sunnudagur, 23. desember 2012

Þorlákur í blíðu.


Veit ekki alveg hvort minn kæri nemandi verður hress með þessa mynd, en ég tek því þá bara. Yndisleg stund í kirkjunni í dag hvar við spiluðum fjórhent jólalög.  Þessum unga manni hef ég kennt frá því hann var smágutti, í dag er hann í framhaldsnámi en nú skilja leiðir. Hann fer á vit lífsins í útlöndum, en ég veit líka að ekkert af  náminu og samvinnunni  verður tekið frá okkur.--- Í gær var hér á Höfn heilmikil hátíð, vígsla á Bárunni, nýja knatthúsinu sem góðir menn gáfu samfélaginu hér. Eiga þeir heiður skilinn því þeir eru heiðursmenn. Þar var bigband og karlakór ásamt stuttum en innihaldsríkum orðum góðra manna.--- Skötuátið  í dag hjá vinum klikkaði ekki og í kvöld enduðum við svo Þorlák með söng í búðinni okkar. Stemningin hér í litla samfélaginu mínu er engu lík, og samheldnin mikil. Það er gott að fara inn í jólahátíðina með blíðuna í hjartanu. --Ég vildi svo sannarlega hafa litlu fjölskylduna mína hér, en  það verður bara seinna. Nú fer "kötturinn" í kokinu að gefa eftir, aðventan liðin og tárin hjá okkur mæðgum að þorna. Allavega svona dags daglega!  Á morgun (aðfangadag) ætla ég að dunda mér við rjúpurnar og hugsa fallega.--- Ég óska öllum gleðilegra jóla-  og ánægjustunda með ykkar fólki þar til næst.

laugardagur, 8. desember 2012

Aldur?

Mér finnst gott að fara svona eins og einn blogghring áður en ég skríð í bólið. Gaman að fylgjast með hvað fólk er að bardúsa án þess að nokkur forvitni sé í gangi. Netið er jú alnet.  Fyrir alla ekki satt? Las á hring mínum um netheima áðan stadus frá yndislegum "gömlum" nemanda mínum hvar hún sagðist hafa þurft að sýna skilríki í ÁTVR. Í þessu tilviki myndi ég segja að það væri hrós, og vera glöð með það. Á ferð okkar bestimanns til Svanfríðar minnar í sumar  þá fengum við okkur í gogginn á JFK flugvelli. Við vorum með sitt hvora samlokuna, ég með bjór en bestimann með kók. Þegar þjónninn kom með drykkina bað hann mig um skilríki:)  Eftir þriðjastigs yfirheyrslu hjá Ameríkönunum á mér við komuna til landsins þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að fíflast og fara að hlæja. "Ég er 61. árs" sagði ég sisona, og brosti undurblítt. Neibb....passann takk sagði sá ungi maður graf-alvarlegur. Mér var ekki hlátur í hug og langaði helst að segja honum að hella þessu andsk....öli í vaskinn, sýndi passann en naut ölsins alls ekki. Asnalegar reglur sem fáir skilja. Hvernig skyldi þetta fara fram í Arabalöndum? en segi eins og konan: Hvað veit ég? --- Nú hefur bæst við jólasveinadýrðina hér á Hólabrautinni, og er ég eins og lítil stelpa í dúkkuleik. Ein elskuleg bloggvinkona er nýkomin heim úr heljarinnar mikilli ferð út í hinn stóra heim. Hvað gerðist? hún sá jólasvein (altso styttu) sem henni fannst passa við mig, keypti hann og nú trónir hann í heiðurssessi. (Hvað eru mörg ess í því?) Aðventan er yndisleg, ég er meyr, sakna litlu fjölskyldunnar í stóra bláa húsinu, ég spila rassinn úr buxunum, syng og spila jólalög með nemendum, baka alveg fullt af kökum sem þykja alveg hryllilega óhollar og nýt alls þess sem lífið færir mér þar til næst. Og farið svo vel með ykkur.

sunnudagur, 2. desember 2012

"Að gláta bala pínulítið"





1. sunnudagur í aðventu, og þá hefst biðin og jafnvel "gláturinn". Þetta með "glátinn" er svolítið sætt. Þegar bestimann var pínupons var stóra systir að passa hann. Foreldrarnir skruppu aðeins frá, og stóra systir alveg manneskja að sjá um snáðann. Alltaf verið mikil til allra dásemdarverka. Bestimann fór að gráta og stóra systir tók hann og ruggaði honum. Þið vitið, svona fram og til baka í fanginu, sussaði og söng. Alltaf grét snáðinn meir og meir, og þetta voru orðin hálfgerð vandræði. Þegar foreldrarnir komu heim sat hún sveitt með þann litla og ruggaði og ruggaði. Aðspurð hvort hann væri búinn að gráta mikið var svarið þetta: Ekki gláta mikið, bala svolítið. Málið var að hún sat upp við vegg og hausinn á mínum bestamanni skall alltaf í vegginn við hvert rugg! Núna er þetta haft að orði þegar syrtir í álinn eða menn eru daprir. "Ætla ekki að gláta mikið" Á aðventunni á ég það til að gráta við hin ýmsu tækifæri, en það er nú ekki mikið né merkilegt...bara svona vellíðunargrátur þar sem maður saknar þeirra sem ekki eru hjá manni. Sorglegra er það nú ekki. ----Búin að spila "dinner", á gömludansaballi og við tendrun jólaljósa á bæjartrénu, og spilaði ásamt öðrum fjórhent jólalög á jólamarkaði okkar Hafnarbúa. Þetta er bara skemmtilegt, og í gærkvöldi dundaði ég mér við að setja upp nokkra af sveinkunum mínum.Ég var eins og smástelpa í bleikri dúkkubúð þegar ég sá ofaní kassann....jebb... og Jesú og María eru komin á nótnaskápinn og flotti flygillinn sem spilar eitthvað fínt er kominn á sinn stað. Mikið hvað maður getur verið mikill labbakútur.--- Finnst ykkur ekki neðsta myndin töff?. það finnst mér, og farið vel með ykkur  þar til næst.     Ps. ég á miklu fleiri sveina...nananabúbú!

