mánudagur, 23. maí 2011

aska,eldfjall, dýr og snjór

Þetta er náttúrulega ekki bjóðandi mönnum og skepnum. Mikið ofboðslega finn ég mikið til með bændum vestur frá. Við bestimann vorum að músísera á laugardaginn fyrir útskriftanema frá FAS, en drifum okkur svo. Langaði á tónleika hjá KR-ingum í gær og því voum við snillarnir svona ljónheppin að keyra syngjandi sæl vestur í Víkur. Karlakórarnir hans Friðriks sviku ekki eyrun frekar en venjulega, drengirnir sumir stóðu ekki út úr hnefa en sungu eins og litlir strákar geta best sungi', og gömlu kempurnar hafa engu gleymt. Takk fyrir okkur. Nú er bara Harpa eftir. Gott að eiga eitthvað eftir. ---Fór í lyfjagjöf nr. 2 í morgun og var doksi bara vel ánægður með frúna og sagði að blóðgildin mín væru óvenjulega góð, en ég veit svosem ekkert hvað það þýðir eiginlega. Vonandi veit það á gott. Á morgun fer ég í slökun og hvað ég hlakka til að hitta þessa yndislegu konu. Eftir það förum við að huga að heimferð.....sennilega norðurfyrir ef það 'sé' sem virist vera orðið fast í of mörgum sem eiga að tala gott mál! Þoli það illa, en heyrði aftur á móti skemmtileg orð á dögunum. Það fylgdi þeim skýring, en gaman þætti mér vita hvort þið þarna úti hafi heyrt þau notuð. Í næstu skrifum kem ég með skýringarnar. Lifið heil þar til næst og hugsum til allra sem standa í ósköpunum vegna Grímsvatna. Orðin eru...Lomma, slomma, gluggabrauð, glenna og kviðsletta. Kíkið helst ekki í orðabók, ef ske þetta skyldi standa þar svart á hvítu. Góða skemmtun.

fimmtudagur, 19. maí 2011

Númer 200!

Einu sinni ætlaði ég aldrei að eignast tölvu, aldrei gemsa eða neitt annað svo flókið! Jæja, ég hef ekki staðið við neitt af þessu, nema heimabankann....hann kemur aldrei...eða þannig. Svo ætlaði ég heldur alls ekki að skrifa neitt á tölvuna sem gæti komið fyrir almenningssjónir. Nú, Kibba kom mér á lagið, sagði að þetta væri svo bráðnauðsynlegt, og hvað gerist þá? Hún hætti að blogga og flaug á vit fésins en þangað ætla ég heldur aldrei. Ég verð fjandakornið að standa við gerða samninga við sjálfa mig. Semsagt fésið og heimabankinn eru ekki í spilunum! Hvað um það, þetta er blogg númer 200 og það finnst mér "cool". Eiginlega afmæli...það á afmæli bloggið o.sv.frv. --- Ég er glöð og bara nokkuð hress. Hárið er að vísu farið, en ég á margar húfur. Eftir Júróvísion hreinlega datt það af. (dularfull tímasetning) Mér fannst það súrt í broti því ég spilaði tónleika með þeim ungverska daginn eftir á Hammondhátíð á Djúpavogi. Gerði það bara með húfu. Ég hef ekki orðið veik, en ýmis asnaleg einkenni hafa gert vart við sig, svo sem eins og allsvæsin svitaköst og ullarbragð í munni. Þá nebblega verður matarbragðið svona ullarkennt, ef þið skiljið hvað ég meina! Annars hef ég ekki yfir neinu að kvarta. Vona svo sannarlega að þetta gefi tóninn fyrir framhaldið, svo áframhaldandi bænir og hlýjar kveðjur eru virkilega vel þegnar. Síðustu dagar hafa einkennst af mikilli prófatörn í skólanum og þessum venjulegu vorverkum þar. Sem betur fer hef ég getað tekið drjúgan þátt í að klára veturinn, og slitum við skólanum nú í dag. Samkennarar mínir eru núna úti í þeirri guðsgrænu að fagna lokum og er ég með þeim í huganum. Þarf að undirbúa mig andlega og líkamlega fyrir næstu lyfjagjöf sem verður á mánudaginn. Mér finnst núna eins og allt sé á uppleið, vorið og gróandinn, minn elskulegi tengdasonur reyndist ulla á skjaldkirtilinn og Svanfríður mín og snúðarnir eru flottust. Hvað get ég beðið um meira? Þar til næst sendi ég ljúfastar yfir.

sunnudagur, 8. maí 2011

Í faðmi blárra fjalla.



Ég heilsa ykkur öllum með bros á vör. Síðan síðast (fyrir utan fyrstu nóttina eftir inngjöf) hefur allt gengið vel og vona ég að nú hafi ég gefið tóninn um það sem koma skal.-- Er að læra á líðanina og læra að sættast við hlutskipti mitt næstu mánuði. -- Vorið komið, allt er að lifna til lífsins og ég ætla að taka þátt í þeirri lífsbaráttu. Á skutluferð minni um hornfirska "búlluvardinn" er yndislegt að sjá fjöruna og fjörðinn fullan af lífi. Ótal eyjar kúra í firðinum fullar af fugli. Umlykjandi þessa fegurð eru svo jöklarnir þannig að manni vefst oft tunga um tönn gagnvart fegurð náttúrunnar hér eystra. --- Að vaða úr einu í annað hefur aldrei verið bannað, en mikið lifandis ósköp gerði ég góð skutlukaup hér um árið, því Frelsi ég finn!---- Nú, svo ég svo yfir mig glöð að litla fjölskyldan mín skuli nú loksins ná saman í stóra landinu. Það voru björt bros á skybinu í dag. Til stóð að við bestimann færum til þeirra frá Kanada 19. júní, en það bíður betri tíma, en spilandi ætla ég til Kanada. Þar til næst sendi ég ljúfastar yfir úr 8 vikna reyklausu koti.

mánudagur, 2. maí 2011

Hænufetið.

Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum sem styðjið svo vel við bakið mitt með bænum og góðum kveðjum. Mætti í morgun illa sofin og full kvíða í fyrstu inngjöfina, en hefði alveg getað sleppt þessum látum. Allt gekk eins og í sögu, æðin var góð ég reyndi að hugsa fallega um þetta góða efni sem á að lækna mig. Er með slatta af pillum í farteskinu við ógleði, og svitna eins og húðarklár. Ekki ætlast ég til að komast í gegnum þetta án þess að finna fyrir því, en það veit guð að ég vona að hliðarverkanirnar verði vægar. Vonandi verður máttur allra góðra bæna það mikill að bærilegt verði. ---Við bestimann fórum á tónleika Fóstbræðra sl. laugardag og nutum hverrar mínútu, og ekki var síðra kvöldið í óperunni. Maður lifandi hvað lífið var gott þennan dag þrátt fyrir vetrarveður og færð, asnalegt svona á vordögum, en sló svo í 15 stig í dag og stór hópur fólks hljóp hér framhjá léttklætt með þunga byrði á hausnum, og eða í fanginu. Talandi um kýr á vorin? Fyrsta skrefið var stigið í dag, og ég ætla að líta á hálffullt glasið en ekki hálftómt. Lífið er bara nokkuð þokkalegt núna, og ég vona að ég geti sagt það líka þar til næst.