sunnudagur, 29. mars 2009

ég sem ætlaði... og ætla!

Ég er ekki að standa mig í skrifunum, en ég ætla ekki að gefast upp. Mér finnst gott eftir fjögur og stundum fimm kvöld í viku með kóra að vinda ofan af mér og fara rúnt í tölvunni. Dáist að þeim sem skrifa þétt og er dugleg að fylgjast með. Síðasta vika einkenndist af söng og meiri söng, kennslu og að læra músík. Mér telst til að ég sé með um 60 lög í vinnslu, og verður páskafríið því kærkomið, ætla að nota það vel, en líka til að slugsa. Eftir það hellist allt yfir og þá er betra að kunna skil á vinnunni.--- Hef ekki komist hjá að heyra fréttir vikunnar og eftir þeim að dæma eru allir flokkar að vinna, og það stórt. Nú á semsagt að fara að taka á málum! Veit ekki hvað þetta blessaða fólk hefur verið að gera upp á síðkastið, en mér finnst þetta allt saman minna á lélegan farsa þar sem varla er hægt að glotta út í annað. Farnist þeim vel, en ég er munaðarlaus, pólitískt séð. Kannski kemur þetta allt með hækkandi sól. Sólin er þó farin að hækka sig og farfuglarnir sungu fallega fyrir hretið sem nú ríður yfir. Sólin segir mér að ég þurfi að fara að taka til hendinni innanhúss, tuskur og svoleiðis. Kannski geri ég það í páskafríinu, eða alla vega fyrir "ammlið" mitt, og þá verðið þið að syngja svo hátt að það nái í góða bæinn minn. Þar til næst..í guðs friði.

miðvikudagur, 18. mars 2009

Af gefnu tilefni...

Las bloggfærslu hjá einni af "útrásardömunum" í Ameríku á dögunum. Sléttubúinn Stella hefur alltaf eitthvað að segja og rann upp fyrir mér við lesturinn mikið "ljós", eða þannig. Dóttla mín bætti svo um betur, og því er þessi upprifjun. Í mínum kolli er hún bráðfyndin, en það er misjafn smekkur mannanna, ég tala nú ekki um þegar klósett og alls kyns óhöpp eru annars vegar. Fyrir nokkrum árum fór ég í tónleikaferðir til Ítalíu með sitt hvorum kórnum. Þekkti lítið til Reykjavíkur kórsins en small afar vel í hópnn frá fyrsta degi. Við héldum t.d. tónleika í Markúsarkirkjunni í Feneyjum og var það mikið "upplifelsi", en illa gekk mér að kveikja á orgelinu sem var nota bene í mikilli hæð frá gólfi guðsmannanna. Með lagni tókst það í tíma og allt fór vel. Á þeysireið milli tónleikastaða þurfti oft að stoppa á vegasjoppum og leyfa fólki að fara á klósett. Þar lærði ég ýmislegt. Þetta var ekki auðvelt því ég er afar viðbrigðin og ekki frá á fæti. Þegar ég var búin að læra að skrúfa frá krana á einum stað var það allt öðruvísi á þeim næsta. Þegar ég var búin að læra á handþurrkurnar birtust alltaf nýjar og nýjar græjur á þeim næsta. Verst voru sjálfsturtandi klósettin, þá gjörsamlega þyrlaðist ég upp af dollunni með tilheyrandi hljóðum. ---Leið svo þessi ferð, en ég beið á flugvellinum eftir næsta kór og þóttist þá fær um allt, og voru klósett og orgel þar meðtalin. Önnur yfirreið hófst og nú gat ég miðlað af reynslunni. Byrjum á Markúsarkirkjunni. Þar kunni ég sko á orgelið. Nú brá svo við að kórinn stóð á gólfi guðsmannanna 40 metrum neðar, og ekki einu sinni í sjónlínu. Lítill hátalari var í orgelinu þar sem ég heyrði óm, en hafði hjálparmann sem sá niður og benti mér til og frá svo að allt gengi upp. Í þessari seinni yfirreið gekk mér akkúrat ekkert að kenna fólkinu á téð klósett og vaska, því aldrei var þetta eins. Mér varð allri lokið og tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Á einum stað stuttu fyrir tónleika spurði ég "vörðinn" hvar klósettið væri: Konan hans kom og leiddi mig upp og niður margar margar tröppur og endaði úti á götu. Þar gengum við góðan spöl og ég skyldi konuna alls ekki og var farin að efast um tilurð ferðarinnar. Loksins komum við á slökkvistöðina og mér bent á klósett. Þegar inn var komið blasti við mér hola í gólfið.....Kommmon, ég þekki holur, en ég var í síðum konsertkjól með mínar hækjur og stóð bara þarna eins og þvara. Beið smástund, kom síðan út, brosti breitt og þakkaði fyrir mig.--- Ópissuð --Ég er ekki viss um að ég myndi þiggja konsertferð til staða þar sem klósettmenningin er á erfiðara plani en þessi á Ítalíu. Svona er ég mikil "dama" eða kannski bara gunga.---Lífið á Hólabrautinni gengur sinn vanagang við leik og störf, aðallega þó störf. Þar til næst bið ég ykkur að ruglast ekki á smokkasjálfsala og lofthandþurrku á almenningssalernum!

miðvikudagur, 11. mars 2009

Lygalaupur?