föstudagur, 23. nóvember 2012

Ræða vikunnar


Og hún er ekki löng.......Allt er gott héðan og ég þakka ykkur elskulegar kveðjur, þær eru mikils virði.. Þegar ég var lítil stelpa var mér kennt að bera virðingu fyrir mönnum, málefnum og andstæðingum. Nú er ég orðin virðuleg kona og er enn að baksa við að bera virðingu fyrir hinu og þessu, en enn og aftur er mælirinn orðinn "doldið" fullur. Hvar er siðferðiskennd okkar, hvert fóru peningarnir, áttum við raunhæfa peninga, hver byggir heimili fyrir eldri borgara þessa lands og hver ber svo ábyrgð á öllu heila klabbinu? Hver borgar fyrir gæluverkefni sumra en getur ekki borgað "alvörufólki" okkar lands mannsæmandi laun. Fyrir margt löngu var minn bestimann í útlöndum að selja fisk. Ég sendi hann með þær ordrur að kaupa okkur nýtt pottasett. Það var svo yndisleg tilhugsun að eignast sitt eigið, og alveg glænýtt að auki.   Ok. settið kom, en mikið hvað farið var leynt með það, en svo mikið saklaust "smygl".---- Í dag er annað upp á teningnum: farðu nógu andsk.... illa að ráði þínu og þá er allt í lagi. Fari þetta og veri!  ---Myndin sem hér fylgir sýnir frúna senda skilaboð út í hinn asnalega heim., ekki minn og þinn sem kíkir hérna inn heldur hinn , altso...bakhlutann! Með kærri þar til næst.

laugardagur, 10. nóvember 2012

Fátt er svo með öllu illt........

Þar kom það! Altso réttu myndirnar, er ógurlegur klaufi. --- Þegar ég veiktist þá ákvað ég að skrifa mig frá ósköpunum, þökk sé bestimann, og hjálpaði það mér heilmikið. Það er nefnilega skolli holl lesning að kíkja af og til í skrifin til að sjá hversu langt ég hef komist í bata. Ég hef fengið góðar skoðanir hingað til og á bara eina 4.mánaðar skoðun eftir. Þá á 6 mánaðarfresti næstu árin. Ég ætla ekki að fullyrða að ég sé læknuð, en allt er gert til að varanlegur bati verði. Þegar brjóstið var tekið var gengið út frá því að uppbygging á öðru hæfist í fyllingu tímans. Nú er komið í ljós að svo verður ekki og það gerði mig virkilega dapra. Geislarnir fóru svo illa með allt svæðið utan og innan að ég varð hundaskítsmát! Svo fór ég að hugsa; en með góðri  hjálp bestimanns. So what? Ég er á lífi, ég hef þokkalegan haus hvar sem lubbast upp grár/marglitur makki, er í starfi sem ég get stundað og á góða að. Er það ekki í raun það sem málið snýst um?  ---Efri myndin sýnir oktettinn minn syngja úti á sjó fyrir óvissuferðalanga í yndislegu vetrarveðri og dásamlegri náttúru. Ótrúleg upplifun.--- Sú neðri er spes fyrir frú Sigurbjörgu... mín kæra nú er ég komin með lubba! --- Fyrir þá sem vilja vita eða ekki vilja endilega er ég búin að bæta pínulítið í jólasveinasafnið og hlakka til aðventunnar, tíma gráts og klökkva. Ekki amaleg tilhugsun, eða þannig. ---Jólapakkarnir í stóra bláa húsið leggja í´ann eftir helgi...þetta er svo asskoti langt fyrir póstinn að flytja eins og hann auglýsir sig í sjónvarpinu. Talandi um sjónvarp...af hverju þurfum við alltaf að búa til þætti sem er nákvæm eftirlíking úr ammrískri þáttargerð? Má ég þá frekar biðja um víkivakann með kærri kveðju þar til næst.

laugardagur, 20. október 2012

Ambögur

Það er stundum alveg dáyndis-skemmtilegt að lesa fréttir á vefmiðlunum, og oft held ég að "pennarnir" séu ennþá í grunnskóla. Dæmi: Hann var borinn út á sjúkrabörnum.....Björgvin er stökkbólginn víða.....hún varð ekki um set......ekki stemmari fyrir því svo hann hætti í hólreiðum og svo mætti áfram telja.  Eitt vakti sérstaka athygli mína í dag, en það varðar reykingar. Þar sem ég er nú hætt vildi ég vita meira  af hverju læknisaðgerðir fara oft verr í þá sem reykja en hina sem ekki reykja. Og ég las: þeir sem nota bók fyrir og eftir aðgerð eiga bla blabla.  Ég las aftur og skildi ekki hvað bók kæmi þessu við. Nei, þessi bók var þarna,   stóð skýrum stöfum í staðinn fyrir tóbak! ---Á dögunum bað ég ungan nemanda minn að senda mér sms skeyti í sama formi og vinirnir senda sín á milli, og innihaldinu mátti hann ráða. Til að gera langa sögu stutta skildi ég ekki eitt einasta orð og varð að fá þýðingu, því þetta var óútskýranlegt í mínum augum. Það er því kannski ekki skrítið að sjá svona hryllilega vitleysu hjá fólki sem hefur jafnvel tileinkað sér þetta skeytaform í daglegum skrifum. Og...hjá fólki sem hefur atvinnu af því að skrifa. Ég verð sennilega aldrei svo gömul að ég hætti að skipta mér af íslensku málfari, ekki það að mér geti ekki orðið á í messunni.--- Að geta spilað með tvem höndum er ekki óalgengt að heyra, en það heyrist yfirleitt bara einu sinni í minni stofu! ----Núna er að verða komið eitt ár síðan ég kláraði mína krabbameinsmeðferð, og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. Ennþá er ég með grátt þrílitt hár, en það er að sléttast úr því. Ýmislegt er brothætt,  en batamerkin eru að verða meira og meira áberandi. Ekki veit ég hvort er verra lyfjameðferðin eða geislarnir...Bölvuð pína hvort heldur sem er en þetta læknaði mig.  Fer í næstu viku í stóra skoðun og finn í hjartanu að það verður í lagi. ---Þar til næst kveður frú tuða  með bestu kveðju allt um kring. ---  Ps. Fór og nýtti minn kosningarétt, bara svo það sé skjalfest!

föstudagur, 12. október 2012

Er sandur sandur?

