þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Bara smart

Vika liðin og allt með kyrrjum kjörum hér á bæ, nema að ég þarf að auka við verðbólgu í þjóðfélaginu. Verð að eignast rauða skó! Hef aldrei átt slíka og hef þar af leiðandi ekki "fílað" mig eins og drottningu, en nú verður gerð bragarbót á.--- Þegar ég sem ung kona flutti á Hornafjörð var ýmislegt sem var framandi, til að mynda málfarið. Hér tala menn um "flaaagið", langt a og mjúkt g. Haaaginn er líka mjúkur, og kvenmannsnafnið Signý er borið fram sem slíkt! Hljómar ekki með tveimur g-um. Orðið "barn" er ekki borið fram sem baddn, og maðurinn minn heitir Örn, með mjúku n hljóði. Konan er oftast tengd við nafn mannsins, ég er sem sé Gulla hans Bróa. (gælunafn bóndans) Vélin er búin að vera og hér keyra menn ofalllega, neðalllega eða utalllega á vegunum. Með sterku l hljóði. Bekkjatusku hafði ég aldrei notað, né heyrt orðið daut. Það var því margt framandi í málinu. Í dag veit ég hvort vélin er búin að vera, nota mína bekkjatusku og ber Signýjarnafnið fram mjög mjúklega. Hitt læt ég vera og ég keyri bara á réttum helmingi veganna.--Að mínu mati má þessi málvenja ekki glatast, en hún verður að vera fólki eðlileg svo hún hljómi fallega.---Nú er búið að klippa í rósaskálanum og set ég inn mynd fljótlega. Það er undravert að fylgjast með gangi mála þar. Þrátt fyrir kulda og snjó er sólin farin að vinna sitt verk. Um næstu helgi verður hér á Höfn heilmikil blúshátíð, það verður blúsað um allan bæ. Sennilega fer hún að mestu fram hjá mér, reyndi í fyrra en skjögraði út. Hefði betur verið með eyrnatappa! Undirbúningur fyrir kórauppskeru vorsins er á fullu og lífið er nokkuð gott. Af þessu má sjá að það er smart að búa á Hornafirði,til orðs og æðis, að ég tali nú ekki um þegar ég verð komin í rauða skó.--Ameríkufararnir lenda á Íslandi að morgni 18. mars og get ég því núna tekið undir með Birtu....iss piss, þetta er að koma. Þar til næst.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

heheh, nú veit ég hvaðan Signýin sem þjálfaði Fífu í sínum afskaplega stutta fótboltaferli kom...

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Mér finnst mállýskan heima skemmtileg og falleg. Mér þykir hún ljóðræn og tröllsleg í senn:)
Hér í Chicago eða kannski Illinois réttara sagt, er líka mállýska og hefur mér verið sagt að Eyjólfur (Bert líka en það vissi ég) tali eins og sannur Chicagobúi. T.d, þegar hann fer í bað þá er það "take a beeath" og það er fyndið að heyra lítinn tvítyngdan gutta tala svona.
En guði sé lof að þú fluttir austur, Hornafjörður hefði annars verið fátækari af mér:) hahah, djók, af þér og það meina ég og áreiðanlega fleiri.

Nafnlaus sagði...

merkilegt hve samt maður sjálfur missir af eigin framburði. ég er að norðan og veit að ég segji reyKjavík og aKureyri, finnst það eins eðlilegt og hægt er að hafa það, mamma er að vestan og segir laaangur gaaangur heyri sjálf ekki hvort ég hafi erft það, heyri mest að þeir sem ekki tala íslenskuna ekki eins og ég eru ekki að tala hana sanna:-).....

einnig í ameríku, þá er minn chicago hreimur, ábyggilega smitaður af svona samblandi frá mexíkana með chicago hreim, og því er ég heyri annars staðar í kringum mig hér í illinois, ætli maður lærir ekki mest af þeim er næstir manni standa?

magnað að það sé blúshátið á hornafirði, ég myndi reyna aftur að mæta og sitja þá nálægt sviðinu, þó með eyrnatappa, því ef þessir blúsarar þarna stappa taktinn eins og þeir gera það hér, þá má láta hrista músíkina inn að beinum án þess að heyra of mikið......
bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

daut?

Nafnlaus sagði...

Baun. Daut þýðir "ekkert". Hvað voru þið að fiska? Ekki daut! Fyndið orð. Gulla

Védís sagði...

Ég er sammála Svanfríði, mállýskan á Höfn er bara skemmtileg.
Mamma segir einmitt "hv" í t.d. hvítur og hveiti allt öðruvísi en flestir sem ég þekki. En ekki er langt síðan pabbi glotti þegar ég sagði "lagi" með hornfirskum áherslum :)

Nafnlaus sagði...

Heill og hamingja.. reddar ekki bara dóttirin rauðum leðurskóm mér sýnist hún hafa verslað nokkur pör miðað við skrif. Hugsa til þín í sólskálann þar sem þú liggur og lætur fara vel um þig...rós á meðal rósa... Bestu kveðjur héðan Svava

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Nei sko-ég lagði áherslu á rauðu skóna og endurtók því í sífellu að ég hefði keypt þá:) Það væri samt gaman að geta leyft sér að kaupa nokkur pör af leðurskóm, ég neita því ekki.

Egga-la sagði...

Er það þá reykvíska að segja tjútlingur og gus-sjónusta? Þekkti nefninlega einn sem var þaðan og talaði svona. kannski var hann bara svona lélegur að tala!

Nafnlaus sagði...

Já nú styttist heldur betur í að fólkið þitt komi heim! Ég verð nú að viðurkenna að þegar Svanfríður sagði síðasta sumar að hún stefndi á að koma heim "í vor" þá fannst mér alveg óhemju langt þangað til, en tíminn er gjörsamlega búinn að fljúga síðan! Allavegana finnst mér ekki langt síðan við sátum á pallinum við litla bláa húsið þar sem kjaftaði á okkur hver tuska! Ja hérna hvað það var gaman :-)

Bestu kveðjur af Júllatúninu,
Árdís

...man ekki eftir að hafa heyrt orðið "daut" hér í bæ..., hef þá allavegana ekki haft hugmynd um hvað það þýddi!

Nafnlaus sagði...

Vá...er í alvörunni svona stutt þangað til?

Hvað sagði ég ekki *broskall*

En mállýskan sem þú talar um er jú landsbundin, en ekki tengd leti.

Mér var hugsað til þín áðan. Ég las nefnilega bloggið þitt í flýti, áður en "Gettu betur" byrjaði. já ég er nörd...má helst ekki missa af því.

En allavega.

Keppendur annars liðsins heita, Bjössi, Vignir, og Maggi.

Juminn eini, að heyra í áhorfendum hrópa: Veggner, Bjosse, og Maegge.

Garg.

Svo ég haldi nú áfram að nöldra...

Þá var þátturinn hans Bubba áðan, og ein stúlka söng lag sem heitir: Án mín. Þar söng hún endalaust: "Aann meeeeeeeen"

Fojjj...þoli það ekki.

En vá. Afsakaðu "kommentafrekjuna"

Kv,
Birta

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Birta-hahahaha. Eitt besta komment sem ég hef lesið lengi:)

Syngibjörg sagði...

skemmtlegt..... hehe..........