Fyrir mörgum árum fór ég á ball. Gerði töluvert af því að syngja á gömlu dönsunum í þá tíð, en átti fríkvöld og skrapp heldur önug með kunningjakonu á dansleik á miðvikudagskvöldi. Enga þekkti ég á ballinu, enda ekki gömlu dansarnir, en kunningjakonan settist við borð hjá einhverjum sem hún þekkti og gleymdi mér gjörsamlega. Mér var kurteislega boðið sæti við sama borð af ungum fallegum manni sem bauð mér svo í dans. Hann bauð mér líka appelsín!--- Þið munið að miðvikudagskvöldin voru þurr i den tid.--- Það var gaman að dansa við unga manninn, og svo var hann líka mjög skemmtilegur. Þetta var í októberlok. Í byrjun janúar kvöddumst við, ég var að fara í stóra hnéaðgerð en hann á vertíð, en vorum ákveðin í að hittast eftir vertíðina. Í lok janúar hringdi móðir hans og bauð mér, bláókunnri stúlkunni að koma á sitt heimili meðan ég væri að jafna mig eftir aðgerðina. Ég átti þó mitt heimili og yndislega foreldra. Með leyfi lækna, en án vitundar unga mannsins fór ég því í sjúkrakörfu á vit ástarinnar, og borin frá borði í körfu, með gipsi upp og niður. Þvílík sjón hefur þetta verið. Á Hornafjörð var sumsé tengdadóttirin mætt og hefur örugglega ekki öllum þótt hún burðug. Nú eru 35 ár liðin, ég er enn á Hornafirði og er ennþá gift unga fallega manninum. "Það er eins og gerst hafi í gær". Á þessum árum höfum við haft að láni tvö yndisleg börn, annað horfir til okkar af himnum en hitt býr í Ameríku. Í dag eru 3 ár liðin síðan Ameríkufarinn flaug á vit sinnar ástar með lítinn ömmu og afastrák í poka á maganum, lítinn strák sem ég horfði á koma í heiminn. Það er líka eins og það hafi gerst í gær. Nú hefur annar strákur bæst við, svo árangur ballferðarinnar forðum hefur verið gulls ígildi. Þegar við horfðum á eftir hnátunni með snúðinn í pokanum færast með rúllustiganum í Leifsstöð á vit lífsins var mér allri lokið. Það bráði þó af mér með tímanum....Hún var allavega ekki í sjúkrakörfu! (svartur þessi!) Þegar Svanfríður og Bert giftu sig með pompi og prakt hérna á Höfn dansaði fallegi ungi maðurinn dóttur sína í fangið á öðrum góðum og fallegum manni undir laginu "það er eins og gerst hafi í gær". Ég vona að þau dansi þennan dans reglulega í litla bláa húsinu næstu 35 árin eða svo. Vemmileg? Ég ? ónei...Góðar kveðjur til allra. |
miðvikudagur, 30. janúar 2008
Þar er eins og gerst hafi í gær.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
12 ummæli:
Ég elska þessa sögu, gæti hlustað á hana aftur og aftur og aftur:) Takk fyrir þetta.
Hugsaðu þér hvernig örlögin eða hvað sem það er nú, taka í taumana og hlutirnir gerast. Þarna fórst þú hálfpartin dregin á ball, hittir pabba og eftir smá tíma varð ég til. Vegna ballsins þá eignuðust þið Albertssyni-Getchell og ykkar litla fjölskylda heldur áfram. Allt út af appelsíninu!
Amma Gróa vissi sínu viti þegar hún bauð þér heim, það held ég.
Yndislegt, meiri fortíðarsögur. Svanfríður, tilkomin vegna Ölgerðinnar,Egils Skallagrímssonar:)
Tek undir með einkadótturinni - elska svona sögur.
Yndislegt að lesa svona frásagnir.
Já, tæpast sérðu eftir þeirri ballferð :D
Vemmilegt - nei, bara yndislegt.
Yndislegt, bara yndislegt...maður veit nefnilega aldrei hvað handan hornsins bíður! Ég fann minn líka á balli, eða hann mig, sama sagan, ég var bílstjóri og alls ekki spennt fyrir því að vera á balli...en það reyndist góð ferð!
bestu kveðjur
Þessa sögu var gaman að lesa - virkilega gaman..
Svona láta örlögin og enginn ræður við nokkurn hlut..
Bestu kveðjur,
Linda
*SNIFF*
Falleg frásögn. Virkilega falleg.
Góða helgi,
B
Jú, jú, tárin komu...Yndisleg saga; ljúfsár. Knús úr sólinni á Suðurnesjum. p.s. Rósin mín er öll að hressast. Silja
þetta var falleg lesning. takk!
Yndisleg saga, ég er bara ekki frá því að augun hafi orðið rök :)
Ég vissi ekki að þú hefðir komið á Höfn fyrst í þessu "ástandi".
Ég elska sannar ástarsögur, þær eru svo fallegar. Takk fyrir að deila þinnimeð okkur, lífið er dásamlegt.
Kveðja til fallegu hjónanna á Höfn frá gömlu hjónunum í Kotinu í Portúgal,
Þórunn
Greinilegt hvaðan Svanfríður fær pennafærnina, ég fékk tár í augun..
Kom hingað af Síðunni hennar Svanfríðar og hlakka til að lesa meira
Bestu kveðjur
Kolla Tjörva
Skrifa ummæli