Sandur og sandur er kannski það sama góðir hálsar, en svartur sandur og svartur sandur er ekki það sama. Mikil "pæing" á bak við þetta, og svo sannarlega er enginn sandur eins á litinn. Sumir safna skóm, aðrir teskeiðum sumir lyklakippum, en ég safna sandi. Mér er ekki nokk sama hvernig hann kemst í mínar hendur....við bestimann verðum sjálf að ná í hann og meðhöndla. Margir halda að ég sé með allskonar krydd í fínum krukkum, dettur ekki í hug í fyrstu að þetta gæti verið eitthvað annað. ( Ekki þó neitt ólöglegt svona á þessum síðustu og verstu!) Ok, eldhúsgluggarnir fullir af sandkrukkum og engar hillur að fá sem pössuðu, á allrahanda máta. Allt verður þetta altso að fitta inn í systemið. ( afsakið sletturnar hjá prófarkalesaranum!) ---En.... nú kemur karmað til sögunnar, gaman að þessu. Þegar ég var í geislameðferðinni þurfti ég oft að fara til sjúkraþjálfara. Við hliðina á þjálfu var fótsnyrtistofa sem ég þurfti bráðnauðsynlega á að halda. Þegar ég gekk í téða snyrtistofu blöstu við mér hillur....hillurnar sem ég þurfti svo sannarlega á að halda! Haldið þið ekki að eigandinn hafi staðið í breytingum á stofunni og vildi/gat ekki notað þessar yndislegu hillur. Nú fór um mig...hvað átti ég að gera? Gerði það eina í stöðunni....bað um hillurnar. Hingað eru þær komnar og smellpassa svona algjörlega. Ég átti hreinlega að fá þessar hillur. Héðan í frá ætla ég aldrei að fara annað en á Greifynjuna í Árbæ þegar ég þarf að láta kíkja á tærnar. Það er góður staður til að láta dekra við sig. --- Á dögunum fékk ég/við yndislega og aldeilis frábæra gjöf frá góðum fjölskylduvini. Ljóðabækur allra meistaranna innbundnar í leður með gylltu letri. Við nánast táruðumst.... en hvað? hillurnar góðu voru sem smíðaðar undir þessar dásamlegu bækur. Þetta hilluskot er mér dýrmætt, klukkan, (hefur sögu)  heklaða krabbameinsbjallan frá Hauki,  kr.slaufu- golfkúlan frá krumma og litli óskasteinninn sem á að færa Þuríði betri heilsu og tengdasyninum gæfu í vinnuferð. Ég sendi ykkur góða strauma hvar sem þið eruð þar til næst.

þriðjudagur, 18. september 2012

App!



Jæja, aldrei fór það svo að ég settist ekki niður. Eins og ég hef gaman af að skrifa og lesa það sem aðrir skrifa rennur upp fyrir mér að ég er alls enginn bloggari. Þeir hafa nefnilega svo mikið að gera við að skrifa um allt mögulegt. Ég vil helst ekki skrifa um ofurlaun, svik, pretti og gróðrabrask....ég bara tuða um það út í loftið, en það get ég sagt ykkur hátt og í hljóði að mér er ofboðið á flestum sviðum og hana nú. Ekki vil ég t.d. verða dregin fyrir dómstóla fyrir bloggskrifin mín, og þori varla að anda á fésinu sem ég stelst stundum í í gegnum bestimann. Með öðrum orðum, ég er ekki góð í þessu en mér líður samt ágætlega með það.-- Skólinn hafinn, kartöflur uppteknar, kæfu- og sultugerð líka og kálið mitt í snúðakassanum varð ætt. Mætti halda að hér byggju fleiri en tveir að staðaldri. Ég er líka búin að rífast við Símann, náði loks lendingu við Gigtarfélagið í dag og fer til sjúkraþjálfa bráðum og heimta svo af almættinu að ég verði eins og danska meri kóngsins eftir þetta alltsaman!!! Minna má það ekki vera. ----Undanfarin nokkur sumur hef ég verið að berjast við blaðlús í rósaskálanum, mér til mikils ama, en rósunum ekki til skaða. Nú bar svo við í sumar að hún lét ekki sjá sig.... og ekki heldur hjá nágrannanum okkur til ómældrar gleði. Undur náttúrunnar eru mikil, og er ég orðin þess viss að veðráttan yfir veturinn hefur mikið um þetta að segja. Það var ekki einu sinni maðkur í öllum trjágróðrinum.-   Núna er ég búin að vaða úr einu í annað, og heita þessi skrif belgbiðurugl, en þar til næst bið ég alla um að passa upp á sig og sína.

fimmtudagur, 23. ágúst 2012

Góður dagur.

Já, þetta er bara gaman.   Fórum í þrælskemmtilega dagsferð til Vestmannaeyja og lulluðum þetta heim í dag frá Vík hvar við gistum. Stoppuðum í berjalandi á leiðinni, sólin skein og skúmurinn  lét sér líða vel. Svo gerðum við. Efri myndin sýnir hina dásamlegu norsku kerlingarglás, (sérstaklega fyrir frú Sigurbjörgu, þú bara hringir) en sú neðri sýnir daginn í dag....eða daginn fyrir 37 árum. Þá giftum við bestimann okkur, og fengum við þessa yndislegu mynd í brúðargjöf sem hefur æ síðan hangið yfir eldhúsborðinu, enda aldrei orðið svöng að ráði!  Í dag 23. ágúst er líka nákvæmlega eitt ár síðan ég fór í síðustu lyfjameðferð, og þar með segi ég bless við óhroðann.  Heimferðin í dag var því heldur ljúfari og ekki eins  steraskræk og þá. Takk fyrir það þar til næst.

