miðvikudagur, 30. desember 2009

"Glatt skal á hjalla og gleymd skal hver þraut"

Allavega ætla ég að reyna að lifa áfram samkvæmt þessu textabroti sem Brynjólfur leikari söng svo listilega á síðustu öld. (Jamm, ég kann vísurnar og því orðin eldri en tvævetra) Ekki ætla ég að skrifa annál, en sennilega verð ég með langloku ef ég þekki mig rétt. Fæ gjarnan ritræpu þegar ég byrja. Jólin voru yndisleg og bestimann fékk t.d. tvær geitur á fæti í jólagjöf og ég fékk peysukjól. Bækur og fleira fallegt rataði undir tréð, en pakkarnir frá dóttlunni og hennar fólki svífa einhversstaðar um Evrópu. Þegar þeir birtast verða önnur jól með öllu tilheyrandi. Tónleikar allir afstaðnir og flygillinn lokaður þar til annað kvöld, en þá verður nýja árið sungið inn. --- Hafði það af með smákökuáti á dögunum að eyðileggja eina tönn, og kostar það skrúfu í "málbeinið" með öllu heimsins vafstri og útlátum. Semsé, handleggjum og fótum. ---Náðum líka að fylla olíubílinn minn af bensíni, en það reddaðist eins og svo margt annað í lífinu. Nú gengur nýtt ár í garð og á þeim tímamótum vona allir að það færi okkur frið, ró og gæfu. Ég óska þess líka öllum til handa, og segi enn og aftur: Ég vildi verða kóngur í einn dag. Kæru bloggvinir nær og fjær, ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs þar til næst.

miðvikudagur, 23. desember 2009

jól, jól skínandi skær.


Kæru vinir nær og fjær, við bestimann sendum innilegar óskir um gleðileg jól öllum til handa. Sveinkarnir á efri myndinni koma mér alltaf í gott skap, og fyrir prófarkalestur
var mér færð yndisleg matarkarfa sem er yfirfull af afurðum framleiddum í héraði. Jólakveðjurnar í útvarpinu eru í bakgrunni, og dóttlan mín er að undirbúa grjónagrautsveislu fyrir kanann. Njótið samverunnar og farið vel með ykkur þar til næst.

laugardagur, 19. desember 2009

Ameríkufarinn/staðreyndir.

Jæja, það kom þá að því sem enginn óskaði eftir, en mátti kannski búast við. Við erum heppin að búa ekki við herskyldu, sem ég ætla þó hvorki að mæla með né andmæla. Við erum öll friðarsinnar, og það er tengdasonur minn svo sannarlega líka. Nú reynir á litlu fjölskylduna í bláa húsinu, og ég trúi því að allt fari vel. Fáir þekkja dóttlu mína eins vel og ég, og ég veit hversu hún er megnug. Hún trúir oft reyndar ekki á styrk sinn, en að efast er bara gott. Þá anar maður ekki út í einhverja vitleysu. Dóttlan mín hefur alltaf barist fyrir sínu, og byrjaði hún á að berjast fyrir lífi sínu nýfædd, mikill og armur fyrirburi, en hún hafði það af. Bjartsýni er henni í blóð borin, og mikil fjarvera mín á fyrstu árum hennar fann hún alltaf eitthvað sem var gott. Þegar pabbi hennar (sem ekki kann á eldavél!) brasaði ofan í þau mat var það besti matur sem hún hafði smakkað og var alvöru! Stærðfræðin vafðist fyrir dömunni, en seiglan skilaði árangri. Allt sem hún ætlaði sér gekk upp með vinnu og trúfesti. Þegar dóttlan kynnti Bert til sögunnar leist mér ekki á í fyrstu, en ég treysti innsæi hennar og það hefur svo sannarlega skilað sér. Núna stendur hún/þau frammi fyrir stóru og ekki ásjálegu verkefni og auðvitað er kvíði í mannskapnum. Annað væri óeðlilegt. Dóttlan þarf að læra margt á skömmum tíma og standa sína plikt á sama tíma og Bert þarf að ljúka verkefni fjærri þeim sem hann elskar. Þetta kostar mikla fórn hvernig sem á það er litið, en ég hef trú: Trú á að þau standi sem fjölskylda saman að þessu verkefni með góðra manna hjálp, trú á dóttlu minni, trú á Bert og öllu því góða tengslaneti sem umvefja þau. Hjartað mitt blæðir þó. Mér finnst þetta ekki réttlátt gagnvart litlu snúðunum mínum, en það segir heldur ekkert um það í bókinni að lífið sé réttlátt. Ég bara vil að heimurinn sé góður, og ef ég gæti orðið kóngur í einn dag veit ég nákvæmlega hvernig ég myndi veifa sprotanum. Aðventan er tími okkar mæðgna gjarnan til tára, og ekki bætti þetta úr. En nú linnir "meyrheitunum" því bráðum hækkar sól og þá styttist í að Ameríkufarar komi í ömmu - og afahús. Bert er góður drengur og gegnheill, og ég veit að hann leggur allt í það sem hann er kallaður til. Komi hann heill til baka með guðsblessun. Þar til næst óska ég öllum gleðilegrar jólahátíðar með frið og gleði á öllum bæjum.

