föstudagur, 22. nóvember 2013

Að kveldi dag.....

Mér finnst þessi mynd af dóttlu minni algjör draumur, hvílík litadýrð í öllu, plús brosinu hennar. Hún nefnilega var "doldið" sein að starta sér í gang. Hékk einhvernveginn út á hlið og brosti, en ég tróð koddum allt um kring og tók myndir. Natti minn, litli snúður er mjög líkur mömmu sinni og það er vel hægt að sjá fjölskyldu og ættarsvip úr öllum áttum. Einhverntíman skrifaði ég hér inn á síðuna upphaf míns lífs og er það ekkert drama, en dapurlegt eigi að síður. Ég er afskaplega fegin og glöð yfir að hafa eignast að endingu foreldra og systkini þrátt fyrir að blóð okkar sé ekki samkvæmt dna. Það er nefnilega svo merkilegt að manni þarf ekki að líka blóðið, og ekki er öllum í mun að leita upprunans til að kynnast  því. Ég hef haft allan þann tíma sem ég hef viljað til að kynnast mínu blóðfólki, en mömmu og pabba fólk er mitt fólk. Það er því gaman í raun að sjá að ég og dóttlan mín erum ekki bara líkar hvor annarri, heldur nánast öllum blóð-ættflokknum. Þó eru þeir til sem hafa talið mig líka mömmu í tali og töktum!  Hver dregur dám af sínum. -- Nú er aðventan á næsta leiti og kökkurinn fer að segja til sín. Þið munið...hann hverfur þegar jólin ganga í garð. Þangað til skælum við dóttla mín sennilega af og til til að hreinsa loftið í kringum okkur.  ---Við bestimann héldum, og vorum alveg ákveðin í að til Rvík. færum við ekki fyrr en í mars, en plön breytast. Það á að skoða brjóstið mitt vel og vendilega aftur til að segja okkur að Rvík. sé ekki á dagskrá fyrr en í mars!  Krossum alla fingur og tær, en fyrst við þurfum að fara suður ætla ég að kaupa enn einn feitan og flottann sveinka í safnið þar til næst.

föstudagur, 8. nóvember 2013

Öppdeit...


Það er sama og venjulega, skrifa ekki eins og ég ætla mér. Kannski vegna þess að ég þarf að vera í ró og næði og spá og "spögúlera" eins og gengur og gerist á ritvellinum. Var að ljúka við lestur Skuggasunds eftir Arnald og dáist að sagnameistaranum,  því sá hlýtur að hafa þurft að spá. Það eru svoooo margar bækur sem mig langar að lesa og ætla að lesa því bráðum koma blessuð jólin. Nú eru liðin  tæp 2 ár síðan ég kláraði  krabbameinsmeðferðina og skil ég varla hvernig þetta tókst alltsaman. Hef verið í strangri gæslu síðan, og hef ég/við aldrei þurft að kvarta undan okkar ágæta heilbrigðiskerfi án þess að ég fari  nánar út í rekstur þess og forgangsröðun. Þið vitið alveg hvað ég á við. Málið er líka að við heyrum oftar um það í fjölmiðlum það sem miður fer, en alltof sjaldan góðu hliðarnar.  Við eigum hins vegar alveg úrvals læknateymi sem vill sínum sjúklingum vel. Eins hef ég oft undrað mig á umræðunni um allan kostnaðinn sem konur eins og ég þurfum að punga út. Þekki það ekki á eigin skinni. Áður en ég fer út á hálari brautir þá hefur mér verið sinnt af einstöku teymi. Um daginn fór að ágerast hnútur í mínu eigin brjósti og fór þá virkilega að fara um mig, mig hryllti við hugsuninni einni saman um annan eins skammt og fyrir tveimur árum. Óþarfa svartsýni kannski, en var send í góða rannsókn til að útiloka óhroðann. Kom vel út en sálin hvekktist allnokkuð. Búin þó að ná vopnum mínum og hugsa enn og aftur fallega til allra sem halda í höndina á mér. Myndirnar sem fylgja með þessum  skrifum eru teknar síðla sumars á Sólheimum í Grímsnesi. Þar dvöldum við bestimann í viku á yndislegum stað, Bergmáli, sem rekið er af algjörlega yndislegu hugsjónarfólki. Þarna vourm við um 30 manns, öll með einhverja sögu en nutum þess að kynnast hvert öðru í dásamlegu umhverfi. Við bestimann fórum á stúfana og skoðuðum staðinn og allt það sem hann býður uppá. Vinnustofur og slíkt. Þar mættum við fullorðnum manni sem tók okkur tali og var hinn mælskasti. Bestimann spurði sem sannur Íslendingur hverra manna og allt það..... Árni heitir hann og sagði okkur deili á sér, og nefndi þar móður sína sem bar sérstakt nafn. Hann hafði ekki hitt neinn sem hafði þekkt hana, en spurði mig hvort ég hefði kannski kannast við hana. Ég átti ekki til orð, ég bjó á hæðinni fyrir ofan fjölskyldu hans og kom þar mjög oft. Árni var hins vegar ekki þar vegna sinnar fötlunar. Þið hefðuð átt að sjá andlitið á honum þegar þetta uppgötvaðist, hann varð eins og fallegasta sól í heimi. Ég heimsótti hann svo á heimili hans og við spiluðum og sungum. Þetta var dásamlegt og staðurinn Sólheimar eru eitthvað undur sem erfitt er að skilgreina. ---Svo finnst mér steinninn a tarna eitthvað svo yndislegur og auðveldur. ---Lífið semsagt gengur sinn vanagang við vinnu og önnur störf. Cd upptaka að verða búin, kórarnir starfa af miklum móð og styttist í jólalög hjá tónskólanemendum. Hlakka til að taka upp sveinkana mína...einn bættist við í síðustu Rvík. för! Með það í farteskinu sendi ég ljúfar yfir þar til næst.