miðvikudagur, 15. ágúst 2012

komin aftur


Heil og sæl öllsömul. Ég vona að allir séu mjöööög glaðir að sjá mig þeysast fram á ritvöllinn aftur. Efri myndin sýnr hvar við bestimann héldum að við værum á beinu brautinni frá LA til NY á heimleið frá Svanfríði minni. Úpps, komin framhjá....við lentum í hér um bil öllum hremmingum sem hægt var að komast í án þess að skaði yrði af. Ég fór oft með faðirvorið......sessunautur minn frá Perú gerði slíkt hið sama, en bestimann hélt utanum það sem hægt var. Mikið þó djöfu...... veðurfar þarna á austur ströndinni. Fimm tíma flugið varð að 10 tímum og þegar við svo að lokum stigum upp í the yellow cab í stóra eplinu hélt ég endanlega að ég yrði hreinlega drepin. Jamm það er gott að vera komin heim.  Dvöl okkar vestra var engu lík, og mér líður miklu betur í hjartanu eftir að hafa séð og snert. Við eigum yndislegt fólk og ég þarf ekki að tíunda það hér  frekar að snúðarnir mínir eru fallegastir og bestastir í vesturheimi og þótt alls staðar annarsstaðar væri leitað. Sagt og skrifað. ---Eftir töluvert ark og þónokkra yfirferð í NY var gott að koma heim í svalann, en nokkuð lerkaður. Síðan þá hefur lífið verið gott, og ef þið undrist á neðri myndinni þá er ég að ljúka við að háþrýstiþvo og missti slönguna öfugt...Ég ég líka búin að mála girðinguna umhverfis kirkjugarðinn í Lóni, búa til norska kerlingarglás og  6 kíló af kæfu. Svo skrapp ég suður í myndatöku og bið svo sannarlega um blíðaveður. Af öllu montinu hér að ofan er varla hægt annað að segja en að það sé fjandakornið ekkert að mér...---- Allavega kom ég heil heim úr mikilli ævintýraferð hvar sem ég naut mín í botn með mínu fólki, sá margt og fór nokkuð víða. Söng með snúðunum, bar á þá sólarvörn og eldaði besta kjúkling sem Natti hefur fengið á allri sinni 5 ára ævi! Hann sagði líka nákvæmlega: Amma, þú hefur nice hár. Með það á vörunum (puttunum) ætla ég að biðja ykkur vel að lifa þar til næst.

laugardagur, 21. júlí 2012

Ferðalangar

n
  Nú er mikið ferðalag að baki......í bili. 3ja daga ferð og bara nokkuð strembin, en hverrar mínútu virði. Við bestimann erum skemmtilegustu ferðafélagar ever! Ok, nokkuð stórt tekið upp í sig. Það voru margir sérkennilegir karakterar með Greyhound, og kannski höfum við hjónakornin verið skondin í þeirra augum. Leiðin til San Diego er yndisleg, landslagið fjöllótt og gróið. Borgin sjálf er mjög falleg, og það var gaman að sjá hana frá sjó. Það er ekki nema örfá háhýsi, ekkert yfirþyrmandi. Við gistum á hóteli í gaslampahverfinu, ofsalega fallegt svæði. USS Midway , kafbátar og sigling var á dagskránni....dagskráin var doldið stíf hjá gömlu brýnunum.......en eitt skal sagt.....við erum að njóta hverrar mínútu. Söknuðum snúðanna okkar, og er ég farin að undirbúa mig andlega að kveðja í þetta skipti. Natti minn sofnaði í fanginu á mér yfir úlfamyndinni, en æðsti snúður hélt fyrir augu og eyru af því að það var kvöld! Það er nefnilega verra að horfa á svona úlfa á kvöldin. Las síðan sögu fyrir þann sem hélt sér vakandi, og ætla að leggjast uppí og láta mig dreyma súkkulaði eins og Natta dreymir á hverri nóttu en þar til næst hlakka ég til daganna sem eftir eru.

sunnudagur, 15. júlí 2012

Og tíminn flýgur.....





Skil ekki frekar en fyrri daginn hve hratt tíminn líður. Við erum komin á seinni hluta yndislegrar dvalar hér í bláa húsinu. Snúðarnir mínir eru hörkunaglar sem skilja mælt mál á tveimur tungum. Það er dásamlegt að fylgjast með málþroskanum. Natti minn veit að maður segir smámunAr í stað piece of cake! Þeir kunna vísur og faðirvorið, allt uppá punkt og prik. Ég tek ofan nýja sólhattinn minn fyrir henni dóttur minni, eljunni við að halda þeim við efnið. Það er nefnilega bara hún ein sem talar málið við þá, og þess vegna væri svo auðvelt að sleppa þeim við að læra það.  Natti litli er bara fimm síðan í vor, en hann er víkingur til allra verka og skarpur. Hann vílar fátt fyrir sér, en er einnig blíður og góður. Eyjólfur stóri snúður er hugsuður og ferlega klár, blíður og góður. Þeir bræður mega helst ekki af hvor öðrum sjá, en geta líka verið hundleiðinlegir hvor við annan innanum og samanvið. Eðlilegustu snúðar og bestastir auðvitað, og flottir á brettunum eins og myndin sýnir. Dagarnir líða semsagt, og áður en litið verður um öxl sitjum við bestimann í flugvél heim á leið. Í næstu viku ætlum við að skreppa til San Diego og fara með Greyhound rútu! Eyjólfi mínum líst ekki of vel á þetta ferðalag gömlu hjónanna, gætum misst af lestinni einhversstaðar. Við bestimann verðum því kannski eins og farþegarnir sem maður sá í gömlum bíómyndum, það er "stórskrítnir" ferðalangar í Greyhound.....en þar til næst ætla ég að halda áfram að hafa það sem best og sendi ljúfastar yfir hafið.

miðvikudagur, 11. júlí 2012

Án titils....

Heima hjá okkur tökum við bestimann gjarnan veðrið, og helst allar veðurfréttir. Við eigum þó ekkert undir, hvorki heyskap eða sjósókn.Bara vani.  Hér á bæ er hitamælir sem skín aldrei sól á, og seinnipartinn sýndi hann 40 %.....varð heitara fyrr. Það er svo skrítið að sami Spánarhiti væri búinn að hálfdrepa mann vegna raka. Hér í eyðimörkinni er "bara" heitt. Skrokkurinn elskar þetta loftslag, en við ætlum ekki að flytja!.....San Diego er á dagskránni......en áður en hún verður farin verð ég að setja inn brettamennina mín sem hafa smáholu (alltaf) fyrir ís. Bestimann og guttarnir sitja þá gjarnan í skugga og ræða málin með kveðju þar til næst.

föstudagur, 6. júlí 2012

Er ég fræg?

