miðvikudagur, 23. janúar 2008

Vort vikulegt mas...

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp fjölmiðlafréttir vikunnar, en þó var þetta sterkt endatafl hjá skákmeistaranum látna. Ég er svo sjálfhverf að telja að mínar fréttir séu miklu skemmtilegri, og þess vegna er ég sest. Hér er allt í ró og spekt fyrir utan stöku gól frá bóndanum. Það er merkilegt hvað annars rólegir menn geta spennst upp við að horfa á boltaleiki. Skyldi þetta hafa eitthvað með forna eða horfna veiðikarlmennsku að gera? Er alveg úti á þekju í svona málum. Nú er vika liðin frá síðustu skrifum og margt hefur verið gert. Spilaði td.við fallega útför í Breiðdal sl. föstudag og sveitin skartaði sínu fegursta í öllu vetrarríkinu. Þrátt fyrir glærahálku á vegunum stóð ég mig bara nokkuð vel, og var félögum mínum ekki til mikilla leiðinda að ég held. Þeir vita sem satt er að ég er skræfa í vetrarfærð. --Lít upp til atvinnubílstjóra---.Hjónaherbergið steinliggur líka eftir þessa viku,er voða flott, nýmálað og fínt parkett á gólfi. Gangaparkettið verður svo lagt milli mjalta og messu! Kórastarfið á öllum vígstöðvum er í fullum gangi, og píanó "masterclass" hjá okkur á mánudaginn. Hlakka til að fá Peter Máté. ---Samkvæmt fyrri áætlunum værum við hjónin á leið til Ameríku eftir viku, en nú erum við mæðgur búnar að sannfæra okkur um að Mars kemur bráðum. Hann kemur nefnilega bráðum, og eiginlega fyrr en við höldum! Svanfríður er þeim eiginleikum gædd að búa yfir ótrúlega miklum hæfileika aðlögunnar og breytinga, hefur sennilega þurft að læra það snemma. (hnátan telur yfirleitt í mig kjarkinn) Ég tel mig svosem hafa þessa hæfileika líka, en eftir því sem árin líða finnst mér ég ekki EIGA að bíða, sjá...ég er komin á þann aldur. Nú vil ég allt STRAX, eða þannig. Sumir kalla þetta unglingaveiki, ef svo er, er ég bara stoltur unglingur að nálgast sextugt! Á mínum unglingsárum var ég nefnilega voða pen og prúð, og fór td. aldrei í Glaumbæ eða Klúbbinn. Svo brann Glaumbær, og það eina sem ég kann um hann er lagið með Dúmbó og Steina, "Glaumbær brann og fólkið fann sér annan samastað". Hins vegar fann ég mér minn samastað, og hann er á Hornafirði. Hér líður mér vel, og með þeirri líðan sendi ég góðar kveðjur í bloggheima.

10 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þetta var skemmtilegur pistill mamma mín kær. Mér finnst nú að þú hefðir átt að bæta við þegar þú sagðir að ekki hefðir þú sótt Glaumbæ að þú hefðir bara verið í KFUM&J-K:)
Góðar kveðjur og knús, Svanfríður

Álfheiður sagði...

Greinilega í mörgu að snúast hjá unglingnum!

Nafnlaus sagði...

æ, mikið skil ég óþreyju þína vel. það er erfitt að bíða og manni getur sko alveg liðið eins og unglingi á alla lund, þótt maður eigi að heita fullorðinn.

sem betur fer:)

Nafnlaus sagði...

"Stöku gól frá bóndanum"....maður sér þetta sko alveg fyrir sér. Þú kemst ansi skemmtilega að orði...

Það er svo gott þegar maður hefur fundið sinn stað; bæði í anda og efni. Ansi eigið þið annars huggulegan bæjarstjóra. Bráðungur en vonandi (svona ykkar vegna) agalega klár og skemmtilegur;-)

Nafnlaus sagði...

já svekkjandi þessi þorraþreyta i íslendingum hér i chicago...gengur bara betur næst!! en við blikkum nú augunum bara nokkrum sinnum og þá verður mars mættur og svanfríður farin austur um haf...
bestu kveðjur í fjörðinn fallega

Nafnlaus sagði...

Það hlýtur að hafa verið gól sorgar, en ekki fagnaðar. Blessaðir drengirnir "okkar"...


Blessuð vertu...vorið verður komið áður en við vitum af. Mars...iss piss. Bara rétt handan við hornið.


Góða helgi Gulla mín.

B

Nafnlaus sagði...

Það hefur aldeilis verið í nógu að snúast hjá unglingnum í skóginum.. Og já, vittu til, marsmánuður verður kominn áður en þú veist af!!!

Góðar kveðjur yfir hafið,
Linda

Kristbjörg sagði...

Ég held að ég sé ennþá með þessa unglingaveiki. En ég er reyndar lengi að ákveða mig hvort að ´ge eigi að leyfa mér hina og þessa hluti og svona. En þegar ákvörðunin er komin þá er ekkert hægt að bíða, hlutirnir eiga að gerst STRAX. Sem betur fer eru bræður mínir og faðir einstaklega hæfileikaríkir sérstaklega þegar kemur að tækjum og tólum og vita að prinsessan hefur enga þolinmæði til að lesa leiðbeiningar svo þeir eru mættir þegar e-ð ekki virkar hehe :)
En alltaf jafn yndislegt að lesa pistlana þína og ég verð að segja að ég er ansi glöð að þú tókst þetta bloggskref þitt :)
En tíminn flýgur og Svanfríður verður mætt fyrr en varir, vittu til.
Hafðu það gott
kveðja Kristbjörg, sem fór (alltof ung) á Tunglið (sem brann svo líka eins og Glaumbær)

Syngibjörg sagði...

Já það er ljúft að búa út á landi, hef líka fundið minn stað þar.

Gangi þér vel á masterclass hjá Maté....og góða skemmtun líka.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Gangi þér vel í dag og skilaðu kveðju til Péturs.