laugardagur, 21. janúar 2012

smá öppdeit!

Svona lítur frúin út til höfuðsins í þessum skrifuðu orðum. Veit ekki enn hvort mér líkar þetta marglita hár eður ei. Verð því að sætta mig við fyndið hár, hef ekkert val þar til næst.

föstudagur, 13. janúar 2012

Að kveldi dags



Það er gaman að grufla í gömlum myndum, það eru allir eitthvað svo gasalega ungir. Óskiljanlegt. Á þeirri efri var bestimann meðlimur, og þeir voru sko í uniformi og þóttu þrusugóðir. Spiluðu á útihátíðum, og allt. Pan kvintett. Ég er á þeirri neðri ásamt hljómsveitinni Sunnan sjö og Guðlaug! Báðar þessar hljómsveitir voru húsbönd á sínum tíma hér, en í þá daga þótti sjálfsagt og nauðsynlegt að fara á böll. Var búin að syngja töluvert áður en ég flutti austur og fannst mér mikill menningarbragur á ballmenningunni hér. Ég held að frá því að ég flutti hingað hafi alltaf verið starfandi hljómsveitir á staðnum. Lengi lifi Hornafjörður! Af sjálfri mér í dagsins önn er bara allt gott, og hárið vex en er ennþá fyndið. Ég hef aldrei vitað af sveipum hér og þar, og liturinn er eitthvað svo út í bláinn. Lúxusvandamál, og frómt frá sagt held ég að eftirstöðvar hremminga minna séu léttvægar miðað við alvarleika málsins. Ég er farin að kenna og var mér tekið með miklum innileik af mínu fólki. Einn mikill og góður nemandi minn sem er spar á faðmlögin svona yfirleitt gaf mér eitt risa stórt, og lagði höfuð sitt að mér. Þá fannst mér ég vera forréttindadama. --- Kórarnir eru hér allir og ég tek þátt í leit þeirra að góðu sönglífi. Þrátt fyrir allt tek ég lífinu nokkuð rólega og sálin er í góðum gír. Daginn er tekið að lengja og ég þá er ég alltaf svo létt á fæti, eða þannig......langar svo að taka kátínuhopp einn daginn. Hver veit...þar til næst. ---- Ps. Ég elska tæknina þótt ég kunni alls ekkert á hana. Sé mitt fólk daglega á skybe, Eyjólfur les fyrir mig á íslensku og ég sit með "köttinn" í kokinu yfir hvað þeir snúðar eru fallegir. Farið varlega í hálkunni.

sunnudagur, 1. janúar 2012

Ég heyri baul!?




Gleðilegt nýtt ár sendi ég ykkur öllum með blítt hjarta, og takk fyrir allar góðu kveðjurnar og stuðninginn á árinu. Ég get ég sagt ykkur að ég met það mikils. Ég ætla ekki hér að líta yfir farinn veg, er nokk búin að því, en ætla samt að trúa ykkur fyrir því að ég sakna þess ekki. --- Í öllu mínu aðventu og jólatáraflóði þornaði ég upp í kvöld, aldrei þessu vant! Þegar stafirnir í sjónvarpinu hverfa og birtast leggst ég alltaf í mikinn grát ofaná allan annan grát í Desember.
Ekki núna...ég ætla ekki að gráta 2011, en ég ætla að bjóða 2012 velkomið í minn bæ. Líka í lítið blátt hús og á alla aðra bæi. --Núna er Nýársnótt og ég held að kýrnar bauli... , og þær baula fallega. Því ætla ég að trúa. ---Á þessari nótt fer ég alltaf ef hægt er á næstu bæi... en núna er bara ekki fært eins og sjá má á myndunum. Nágrannarnir gerðu ALLT til að ég kæmist á milli húsa, en sandur og salt virka ekki alltaf, og ég þorði ekki. Nágrannarnir í þvældu götunni í Ástralíu hafa ekki roð í mína granna. Núna er allt orðið hljótt og ég veit að björgunarsveitirnar hér hafa fengið gott í skóinn í kvöld. Sem betur fer. ---Ég umvef ykkur öll með þeirri hlýju og væntumþykju sem ég á og bið ykkur vel að lifa þar til næst.