Já, við mæðgur erum frægar eins og þið sjáið. Erum búin að gera víðreist í dag, dag sem maður þarf að melta um stund. Allt var svo mikið eitthvað. Vorum í frægri götu í Beverly Hills t.d. hvar ég þóttist sjá eina fræga úr sjónvarpsþætti bandarískum. Hinir sáu hana líka og allir voru kátir. Það þarf ekki mikið til að gleðja Vögg! Þegar maður sér stjörnugötuna í sjónvarpinu virkar hún svo gasaleg, en í raun er þetta ósköp venjuleg gangstétt og lætur akkúrat ekkert yfir sér. Þetta var samt gaman, og að sjá stóru Hollyvoodstafina í fjallinu gerði helling fyrir mig og mína. Bert er flottur bílstjóri og við hlið hans voru dóttlan mín og Guðm. P. Sigfússon sem skiluðu okkur öllum heilum heim. En mikið hvað ég er mikil gunga þegar akreinarnar í sömu átt eru 6..... Ég á yndislega vinkonu frá því gamla daga..... mikið góðar vinkonur sem hittumst alltof sjaldan. Þegar ég var í geislunum, og var í Rvík í margar vikur var reynt að koma saman í mat...Ekki gekk að finna tíma sem hentaði öllum. Til að gera langa sögu stutta hittumst við í dag í LA... Lygalaust, dóttir hennar og tengdasonur búa hér og úr þessu varð heljarins mikið pönnukökukaffi. Já, lífið er gott og ég á gott, og ég á líka gott í töskunni minni þar til næst.

miðvikudagur, 4. júlí 2012

Enn það sólskin um mýrar og ..........

Gatan hér er mjög falleg, eða réttara sagt húsin og garðarnir við hana. Margir klippa gróðurinn til í skúlptúra, og er þetta virkilega fallegt. Gras er ekki víða því þá þyrfti að vökva látlaust, og vatn er ekki eitthvað sem fólk bruðlar með. Hér er hitinn alltaf eins, 35 - 40 stig, en loftið er þurrt svo þetta er ekkert bagalegt. Húsin eru vel loftkæld og hansagardínur halda sólinni úti. ------ Í þessum hita og ljúfa lífinu þessa dagana bregður svo við að ég finn ekkert til í skrokknum. Krabbameinstaflan sem ég tek daglega hefur valdið stirðleika og leiðindum, en núna......volá..... Mikið gaman framundan, LA .... kannski verðum við fræg..... ef ekki þá er það bara allt í lagi þar til næst.

þriðjudagur, 3. júlí 2012

Þessi dagur hefur liðið eins og í blíðri sólskinssögu. Fórum með tveimur ungum mönnum á ströndina þar sem mokað var af krafti. Eftir það fóru þeir á sundnámskeið og það kostaði fótanudd á bæði borð yfir sjónvarpinu. Lífið er lottery, og okkar lottery er að eiga gott og yndislegt fólk þar til næst!

laugardagur, 30. júní 2012

Gott kvöld þið sem lesið. Er með nýja tölvu, er að fikra mig áfram og hvað er betra en að birta mynd af tveimur ungum mönnum sem eru að ræða málin. Hér er blíða sem ég sendi yfir þar til næst.

föstudagur, 29. júní 2012

Fréttir að vestan!

Nú er gaman að lifa, hér erum við bestimann í góðu yfirlæti hjá okkar fólki. Vikan hefur liðið eins og hendi væri veifað. Það lá nærri að við kæmumst ekki hingað því það fyrirfórst að sækja um ferðaleyfi til USA. Nýjar reglur sem fóru algjörlega fram hjá okkur. Starfsfólk Delta á Íslandi brást við og allt gekk þetta að lokum. En það get ég sagt með sann að það fór um Gvend og meyna. Nokkurra tíma seinkun í NY vegna brjálaðs veður, og sátum við í 3 tíma í vélinni og hristumst á jörðu niðri. Þegar við fórum svo loksins í loftið vorum við 6. flugvél í röðinni, en fyrir aftan okkur voru allavega 11 vélar að bíða eftir flugtaki. Það er því eins gott að dvelja um stund í faðmi fjölskyldunnar. Snúðarnir mínir yndislegir og vel gerðir náungar sem gaman er að umgangast. Eyjólfur les á morgnana fyrir afa sinn og eru það góðar stundir fyrir báða. Við erum búin að fara á safn "route 66" og sjá minningarmark og kapellu í minningu Roy Rogers. Í dag var það svo "draugabær". Þegar gullnámurnar kláruðust fór fólk og eftir varð draugabær, sem er orðinn að vinsælum ferðamannastað. Það var eins og að taka þátt í gamalli káboy mynd úr villta vestrinu að koma þarna. Kæru vinir, lífið er sól og blíða þar til næst.

föstudagur, 15. júní 2012

Mannlíf, ten points!

     Mannlíf hér er voða voða gott, og myndin a tarna sýnir Staka Jaka út við ysta haf  á fallegu kvöldi eftir tónleika. Dulítið dökk, en hvað með það, allir voru bjartir þegar myndin var tekin.Margt hefur á daga mína drifið síðan krummi sendi mér golfkúluna. Húsið málað (það sem þarf) , minningarreiturinn hreinsaður og með fínum blómum og síðast en ekki síst er girðingin kringum Stafafellskirkju á góðri leið með að verða eins og ný. Eins er ég búin að fara til Reykjavíkur í eftirlit og sagði læknirinn að ég væri bara flottust! Næsta skoðun er eftir 4 mánuði. Það er ótrúleg rússíbanareið að fara í eftirlit, ég hefði ekki trúað því. Það er eins og maður búist við hinu versta þrátt fyrir bjartsýni og jákvætt hugarfar. Þegar allt reynist svo í orden er maður eins og sprungin blaðra og tárakirtlarnir vita ekki hvenær þeir eiga að skrúfa fyrir. ----  Nú er Ameríkuferð alveg að detta á, og þegar húsflugan flytur inn erum við farin. Ég er einhvernveginn svo yfirmáta á alla vegu að ég er að pakka niður og faðma mitt fók um miðjar nætur..... sko, altso hér í mínu rúmi. Gengur ekki, en mér er alveg sama. Sef síðar. Kannski bara í flugvélinni. Núna stendur mikið til hér á Höfn við undirbúning mannlífsþáttar sem sjónvarpið er að taka upp. Bærinn er fullur af fólki sem tekur þátt í  að fegra miðbæinn og stemning mikil....nóttin björt og mannlíf gott þar til næst.

föstudagur, 25. maí 2012

Jákvæð broskerling!

