miðvikudagur, 24. júní 2009
Nokkuð góð!
Þessi dagur hefur varla verið mönnum bjóðandi veðurfarslega séð. Nú er klukkan 10 að kvöldi og hitinn er tæp 30 stig. Ég lofa ykkur því að koma með eitthvað af þessum stigum og sól í húfunni minni á laugardaginn. Lærdómurinn gengur bara þokkalega takk fyrir, og er ég búin að læra að setja myndir af nýju myndavélinni inn á nýja lappann! Þrátt fyrir þessa nýtilkomu nýjungagirni mína ætla ég ekki að skipta bestamanni út. Tíminn líður trúðu mér, og verður erfitt að slíta sig frá fólkinu sínu, en allt tekur enda og því verðum við að kyngja. Hittumst heil á landinu þar sem moskítóflugur þrífast ekki. Þar til næst.
laugardagur, 20. júní 2009
America´s calling!
Héðan er sko allt gott að frétta, og ég er að æfa mig á nýja lappanum mínum! Er að verða svo helv... tæknivædd, og hvað gerir svo fólkið mitt? Þau hlæja sig máttlaus yfir tregðu minni í lærdómnum. Ég á nefnilega líka flotta myndavél sem þarf að læra á! Sá hlær best sem síðast hlær. Elskurnar mínar, þið sem kíkið hér inn kommentið sem aldrei fyrr, og segið mér að ég sé góður tækninemandi. Annað er í góðu lagi og ég elska snúðana mína. Þar til næst úr 30 stiga hita.
miðvikudagur, 3. júní 2009
Það er hugur í mér.
Takk fyrir innlitið í síðasta pistli. Þótt ég sé að skrifa á þessa síðu fyrir mig þá er alltaf gaman að fá heimsóknir undir nafni. Fyrir viku lauk ég vetrinum endanlega með tónleikum Gleðigjafa á Egilsstöðum. Yfir 30 söngmenn í eldri kantinum sem eru hetjur í mínum huga, það er ekki vællinn á þeim bænum þótt mikið sé að gera og dagurinn langur. Ofan í kaupið syngja þau eins og englar, og er ótrúlega fallegur hljómur í þeim þrátt fyrir aldurinn. Sá yngsti er 63 ára en sá elsti að nálgast nírætt. Ég ætla sko rétt að vona að ég hafi þennan kraft og þessa elju þegar ég verð stór, því mig grunar að söngstjórinn hafi verið sá eini í hópnum sem fór ekki úr náttbuxunum daginn eftir, og það á besta aldri! --- Gott að vera stundum í þeim röndóttu. ---- Eftir þetta vetrarbrölt var komið að því að ná í vorið, og það sótti ég í Hveragerði, sem sé hana Svanfríði mína. Í leiðinni kippti ég nokkrum fallegum plöntum með í rósaskálann. Við mæðgur áttum yndislegan keyrsludag til Hafnar, og það bara á 90! Þetta heitir sparnaðarakstur á alla vegu. Engin sekt og eyðslan á nokkuð stórum bíl 6.2 lítrar. Ég var alsæl en bestimann og restin af familíunni hló og hélt að við mæðgur hefðum farið norður fyrir. Hvað þetta lið getur verið vitlaust! 3 dagar með dótturinni liðu allt of hratt auðvitað, en nú var enginn grátur því við hittumst aftur eftir viku. Ég breiddi sængina yfir hana á kvöldin og bað fallega um að allar góðar vættir væru með henni og litlu fjölskyldunni í bláa húsinu. Ég finn að svo verður. Héðan er því allt gott og veðrið ótrúlegt. Bærinn er fullur af fólki og allir hafa nóg að gera. Rósaskáli frúarinnar er flottur og garðurinn vel gróinn. Ég snudda hér og þar og hjálpa bestamanni við hans garðyrkjustörf því allt verður að vera fínt áður en við förum vestur um haf. Þá fljúga húsflugurnar mínar inn og við segjum bless þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)