Ég kann ekki að ljúga, og ég kann ekki við þegar aðrir ljúga. Það er búið að ljúga svo oft upp á síðkastið að mér eiginlega blöskrar, og menn hafa virkilega haldið að það kæmist ekki upp um þá. Þegar ég var að alast upp var mér sagt að "upp komast svik um síðir", og betra væri að segja alltaf satt hversu erfitt sem það væri. Í húsinu sem ég ólst upp í bjó kona sem var voða leiðinleg að mati okkar krakkana. Hún hafði allt á hornum sér. Einu sinni var í heimsókn hjá henni frú sem átti hvíta háhælaða skó. --Þeir voru skildir eftir á dyramottunni.-- Ég og önnur til sáum okkar sæng uppreidda, tókum annan skóinn og grófum hann í sandkassanum. Héldum svo okkar striki við að leika, en blístruðum hástöfum af spenningi. Allt fór á hvolf og við kallaðar á teppið hjá mömmu. Við harðneituðum auðvitað, en ég öllu minna en vinkonan, og ég blístraði af enn meiri ákafa. (nýbúin að læra þá iðju) Mömmu datt það snjallræði í hug að bjóða okkur túkall ef við vildum vera svo vænar að hjálpa til við leitina að skónum. Í stuttu máli fann ég skóinn strax, augun og blístrið kom upp um mig. Það sem meira var að mamma stóð við orð sín með túkallinn. Hún hafði heitið fundarlaunum, og loforð er loforð. Svona gerast kaupin á eyrinni í dag víst ekki. Menn halda áfram að ljúga og fá marga túkalla fyrir. En ég segi og skrifa: þetta borgar sig ekki. ---Eins og lesendur vita sem kíkja hér inn fórum við bestimann í leikhús þjóðarinnar um miðjan febrúar. Eftir að við komum heim fundum við okkur knúin til að þakka fyrir yndislega kvöldstund, og það gerðum við í smá bréfkorni til aðstandenda sýningarinnar. Á dögunum fengum við svo símtal frá einum leikaranna þar sem hann þakkaði fyrir þakkarbréfið! Þá varð ég hissa, en þótti vitanlega vænt um símtalið. Skyldi vera að við séum frekar reiðubúin til að kvarta og rakka niður frekar en að þakka fyrir það sem vel er gert? Það hlýtur bara að vera.--- Síðan síðast hefur tíminn flogið sem endranær. Nú er vorið í skólanum niðurneglt, lagalisti kóranna tilbúinn, og undirleikur frúarinnar að verða nokkuð ljós. Nokkrir langir laugardagar eru eftir og tónleikahrinan byrjar í apríl. Rósirnar í skálanum klipptar og eru farnar að segja halló. Bíð bara eftir þokkalegum degi til að þrífa allt hátt og lágt og bjóða þær velkomnar til leiks enn og aftur. Mig langar svo að endingu láta ykkur vita af því að ég er bráðum að fara í lítið blátt hús! Pössum okkur svo á lygalaupunum. Þar til næst.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Og lífið gengur sinn gang.

Stórbloggarinn ég er sest niður og veit varla hvað á að skrifa. Ekki get ég endalaust talað um vinnuna mína, en það er nóg af henni þessa dagana. Veit það eitt að ég vildi ekki stunda mína vinnu með stórt heimili og þakka Guði fyrir stuttar vegalengdir. Er að átta mig á að í raun hef ég ekkert að segja nema eitthvað sem tengist tónlist. Nenni ekki að tjá mig um landsmálin -- skil þau ekki og nenni ekki að horfa á tíufréttir eftir góðar söngæfingar. Finnst mér þá dagurinn jafnvel ónýtur ef ég læt glepjast. Svona sting ég hausnum í sandinn og held áfram á mínum hraða. Tala við dóttluna og hennar snúða áður en ég skríð í rúmið og er það best. Ég get næstum snert þau í litla bláa húsinu í gegnum skybið, og reglulega sýni ég þeim útskriftina af farseðlum okkar bestamanns vestur! Þannig tel ég niður. Tíminn þangað til líður hratt, svo mikið veit ég.--- Um næstu helgi verður hin árlega norðurljósa-blús-hátíð haldin á Höfn og kennir þar margra grasa. Mugison feðgar spila og elda ofan í þá sem vilja og það verður blúsað um allan bæ af allskyns blússpekúlöntum. Ég er ekki frá því að blúsinn sitji enn í eyrunum á mér síðan í fyrra, og læt það kannski bara duga. Varla nenni ég á tónleika með tappa í eyrunum.-- Síðan síðast hefur lífið semsagt gengið sinn vanagang með gleði og sorg og tek ég þátt í því öllu. Þegar gleði ríkir í litla bænum mínum taka allir þátt í því og einnig þegar sorgin drepur á dyr. Það er það sem gerir lítið samfélag að góðu samfélagi. Þar til næst bið ég ykkur að fara varlega.