Einu sinni var kona hér í bæ sem var mikill golfspilari, og góð kona. Hún gaf krumma alltaf að borða. Í þá daga pössuðu menn upp á golfkúlurnar sínar og merktu þær vel og vandlega. (Ekkert bruðl þá) Staðurinn lítill og ekki margir golfarar. Rétt hjá heimili konunnar var staður sem hún gaf krumma að éta, og voru allir glaðir með það. Einn daginn sér konan út um eldhúsgluggann glitta í eitthvað hvítt þar sem "matardallur" krumma var og fór út að gá. Var þar þá ekki komin vendilega merkt golfkúla matmóðurinnar, sagt og skrifað. Krummi var sennilega að þakka fyrir sig.-- Í gær hringdi nágranni og sagðist halda að fugl hefði verpt í blómabeði okkar bestimanns og að hreiðrið væri sennilega yfirgefið. Bestimann fór út og fann þessa fínu golfkúlu hálffalda í mold. Við þvott kom í ljós bleika slaufan, og finnst mér sem krummi sé að þakka mér fyrir allt gúmmelaðið sem hann hefur fengið frá mér, og jafnframt að segja mér að nú sé nóg komið og ég sé orðin frísk! Ég nefnilega gef krumma, en aldrei hér inni í bæ. Við höfum margoft séð þann svarta með golfkúlu í gogginum, sem hann lætur svo detta trekk í trekk í von um að eitthvað sé inni í henni. Eitt af mínum uppáhaldslögum er einmitt Krummi, eftir Tryggva M. Baldvinsson við texta Davíðs Stefánssona, og  ég ætla að gefa krumma áfram. Tel mér trú um að þessir tveir sem ég gef séu alltaf þeir sömu, en ég get náttúrulega ekki verið alveg viss. ---Jæja, nú erum við bestimann altso að fara vestur, og það í Blátt hús....að vísu ekki lítið, en í mínum huga er þetta litla Bláa húsið þar sem svo mikill kærleikur hefur ríkt, og hann verður fluttur með til vesturstrandarinnar. Ég er orðin svo spennt að ég veit varla hvernig ég á að anda. Allt klappað og klárt, svo nú er bara að njóta. Áður en það verður ætla ég í smá söngferðalag með Gleðigjafa, og taka sprett með Stökum Jökum, en þeir syngja Krummann svo fallega. Fréttir daganna eru oft svo leiðinlegar, en mér finnst eins og þær nái ekki inn í sálartetrið mitt. Njótið með mér þar til næst.

laugardagur, 21. apríl 2012

"Tíminn líður....

     áfram og hann teymir mig á eftir sér" söng Jökull svo fallega á vortónleikunum í gærkvöldi. Hef svosem aldrei "spáð" mikið í Megas, og ef eitthvað þá hef ég átt erfitt með að "höndla meistarann". Hins vegar ét ég margt ofan í mig, karlinn er klár! --- Nú er mikill kraftur í vorverkum Hornfirðinga, tónleikahrina framundan og leikfélagið að frumsýna. Það er gaman að vera þátttakandi í samfélaginu þegar svona vel viðrar! Nú er orðið ljóst að við bestimann fljúgum ekki í lítið blátt hús, en við ætlum að fljúga í það hús sem litla fjölskyldan mín velur sér. Í gamla daga, þegar ég var ung var talað með mikilli virðingu um fólk sem hafði ferðast. Það var siglt. "Hann er nú sigldur þessi".. mikil lotning fólst í þessum orðum. Þegar við bestimann verðum búin endaþeysast þetta verður örugglega hægt að segja með lotningu: Hér koma sigldu hjónin! -- Ef Megas reynist sannspár í textanum þá flýgur tíminn áfram og teymir okkur með sér alla leið til Victorville á vit ævintýra sem búa í litlum strákum. -- Skólinn er á síðasta sprettinum með öllu tilheyrandi,  tónleikaferð með karlakórnum framundan, Stakir Jakar eiga sína tónleika eftir og Gleðigjafarnir líka. Af þessu má sjá að tíminn flýgur áfram, og gott ef ég næ í skottið á honum. --- Sólskálinn er tilbúinn fyrir sumarið og rósirnar þjóta upp...og næst á dagskránni er að reyna betur við matjurtakassann. Hann einhvernveginn dó bara í höndunum á mér...blómkálið svona nokkurnveginn leystist upp og litlir angar af einhverju skutu upp kollinum. Núna duga engin vettlingatök, skítur skal sóttur og bingó....allt fer að vaxa. Mér þykir helv... hart ef ég get ekki ræktað annað en graslauk í þessum annars fína sandkassa þeirra Getchell bræðra. Þar til næst óska ég ykkur gleðilegs sumars.

föstudagur, 6. apríl 2012

O jamm og já!

Já þetta vex og vex og allt í krullum og sveipum. Bráðum get ég sveipað þessu öllu fram og til baka. -- Ég var búin að eyða mikilli orku og svefnléttum nóttum í að kvíða fyrstu skoðun eftir meðferð, en viti menn: alveg óþarfi, er í góðu lagi, og meira að segja algjörlega vandræðalaus, og þar af leiðandi engum til ama....að sögn læknisins, og hann veit sko alveg sínu viti! -- Næst ætla ég að reyna að vera ekki svona mikið kvíðastrá. Ég fór keyrandi suður og var ein á ferð í miklum spar-akstri. Drakk kaffi hjá góðu fólki í stóru bláu húsi á Selfossi og keyrði svo í glaðasólskini Þrengslin og ullaði á þokuna á heiðinni. Þar sem ég vissi fyrir löngu hvenær ég færi suður (ok í vestur!) komst ég bæði í óperuna og á Vesalingana. Undur og stórmerki, það er eitt orð yfir það. Hvað erum við annars mörg á Íslandi? Í óperunni geng ég út frá því sem vísu og veit að þar er valinn maður í hverju horni. Auðvita eiga allir sína daga, en aldrei hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Eins var það núna. --- Ég veit líka að við eigum vel menntaða og færa leikara, en að þeir skuli líka vera fantasöngvarar er náttúrulega algjör bónus. Ég sat nánast ofaní gryfjunni og fékk kökk í hálsinn og varð aftur barn sitjandi þar sýningarnar út. Eftir svona veislur verður mér orða vant, og allt kvart og kvein verða eitthvað svo ljótar athafnir. Það er nefnilega svo margt fallegt í kringum okkur. --- Eftir páska hefst lokasprettur í skólanum og á öllum kór-vígstöðvum, en með fyrstu sumarskipunum ætlum við bestimann að leggja íann vestur um haf, en hvar við lendum endanlega verður bara að koma í ljós. Ég er að verða aðframkomin af söknuði eftir mínu fólki og lái mér hver sem vill, og hana nú þar til næst. ------------Gleðilega páska.

föstudagur, 16. mars 2012

Eitt ár...

