sunnudagur, 21. nóvember 2010

Mannauður.

Það hefur oft verið erfitt að manna stöður tónlistarkennara á landsbyggðinni, og kemur margt til. Íslendingar fara utan til frekara náms, launin ekkert til að hrópa húrra yfir og allt fyrir ofan Ártúnsbrekku er of langt fyrir einhverja. Í litlum skólum á landsbyggðinni telst til tekna að geta kennt á mörg hljóðfæri, en það er ekki öllum gefið. Samt sem áður er tónlistarlíf víða á landinu með miklum blóma og gerir ekkert nema gott fyrir viðkomandi stað. Þá er að leita til útlanda eins og margir hafa þurft að gera og fengið margan góðan manninn til sín. Djúpivogur er einn þeirra staða sem hafa fengið svolítinn happdrættisvinning. Þar eru hjón sem eru að byrja sitt annað ár, og virðast gjörsamlega falla inn í umhverfið. Við megum heldur aldrei gleyma því að uppúr seinna stríði ( og jafnvel fyrr) komu hingað til lands frábærir tónlistarmenn sem settu svo sannarlega víðari "kúltúr" á tónlistarlífið og urðu góðir og gegnir Íslendingar. Þetta vil ég kalla mannauð í víðasta skilningi. Nú er ég að vinna einsöngstónleika með mínum manni frá Djúpavogi, og verða þeir fyrstu þann 25. nóvember. Marga músíkina hef ég spilað, en enga frá heimalandi söngvarans fyrr en núna, og skil þar af leiðandi ekkert í orðunum! En alheimstungumálið er í raun auðskilið, það er músíkin. Þess utan eru óperuaríur, léttmeti og þrjár íslenskar söngperlur, og er ég undrandi hvað maðurinn gerir þeim góð skil. Hið undur fallega lag "í fjarlægð" fer vel í Ungverjann, að ekki sé talað um Inga T. Það eru margir sem fjandast út í að útlendingar séu að koma hingað, setjast að fyrst í stað á litlum stöðum úti á landi en flytjast svo suður og hertaka allt. Ef "við" getum ekki mannað stöðurnar þá gera það aðrir, svo einfalt er það. --- Allt í friði og spekt hér á Hólabrautinni, píanóstillarinn hamast hér um grundir og móa og skilur eftir sig stillta slóð. ---Þrjár smákökusortir bíða í dunkum eftir aðventunni, búin að lesa fjórar nýútkomnar, jólapakkar farnir út og suður og gleðigjöfunum mínum fjölgar. -- Af þessu má sjá að lífið er gott þar til næst.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Rugl, eða hvað?

Fékk tilkynningu um smápakka frá Ásralíu á dögunum. Í honum var bleik peysa, svona algjör inni/heima peysa, og var hún gjöf frá systur minni. Á tilkynningunni stóð að ég þyrfti að borga tæpar 5.000 kr. fyrir herlegheitin sem ég var ekki par sátt við. Hringdi í þjónustusíma og kvartaði, en var alltaf kurteis. Þar sagði kona mér að samkvæmt kennitölunni ætti ég afmæli í apríl svo ekki væri þetta afmælisgjöf, og of langt til jóla að þetta gæti verið jólagjöf. Þessvegna ætti ég að borga téða upphæð. Mér varð allri lokið, og fannst þetta jaðra við dónskap. Gat ekki sætt mig málalok og hringdi annað. Til að gera langa leiðinlega sögu stutta var gjaldið fellt niður og sú bleika er komin í notkun. Hvaða endemis rugl er þetta? Spyr sá sem ekki veit með kærri þar til næst.

fimmtudagur, 4. nóvember 2010

Dinglumdangl

Nokkuð gott orð, dinglumdangl..þannig líður mér núna! Hugsanirnar og plönin út og suður og gott ef ekki upp og niður. Langar að skreppa og passa barnabörnin, langar að leyfa foreldrum þeirra að labba hönd í hönd upp og niður Hillcrest Rd. Langar á Rigoletto, en allt uppselt, og mig langar að allir hafi það jafngott og ég. Ætli þetta endi ekki bara á að ég baki jólasmákökur í marga stauka. Áður en af því verður ætla ég að hitta ungverskan tenorsöngvara og saman erum við að æfa tónleikaprógram. Vonandi náum við saman í fyrstu umferð. -- Skrýtið þetta líf.--- Þessi Ungverji er hámenntaður tónlistarmaður en hefur það betra á Íslandi heldur en í heimalandinu. Á litlum stað á austfjörðum lifa þau hjón í allsnægtum að eigin mati. Hreint loft, ómengað vatn og fólkið gott, en Íslendingar hinsvegar flykkjast til annarra landa þessa dagana. Kannski vegna þess að við erum svo góðu vön, en þegar lífsstandardinn dalar finnst mörgum að grasið hljóti að vera grænna hinu megin. --- Mér dettur oft í hug beljurnar heima á Gunnlaugsstöðum sem tróðu hausnum gegnum gaddavírsgirðingarnar og teygðu tunguna eins langt og þær gátu í grasið hinumegin. Kannski erum við með belju-hugsunarhátt! Þrátt fyrir annir er ég búin að lesa fyrstu bók væntanlegs bókaflóðs. Á vængjum söngsins, sögu Kristjáns Jóhannssonar. Ekki kom margt þar fram sem ekki hefur áður verið sagt, en sennilega er eitthvað látið ósagt. Hvað sem því líður hefur sá ágæti maður víða komið við. Á þessum dinglumdanglsnótum bið ég ykkur vel að lifa þar til næst.