laugardagur, 12. desember 2009

Kjaftaskur/ lesist kjaft-askur!

Hvað gengur mönnum til að láta allt vaða, hversu ósmekklegt og ljótt það er, og það fyrir alþjóð? Halda þeir að þetta sé sniðugt og klókt og þeir svo fjandi klárir? Ef svo er: svei þeim. Ruglaðist inn á Ínn í gærkvöldi og það datt yfir mig... að ég held risaturn. Hélt á símtólinu en vissi ekki í hvern ég átti að hringja til að kvarta hástöfum. Bestemann telur að ekki sé borgandi símtal á svona gaura og ég trúði honum þegar mér rann reiðin. Reiðin í mér er ekki góð, bílífjúmí! ---Les oft blogg hinna og þessa og kommentin eru oft æði skrautleg, að ég tali nú ekki um dónaleg. Hvað gengur þessu fólki til? Mitt blogg er svo vinavætt og sjálfhverft að ég yrði fljót að fjúka ef einhver dirfðist að segja eitthvað ljótt. Ég lít á þennan miðil sem skemmtun frekar en vettvang til að senda fúkyrði út og suður. Aftur að Ínn, á Ingvi Hrafn þessa stöð einn og sér, er hann einráður og getur sagt hvað sem er? Tek það fram að ég er "hvorki né" með stjórnmálamönnum dagsins, en mér líkar ekki svona fúkyrði sem Ingvi Hrafn sendi blákalt í loftið svo rétt rifaði í augun. Áður en ég skrifa mig bálreiða bið ég alla góða vætti að vernda sjónvarpsstjórann, og sendi góðar yfir og allt um kring. --- Ps. Á jákvæðari nótum: átti frí í dag og gerði fullt, fór líka á Frelsinu og hitti fólk. Tónleikahrina í næstu viku og jólasveinarnir okkar koma líka í lítið blátt hús. Þeir bræður fengu "blækur" og hlaup frá Stekkjastaur. Svei mér þá, ég held að sveinki hafi keypt þetta hér á Höfn! Legg ekki meira á ykkur þar til næst.

þriðjudagur, 8. desember 2009

Á hvolfi?

Já, ég á það til að spila á hvolfi því þá horfi ég stundum í bláan himinn. Núna er hann hinsvegar svo asskoti svartur að mér líst ekki á þrátt fyrir jólaljósin. Okkur fer að vaxa sundfit með áframhaldandi veðurfari, og næst verður það ekki skutla sem keypt verður heldur kanói! Vaknaði við fuglasöng í morgun og illgresið vex sem aldrei fyrr. Þetta er jafn óeðlilegt og stjórnmálin í voru landi og hlýtur að vita á gos. Allavega segja þeir gömlu það, og mér hættir til að trúa þeim. ---Aðventan hér er lík og annarsstaðar á landinu með öllu tilheyrandi, og á þeim tíma er ég meyr í takt við dóttluna, en það rjátlast nú af okkur þegar jólin ganga í garð, en taka tvö hjá okkur hefst svo um áramótin. --- Skrítnar skrúfur við mæðgur.--- Það er líka margt skrítið í kýrhausnum ef vel er að gáð og færni er til, en hver nennir að spá í það svosem. En er ekki svolítið "kýrhauslegt" í litlu samfélagi að það skuli vera 9 tónleikar í desember, lestur úr nýjum bókum, stórhátíð hjá Sindra og stórmarkaðir um hverja helgi? Þá er örugglega ekki allt upp talið, en alls staðar er mannfjöldi. Skyldi það vera vegna þess að við Hornfirðingar erum ekki alveg á þjóðvegi 1, og höfum ekki td. Akureyri upp á að hlaupa og verðum að vera sjálfum okkur nóg? Góð pæling frá einni á hvolfi þar til næst.