fimmtudagur, 30. apríl 2009

Ha ha!

Ég er dásamleg, nú ýtti ég á publish post rétt eina ferðina enn. Ætlaði að að ýta á save now! Svo nú ýti ég á réttan takka. Save now. Búið og gert. En það er semsagt gott að búa í Hornafirði. Við besimann vorum að skríða heim úr pottaferð undan jökli, og náttúran þar er undurfögur. Hjónin í Hoffelli hafa gert flotta aðstöðu og eru með nokkra potta sem eru með vatni úr iðrum jarðar. Pottarnir eru undir fallegu klettabelti og eru kerti út um allt. Ekkert heyrist nema fuglasöngur og hjartaslögin í manni sjálfum, svo nær náttúrunni er varla hægt að komast. Nýja sundlaugin sem vígð var í fyrri viku hefur allt sem hver getur óskað sér, en þessa algjöru kyrrð er auðvitað ekki að hafa inni í miðjum bæ. Það er því ekki að ástæðulausu að ferðafólk hvaðanæva sækist eftir kyrrðinni undir jökli. Þrátt fyrir kyrrð og ró í bænum mínum er mikið um að vera og margt fólk á ferli. Menningin blómstrar og hver hefur nóg með sitt. Semsagt, gott mannlíf. Eftir lestur síðasta bloggs dóttur minnar langar mig að koma með smá mömmuvinkil. Hjartað mitt er stórt af ást og aðdáun. Ást á því hversu heil hún hefur alltaf verið, ást á því hversu óumdeilanlega hún er staðföst í því sem hún tekur sér fyrir hendur. ( Hún kann að mótmæla, en mömmuvinkillinn veit betur!) Hverjum auðvitað þykir sinn fugl fagur og allt það, en margt af því sem dóttla mín hefur gert hefði ég sennilega ekki haft kjark til sjálf. Bara það eitt að flytja í aðra heimsálfu með lítinn strák í poka framan á sér til að finna lífið er ekki skref sem allir þora að taka. Þetta á náttúrulega við um fleiri, en þetta er það sem að mér snýr. Þar tók sú stutta stærsta stærðfræðipróf lífsins og er kominn upp í einkunn 8! Hún nær tíunni seinna. (er í því að prófa ungmenni þessa dagana) Til viðbótar við litla strákinn í pokanum er kominn annar, ekki síðri. Þeir eiga góða foreldra sem örva þá og elska, og þeir eiga ömmu og afa sem fara mjög fljótlega til Ameríku. Áður en af þeirri ferð verður á ég eftir próf og skólalok, fjórar tónleikaferðir, og nokkra tónleika í heimabyggð. Tíminn verður því ekki lengi að líða. Á milli mjalta og messu förum við bestimann svo í jöklapottana og slökum á. Þar til næst kæru vinir.

Undir jökli.

Ég segi eins og maðurinn: Það er gott að búa í Hornafirði, eða sagði hann kannski í Kópavogi?

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Dugleg ég.

Bara alltaf í blogginu? Hér á bæ er ró og friður, allar þyrlur farnar en krían leggur til sinn skerf. Sá skerfur er þó öllu ómþýðari og segir manni að sumarið sé handan hornsins. Annað kvöld kemur það svo, því karlakórinn Jökull heldur þá vortónleika sína og syngur inn sumarið. Krossið putta fyrir frúna, en hún er að spila inn 34. sumarið með þeim. Gleðilegt sumar allir sem kíkið hér inn og takk fyrir veturinn. Þar til næst með bros á vor.

sunnudagur, 19. apríl 2009

Ja hérna

Mikið hvað menn geta verið vitlausir. Halda þeir að hægt sé að sigla að bryggju á litlum stað þar sem höfnin er lífæð bæjarbúa og láta sem ekkert sé? Við höfnina hér og á fleiri smærri stöðum þekkja allir bátana við bryggjurnar. Svona kújónar þurfa því að læra meira til að ekki komist upp um strákinn Tuma. Bjánabrækur og glæpamenn eru hvergi velkomnir. ---Annars er lífið gott, en hefur verið nokkuð erilsamt og sigli ég hraðbyr inn í aðra samskonar viku. Próf og tónleikar einkenna hana ásamt sumarkomunni, og vonandi verða allar þessar þyrlur farnar á morgun því þær trufla fuglasönginn. Já, vitleysan ríður ekki við einteyming. Þar til næst.

miðvikudagur, 15. apríl 2009

hún er falleg og heitir Dell!