Eitt ár er ekki langur tími í stóru myndinni, en fyrir suma líður það seint, aðrir lifa það ekki af og enn aðrir baslast áfram. Ég tilheyri því síðasta, en fannst á tímabili hinir möguleikarnir ættu við mig líka. Akkúrat núna er eitt ár síðan lífi okkar bestimanns var snúið á hvolf í orðsins fyllstu merkingu. Bæði "hérmegin Atlandsála og hinumegin". Þegar verst lét var ég alveg skíthrædd en þá taldi bestimann að okkur væri nú algjörlega óhætt. Við það sat og ég kemst ekki upp með neitt múður. --- Þegar ég lít yfir árið verð er ég hissa hve "auðveldlega" það leið. Allavega er það liðið og ég stend/sit hér nokkuð keik og funkera þokkalega. Það er allavega búið að skemmta sér dulítið yfir að nokkurnveginn stóð ég alltaf kl. X og eldaði kvöldmat. Það fannst mér alveg nauðsynlegt, annars væri allt tapað! -- Eftir 2 vikur fer ég í fyrstu skoðun eftir meðferð og burra ég stundum með vörunum.... þið vitið.... setjið vísifingur á milli blautra var og segið prummmmmph! Ég kann ekkert annað ráð til að ná hugarró og vissu um að ég sé mikið heil heilsu. Mér er sagt að ég líti svoooo vel út, ég sé með svoooo flott hár og litaraftið sé engu líkt. Þessu ætla ég að trúa, og trúi í raun. Ég vil bara að skoðunin sé búin og Einar segi allt það sem ég var að skrifa. Mér er nefnilega ekki lagið að vera þolinmóð nema þegar mér sjálfri hentar! -- Ps. eins og í bréfaskrifunum í þá gömlu góðu er ég farin að hlakka verulega til að fljúga vestur í lítið blátt hús, og Tjaldurinn er kominn í fjöruna fyrir neðan Tónskólann. Jibbí þar til næst.

laugardagur, 10. mars 2012

Rokrokrokrok!

Ég held ég hljóti að fjúka út í veður og vind í sterkustu hviðunum, en áður, verð ég að láta ykkur vita að ég fer að sjá La Bohem og Vesalingana mjög bráðlega! Já já og enga öfund. Bið bestimann að fergja mig svo plönin standist þar til næst.

laugardagur, 3. mars 2012

Fréttaveitan að eystan

Frúin doldið úfin, en það er ekki gott að gera, þetta er svo sjálfstætt hár. Fór í mína fyrstu klippingu á dögunum og fannst ég vera voða stór stelpa. Er líka búin að fara í fótsnyrtingu með gasalega fáar tásluneglur, en það var samt gott. Það er líka gott að puttaneglurnar eru ekki lengur brúnar, hafa vaxið í rólegheitum fram hvítar og fínar. ---Ég ákvað á sínum tíma að skrifa mig frá hlutunum og hef staðið við það. Líður betur með það einhverra hluta vegna, og mér finnst bloggið mitt ekki vera verri staður en annar til að leyfa huganum að ráfa. Ég veit um marga sem hafa gengið í gegnum svona hremmingar án þess liggur við, að nokkur fái pata af því hvernig þeim líður, og að skrifa þetta á veraldarvefinn er guðlast hjá mörgum. Jamm, sem betur fer erum við misjöfn, en ég er viss um að ferlið er auðveldara ef maður lokar ekki allt og læsir inni. ---Í fimm ár á ég að taka eina pillu á dag svo ég verði nú alveg örugglega laus við allan óþverra. Margar konur ( þær sem þola téða pillu) kalla hana demantinn. Jæja, hörkukellan ég gafst endanlega upp á demantinum. Gaf honum þriggja mánaðar séns.... búið spil.... Varð gjörsamlega ómöguleg eins og amma mín sagði stundum. Það þýddi ekki gott. Núna er ég á 11. degi án "grjótsins" ( ekki demantur) er fír og flamme og stekk á milli stóla eins og hind. Dofi í puttum og tám á verulegu undanhaldi, og frúin bara dafnar. Systurlyf verð ég sett á og ku konur þola það betur. Vonandi á það um mig. Það er með ólíkindum að það skuli þurfa hálfdrepa mann til að koma manni á lappirnar á ný. ---Annars er allt í góðu, kennsla og kórastarf gefa mér það sem þarf til að viðhalda huga og hönd og við bestimann erum farin að huga að Ameríkuför með snemmsumarsskipunum, því þar er fólk sem við þráum að faðma. Seinna í þessum mánuði fer ég í fyrstu skoðun eftir meðferð og ég er viss um að hún kemur vel út, mér líður þannig. Á leið minni suður ætla ég að drekka kaffi í stóru bláu húsi. Það er gott að eiga góða að í litlu bláu húsi og stóru bláu húsi þar til næst.


laugardagur, 11. febrúar 2012

Hér kem ég!



