miðvikudagur, 26. mars 2008

Ættarsilfur og gersemar.

Þegar ég var unglingur fékk ég í arf eftir góða konu, heljarinnar matarstell, kaffistell, súkkulaði- og mokkastell. Með öllu þessu "góssi" er mikið af fylgihlutum, og er allt þetta mjög gamalt og fallegt. Einnig fékk ég silfurborðbúnað frá þessari góðu konu. Í þeim pakka er allt frá hatti ofan í skó, og á heimilinu gengur þetta undir nafninu ættarsilfrið. Vitanlega þykir mér vænt um ættarsilfrið og tel mig eiga gersemar. En það fellur á þessar gersemar, og stellin eru notuð við hátíðleg tækifæri.( Ég myndi t.d. aldrei sanka að mér svona hlutum, og borga offjár fyrir) Núna veit ég aftur á móti vel hvernig ættarsilfur og gersemar virka, og virka vel. Það er í formi tveggja lítilla stráka sem hafa stolið hjartanu mínu. Ættarsilfur nr.1 er dóttirin sem fæddi þá af sér, og hún hefur ekki slegið slöku við. Eyjólfur talar íslensku, að vísu enskublandna, en honum fleygir fram með degi hverjum. Mig need vettlinga... I need fara í rennibraut...en kann allt faðirvorið uppá íslensku. Eyjólfur er mikill karakter, sérstaklega þegar hann er í grænu froskastígvélunum! Ég var á æfingu í gærkvöldi fyrir útför, og hann sat á orgelbekknum hjá mér, prúður, með opna bók og stjórnaði! Gerði það nokkuð þokkalega. Syngur fallega og kann að hoppa á annarri! Leggur á borð, gerir það rétt og er yfirsmakkari á sósum. Í þykjustuleikjum er Eyjólfur flottur. Natti minn patti er óskrifað blað ennþá. Meðan hann fær gott í gogginn og þurra bleiu er hann alsæll. Rólegur og alveg ofboðslega fallegur með nýju Navy klippinguna, sex tennur og flott slef. Sko,--- ég held að Eyjólfur eigi eftir að láta að sér kveða á listasviðinu, en Nathaniel verður sagnfræðingur og bókaormur. Kannski hef ég svo mikið rangt fyrir mér, "but so be it". ( svona talsmáti er bannaður á Hólabrautinni nú um stundir!) Nú er klukkan orðin margt, strákarnir steinsofa, bóndinn líka en ættarsilfrið nr.1 horfið á DVD. Semsagt rólegheit. Væmin amma? Ónei, en ég elska fólkið mitt óendanlega og vona að allar góðar vættir veri með þeim. Ég hef sagt áður að ég öfundast ekki út í neinn , en verð að viðurkenna að það er ekki satt! Ég get ekki haldið á Natta mínum nema í sitjandi stöðu. Eyjólfur skilur fótafúann og kyssir á bágtið, en sá stutti nýtur góðs af afa fangi. Á göngu sinni raula þeir saman, annar er djúpur bassi en hinn kvakar yndislega, og saman mynda þeir fallegt tónverk. ----Bert, if you read this blog.... don´t forget we love you and miss you a lot. Your boys are beautiful,( let alone your wife) so keep up the good job. You two are doing great. ---Þar til næst.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Gulla mín til hamingju með þetta allt saman. Þetta er bara frábært.Sé Eyjólf fyrir mér í grænu froskastígvélunum og það kemur mér til að hugsa um húmorinn í henni dóttur þinni. Ég hefði líka keypt græn froskastígvél á mína ef þau hefðu fengist í den tid. Hafið það hugglegt og njóttu restarinnar af heimsókninni. Bestu kveðjur héðan frá DK Svava

Álfheiður sagði...

Njóttu samverunnar með fólkinu þínu í botn Gulla mín.
Sjáumst!

Védís sagði...

Gaman að heyra frá þér, njótið tímans sem þið hafið þau hjá ykkur.
Ég hlakka til að hitta þau eftir viku, ég hef nefnilega aldrei séð hann Natta Patta.

Nafnlaus sagði...

Mikið er þetta fallegur pistill, lýsir tilfingum þínum svo vel. Njóttu vel ættarsilfurs þíns og gullmolanna líka.
Kveðja,
Þórunn

Nafnlaus sagði...

Yndisleg færsla.

Það er sko alveg hægt að vagga og syngja sitjandi. Það er uppáhalds mömmu og Hildis.

Þá syngur hún:

"Situr hann og rær hann
og pissar hann á skinn.
Þetta gerir Hildir Hrafn,
með óvandann sinn"

(lag: Afi minn og amma mín)

Bið að heilsa heim,
B

Nafnlaus sagði...

yndislegt að heyra að allt gengur vel, og það er fátt betra fyrir lítinn strák en að kúra í ömmufaðmi!
bestu kveðjur til allra..

Nafnlaus sagði...

Bestu kveðjur á Hólabrautina*

Góða helgi,

Guðrún

Nafnlaus sagði...

Æ,þú ert svo mikil dúlla endalaust. Ég samgleðst þér að hafa fengið að knúsa gullin þín í marga daga. Og takk fyrir að vera tryggur lesandi á blogginu mínu, þó ég nenni næstum aldrei að skrifa núorðið. Vonandi fer þér að líða betur í fótunum. Knús, Silja

Nafnlaus sagði...

Æ,þú ert svo mikil dúlla endalaust. Ég samgleðst þér að hafa fengið að knúsa gullin þín í marga daga. Og takk fyrir að vera tryggur lesandi á blogginu mínu, þó ég nenni næstum aldrei að skrifa núorðið. Vonandi fer þér að líða betur í fótunum. Knús, Silja

Nafnlaus sagði...

Fyrirgefðu, ég vissi ekki að ég væri búin að vista athugasemdina...

Blinda sagði...

Vissi ekki að þú værir með síðu, en tók mér svo bessaleyfi og setti tengil á síðuna frá minni síðu. Var það í lagi?

Þú ert rík og góð kona. XXX

Syngibjörg sagði...

Ríkidæmi þitt er mikið Gulla mín og þú kannst svo sannarleg að njóta þess.