Mikið er ég glöð, hreint eins og lítill krakki á jólunum. Þrátt fyrir efnahagshrun landans fjárfestum við bestimann í nýrri tölvu. Hún var sett upp í kvöld og er svo hraðvirk að ég hef varla undan. Munurinn er eins og dagur og nótt. Dóttir mín var svo falleg og skýr á skybinu að mér fannst eins og gæti snert hana. Nú er bara að skrúfa af annan fótlegginn og borga dýrðina með brosi á vör. Ég skemmti mér konunglega á dögunum þegar Svanfríður setti bestimann inn á fésið...tölvugúrúinn a tarna. Nú er bara að fylgjast með hversu duglegur hann verður að "uppdeita" vinina! Ég kíkti yfir öxlina á mínum manni og er eiginlega hálf utangátta með þetta allt saman og finnst bloggið miklu skemmtilegri tölvu-samskiptamáti. Held ennþá að fésið sé vinsæl bóla sem hjaðnar þegar annað og betra býðst, en hvað veit ég?. Ég veit bara að ég á nýja flotta tölvu sem heitir Dell, og er að skrifa pistill númer 102! Lítið var en lokið er...þar til næst.

fimmtudagur, 9. apríl 2009

Þegar kötturinn sefur fara mýsnar á stjá.

Ég vil þakka öllum hlýjar kveðjur mér til handa á afmælisdaginn. Mér þótti vænt um þær. Ég fékk pakka og karlakórinn birtist hér í öllu sínu veldi og söng sig inn í hús, og þrátt fyrir 34 ár með þeim koma þeir mér enn á óvart.-- Bara flottir.-- Afmælispakki nokkuð stór kom frá Ástralíu og er ég enn að hlæja að innihaldi hans. Úr honum ultu 29 loðin pennaveski með löngum eyrum og fallegum augum. Eitthvað voða mjúkt og fallegt.---29, segi og skrifa. Eldhúsborðið varð fullt. Gefandinn fór á markað og keypti upp lagerinn, en Kínverjinn sem rekur markaðinn taldi frúna brjálaða. Þetta er sko húmor í lagi. Þann 16. apríl mæti ég svo með dýrðina á leikskólann, en þaðan útskrifast 24 börn í vor. Hvert um sig fær mjúkt pennaveski frá OZ til að fara með í 1. bekk. Margt annað fallegt kom úr kassanum, en ekkert sem toppaði veskin. Það sem af er páskafríi hefur liðið ljúft, og ber hæst að rósaskálinn er tilbúinn til notkunar. Vessgú, allir boðnir í kaffi! Hef sofið vel og lengi, lesið, eldað góðan mat og spilað töluvert á píanóið. Lífið er ljúft. Í gær þá endanlega gáfumst við bestimann upp á þessari tölvu. Hún er orðin gömul og frýs reglulega. Í gær fraus hún 7 sinnum, og þegar við tölum við dótturina á skybinu þá frýs gjarnan og Svanfríður mín verður ósköp eitthvað teygð og frosin. Það er of mikið af því góða, og þykist ég góð ef þessi pistill skilar sér. Ný tölva var keypt í gær, en hún verður ekki komin í gagnið fyrr en eftir páska. Vonandi get ég lært á græjuna.-- Nú eru margir út og suður og enginn að lesa blogg, þessvegna fannst mér titillinn svo vel viðeigandi.-- Farið varlega hvar sem þið eruð og njótið páskanna. Þar til næst.

föstudagur, 3. apríl 2009

Ég er hrútur!

Sem hrútur ligg ég ekki á þeirri staðreynd að ég á afmæli 4. apríl. Til hamingju ég sjálf! Ég er 58 ára og er stolt af hverju ári og hverju gráu hári. (sem ég fel þó undir strípum) Að vera fæddur í hrútsmerkinu er bara gott, en hann er ekki allra og er nokkuð frekur. Fer þó betur með frekjuna eftir sem árin verða fleiri og umburðarlyndið verður meira. Þó er ljóður á þessu merki ef marka má alfræðibók um þetta annars ágæta stjörnumerki. Þar stendur orðrétt: "það er einkennandi fyrir konur í hrútsmerkinu að hafa eymsli í hnjáskeljum" Í stuttu máli hlýtur þetta að vera sannleikanum samkvæmt, því báðar mínar eru farnar. Segið svo að ekki megi trúa á alfræðisannleikann! Það er gott að eiga afmæli og vera sáttur við allt og alla. Ég á góðan bestamann, góða dóttur og tengdason og 2 yndislega ömmustráka. Þessi djásn mín sjáum við bestimann innan tíðar. En nú fer ég fram á að þið þarna úti syngið fyrir mig afmælissönginn það hátt að hann heyrist til Hornafjarðar. Þar til næst.