eitthvað dauf yfirlitum svo dóttla mín benti mér á snyrtistofu í bænum þar sem ég pantaði lit á augnkonfektið. Lá þar á bekk með augun límd aftur og leið ekki par vel þrátt fyrir rólega tónlist. Allt í einu finn ég hvar snyrtidaman gengur út úr gluggalausu herberginu, slekkur ljósin og lokar hurðinni varlega á eftir sér. Mér varð ekki um sel, en reyndi að harka af mér. Ég harkaði af mér í smástund en var þá farin að skjálfa töluvert en reyndi að anda RÓLEGA --rólega...inn út, ínn út. Dugði ekki til svo ég fór að kalla, en mjög lágt, fannst asnalegt að geta þetta ekki. Enginn heyrði svo ég tók að æpa, og var orðin hálfhrædd um að ég yrði blind ef ég opnaði augun. Loksins var ég bænheyrð og daman kom inn þar sem ég hálfkjökraði að mig sviði í augun! --Algjör lygi.-- Þegar ég gat opnað augun sagði ég dömunni að ég væri haldin innilokunarkennd og mig sviði ekkert í augun. Þetta var alltsaman óyndislegt eins og hafragrautur. Daman reyndi hvað hún gat að spjalla við mig til að ég róaðist almennilega og spurði t.d. hvort ég væri "gÓlfari". Þar sem ég var stödd í ókunnu bæjarfélagi skildi ég ekki spurninguna ( þið vitið, Gaflari og þessháttar) og sagðist því vera Hornfirðingur. Þá stóð daman á gati og öll senan því orðin dálítið vandræðaleg. Þannig er að ég ber alltaf lítið gullnisti um hálsinn sem er áttundapartsnóta, og daman hélt það væri golfkylfa! Hún talaði um "gÓlf" svo það var engin furða að ég misskildi hana. Golf og gólf eru einfaldlega ólík orð. --Get hlegið að þessu núna, en bara smá. Heiða Dís, sem er mín kona hér á Höfn hefur eftir þetta séð til þess að ég get farið í svona yfirhalningu án þess að fríka út. Það gerir hún með nærveru sinni. ---Nú er Humarhátíðin á enda og var skemmtileg í alla staði. Hún fór það vel fram að fjölmiðlar höfðu lítið sem ekkert um hana að segja. Rölt á bryggjunni í góðu veðri gerir manni gott + góðir gestir. Titillinn var: var skotin og er skotin. Er búin að uppljóstra ýmsu svo ég get alveg látið það fylgja að ég er ennþá skotin í bóndanum! Þar til næst. |
þriðjudagur, 1. júlí 2008
Sjáiði bara, fínt, fínt.
Eftir mikla málningavinnu (í síðasta pistli) tók ég því rólega því puttarnir þurftu hvíld og olíubað/böð. Spilaði við tvær jarðarfarir svo þá þýddi ekki að ofbjóða sér. Eitt er víst að þegar maður fæðist fylgir dauðinn einhverntímann á göngunni. Hér hafa of margir látist það sem af er ári, og er alltaf erfitt að kveðja vini. Hvert líf er dýrmætt, en í litlu samfélagi þar sem nándin er mikil er tollurinn stór. --- Samt sem áður heldur sólin áfram að skína og lífið gengur sinn vanagang.--- Í dag háþrýstiþvoði ég stéttarnar í garðinum mínum og var hreykin í verklok. Allt svo hreint og fínt, og allur mosi farinn. Náttúrufræðingar hefðu tekið dýfur yfir frekjunni í mér, en ég ákvað að mosinn væri fallegastur úti í þeirri guðsgrænu. Í kvöld æjuðu puttarnir og spurðu hvort ég ætlaði ekki að spila tónleika á fimmtudagskvöldið...úpps...olíubað skal það vera. Eftir fimmtudaginn ætla ég að vera í algjöru fríi frá hljóðfærinu um stund og gera bara nákvæmlega það sem mig langar að gera. En hvað langar mig að gera? Ég ætla að bera fúavörn í 70 metra af timbri, ég ætla að þrífa hvert einasta rósablað í sólskálanum með barnaolíu, ég ætla að reyna að finna Máríerluhreiðrið sem ég held að sé í uppsiglingu í garðinum, (þær voru allavega að gera dodo í dag) ég ætla að búa til sultu og ég ætla að njóta þess að vera á Humarhátíð. Við besti helmingurinn tókum forskot á hátíðina og fórum á Humarhöfnina á laugardagskvöldið og ég held að kokkurinn þar sé galdramaður. Ég á hvítlauk, ég get bakað pizzubotn og ég á humarhala, en ég gæti aldrei gert eins góða pizzu eins og kokkurinn á Höfninni.--- Mæli með þessum stað.--- Eftir kvartettsæfingu í kvöld hóaði ég í bassann og bað hann um að taka fyrir mig eins og tvær myndir...ég á nefnilega ekki "svona vél", bara gamla yndislega. Birtan var svo falleg í kvöld, sólskálinn svo ljómandi og gullregnið í blóma.--- Þannig gerist þetta, og það er bannað að hlæja: Einhver tekur rmyndir og sendir mér þær. Ég áframsendi þær til Svanfríðar bestu dóttur + pistilinn, og hún, þessi elska setur svo punktinn yfir i-ið! Ofureinfalt fyrir góða klaufa eins og mig. Grænu froskastígvélin hans æðsta snúðs taka sig vel út á myndinni og litlu skórnir hans Natta á myndinni eru eins og litla bróður sæmir, fallegastir. Kæru bloggvinir, ég ætla bráðum á Spán en þið fáið örfáa pistla í æð áður. Þar til næst kveð ég undan grænum stígvélum og gullregni.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)