Eins og ætlaði mér að vera dugleg við skrifin hefur lítið orðið um efndir. Jæja, það eru allir á fésinu og bloggið orðið gamaldags. Læt það þó ekki stoppa mig í strjálum skrifum, er ekki á fésinu, er ekki með heimabanka og kann ekki að nota punktana mína! ---Þoli ekki svona punktavesen. Af hverju er bara ekki hægt að selja vöruna á réttu verði og sleppa þessum punktum? Ég/við sennilega fljúgum klofvega á uppsöfnuðum punktum okkar bestimanns vestur um haf, ekki slæm tilhugsun það. Þarf bara að fá punktaleiðsögn. Ég er svooo illa nútímaleg í svo mörgu. Ég vil t.d. geta hringt í sölumann flugferða og hann ráðið framúr minni för. Frumskógarleitin á netinu hugnast mér illa. Ég vil líka borga mína reikninga hjá góðu konunum í bankanum mínum, ekki í gegnum alheiminn. Vil hafa þetta auðvelt, en samt lifa í nútímanum. Mér er varla viðbjargandi á þessum sviðum. Annars gengur lífið hér á bæ sinn vanagang. Ég stunda mína vinnu, en finn að töluvert vantar upp á fyrra úthald. En, þetta kemur hægt og sígandi með hækkandi sól. Sennilega verð ég nokkurn tíma enn að komast yfir aukaverkanirnar, en hárið vex, hrokkið, þykkt og marglitt, en táneglurnar láta á sér kræla. ---Í myndagrúski á dögunum fannst þessi mynd hér að ofan, og hvað ég skemmti mér vel við að skoða. Við erum þarna tvær að syngja á Borginni með hljómsveit og alles. Kjólaverslun í Reykjavík klæddi okkur upp og allt var voða elegant. Vorum líka í síðkjólum og með feikna hárgreiðslu og önnur lekkerheit! Eftir því sem ég best veit höfum við flest sem þarna vorum gert tónlistina að starfi, allavega hefur hún skipt gríðarlega miklu máli í okkar lífi. Við höfðum listrænan leiðbeinanda því vorum bara unglingar. Sá var flinkur píanisti og kunni allt. Ég hugsa til hans með virðingu. --- Hér í bæ er til hljómsveit sem heitir því yndislega nafni Hilmar og fuglarnir. Innanborðs eru "gamlir" jaxlar sem kunna sitt lítið af hverju, þar á meðal bestimann. Þeir spila nokkrum sinnum á ári og halda sé þannig í æfingu. Núna eru þeir búnir að spila á þremur þorrablótum og verið býsna líflegir í gömlu dönsunum. Það er nefnilega viss kúnst að halda uppi gömludansa stuði. ---Á næstunni verður svo ball þar sem hluti af Hilmari og fuglunum munu leika fyrir dansi... Ég ætla að reyna að smygla mér þar inn.... Það er altso fyrir leikskólana... Fyrst á réttunni og allt það. Guð hvað ég held að verði mikið fjör, því allt er svo auðvelt, opið og yndislegt þegar fólk er í leikskóla. ---Fer oft á yndislega planið með yngstu nemendum mínum. Á dögunum þegar ég var að útskýra fyrir einum stubbi þjóðlög. Hann kom strax með skýringuna í fjórum orðum. Guð bjó til þjóðlögin! Þar með segi ég amen þar til næst.

laugardagur, 21. janúar 2012

smá öppdeit!

Svona lítur frúin út til höfuðsins í þessum skrifuðu orðum. Veit ekki enn hvort mér líkar þetta marglita hár eður ei. Verð því að sætta mig við fyndið hár, hef ekkert val þar til næst.

föstudagur, 13. janúar 2012

Að kveldi dags



Það er gaman að grufla í gömlum myndum, það eru allir eitthvað svo gasalega ungir. Óskiljanlegt. Á þeirri efri var bestimann meðlimur, og þeir voru sko í uniformi og þóttu þrusugóðir. Spiluðu á útihátíðum, og allt. Pan kvintett. Ég er á þeirri neðri ásamt hljómsveitinni Sunnan sjö og Guðlaug! Báðar þessar hljómsveitir voru húsbönd á sínum tíma hér, en í þá daga þótti sjálfsagt og nauðsynlegt að fara á böll. Var búin að syngja töluvert áður en ég flutti austur og fannst mér mikill menningarbragur á ballmenningunni hér. Ég held að frá því að ég flutti hingað hafi alltaf verið starfandi hljómsveitir á staðnum. Lengi lifi Hornafjörður! Af sjálfri mér í dagsins önn er bara allt gott, og hárið vex en er ennþá fyndið. Ég hef aldrei vitað af sveipum hér og þar, og liturinn er eitthvað svo út í bláinn. Lúxusvandamál, og frómt frá sagt held ég að eftirstöðvar hremminga minna séu léttvægar miðað við alvarleika málsins. Ég er farin að kenna og var mér tekið með miklum innileik af mínu fólki. Einn mikill og góður nemandi minn sem er spar á faðmlögin svona yfirleitt gaf mér eitt risa stórt, og lagði höfuð sitt að mér. Þá fannst mér ég vera forréttindadama. --- Kórarnir eru hér allir og ég tek þátt í leit þeirra að góðu sönglífi. Þrátt fyrir allt tek ég lífinu nokkuð rólega og sálin er í góðum gír. Daginn er tekið að lengja og ég þá er ég alltaf svo létt á fæti, eða þannig......langar svo að taka kátínuhopp einn daginn. Hver veit...þar til næst. ---- Ps. Ég elska tæknina þótt ég kunni alls ekkert á hana. Sé mitt fólk daglega á skybe, Eyjólfur les fyrir mig á íslensku og ég sit með "köttinn" í kokinu yfir hvað þeir snúðar eru fallegir. Farið varlega í hálkunni.

sunnudagur, 1. janúar 2012

Ég heyri baul!?




Gleðilegt nýtt ár sendi ég ykkur öllum með blítt hjarta, og takk fyrir allar góðu kveðjurnar og stuðninginn á árinu. Ég get ég sagt ykkur að ég met það mikils. Ég ætla ekki hér að líta yfir farinn veg, er nokk búin að því, en ætla samt að trúa ykkur fyrir því að ég sakna þess ekki. --- Í öllu mínu aðventu og jólatáraflóði þornaði ég upp í kvöld, aldrei þessu vant! Þegar stafirnir í sjónvarpinu hverfa og birtast leggst ég alltaf í mikinn grát ofaná allan annan grát í Desember.
Ekki núna...ég ætla ekki að gráta 2011, en ég ætla að bjóða 2012 velkomið í minn bæ. Líka í lítið blátt hús og á alla aðra bæi. --Núna er Nýársnótt og ég held að kýrnar bauli... , og þær baula fallega. Því ætla ég að trúa. ---Á þessari nótt fer ég alltaf ef hægt er á næstu bæi... en núna er bara ekki fært eins og sjá má á myndunum. Nágrannarnir gerðu ALLT til að ég kæmist á milli húsa, en sandur og salt virka ekki alltaf, og ég þorði ekki. Nágrannarnir í þvældu götunni í Ástralíu hafa ekki roð í mína granna. Núna er allt orðið hljótt og ég veit að björgunarsveitirnar hér hafa fengið gott í skóinn í kvöld. Sem betur fer. ---Ég umvef ykkur öll með þeirri hlýju og væntumþykju sem ég á og bið ykkur vel að lifa þar til næst.