Ameríka tók vel á móti okkur bestamann, en mikið helv.... var erfitt að kveðja. Kveðjustundir eiga að vera bannaðar með lögum. Fólk hér og þar kepptist við að spyrja hvað okkur langaði nú til að gera, en svarið var alltaf það sama: vera með fólkinu mínu, og það gerðum við. Tókum einfaldlega þátt í lífinu í litla bláa húsinu þar sem hjartarými er nóg. Get varla skrifað hvað tíminn var yndislegur án þess að fá þennan klump í hálsinn, svo þið sem ráfið hingað inn verðið bara að gera ykkur það í hugarlund. Eitt get ég þó sagt og skrifað með sann að öllum líður vel og sjaldan hefur hún dóttla mín verið eins falleg og nú, að ég tali nú ekki um snúðana mína. Bert er góður og gegnheilt fallegur maður og þar hafið þið það.--- Eins og ég lofaði í síðasta pistli kom ég með sól og hlýindi með mér heim, og vona ég að sem flestir landsmenn hafi fundið fyrir því. Á þeirri viku sem liðin er hefur margt gerst: Spilað við jarðarför, spilað tónleika, flogið til Reykjavíkur að morgni og keyrt heim samdægurs, brotið heilann um hversu lengi hnén mín endast, þvegið þvott, dúllað við rósir, skemmt mér á Humarhátíð og fengið góða gesti. Nokkuð vel af sér vikið að mínu mati. Inn á milli reyni ég svo að læra á fínu græjurnar sem við fjárfestum í í henni Ameríku. Viðurkenni hér með að ég er hálfgerður klaufi. Þóttist góð í gær við að hlaða myndum inn á fínu tölvuna, en við nánari skoðun var ég búin að setja þrisvar inn sömu myndir! Þá fór nú í verra við að eyða einhverjum slatta, ekki kann ég ennþá að eyða öllu í einu svo ég dúllaði mér í langan tíma við að eyða einni og einni mynd, og er alls ekki búin! Er mér við-bjargandi? Þarf meiri kunnáttu og sennilega kennslu hjá einhverjum sem er þolinmóðari en ég. --- Hér til Hafnar kom nýtt skip í flotann í síðustu viku. Annað skipið í sumar. Í tilefni þess var hér mikil hátíð sem nánast tengdist við Humarhátíðina. Um borð í flotanum hjá fyrirtækinu vinna um hundrað menn, fyrir nú utan alla þá sem vinna í landi. Ekki sást neitt um þetta í fréttum, né heldur um allt það jákvæða sem er að gerast í bæjarfélaginu. Svo var haldin Humarhátíð sem var mjög vel sótt og ótrúlega margt í boði fyrir gesti og gangandi. Einhverjar ryskingar voru eina nóttina og það rataði svo sannarlega í fréttirnar. Ég get ekki kyngt því að neikvæðar fréttir selji en það sem jákvætt er sé leiðinlegt. Um allt land er margt jákvætt að gerast, en fréttamenn nánast hundsa það. Fari það og veri. Á þessum nótum þakka ég pent fyrir mig og eftirlæt öðrum um leiðinlegheitin því ég ætla að einblína á það jákvæða. ----- Ps. Svanfríður mín, láttu mömmu gömlu ekki vera duglegri en þú í bloggheimum! Þar til næst.