Eftir mikla vinnutörn sl. föstudag fórum við bestu helmingarnir í ferðalag. Þegar bílnum var lagt við hótelið í Stykkishólmi voru 620 km. að baki. Yndislegt veður og falleg er leiðin vestur, sérstaklega Vatnaleiðin. Hólmurinn tók vel á móti gestum sínum, og voru samferðarmenn okkar yfir helgina ekki af verri endanum. Á laugardeginum fórum við í siglingu um Breiðafjörð, og fylltist ég einhverri vellíðan sem erfitt er að útskýra. Læt það vera, en hvílík kyrrð og friður yfir öllu. Um hundrað manns voru í bátnum, og þegar hann renndi sér ljúflega nánast upp í hreiður fuglanna hefði mátt heyra saumnál detta. Enginn vildi raska rónni. Tvo Erni sáum við í návígi svo og alla fuglaflóruna sem þarna verpir. Skipverjar veiddu svo ofan í mannskapinn skelfisk sem við átum og skoluðum niður með kældu hvítvíni. Er hægt að komast nærri móður náttúru en þetta? (að vísu hefur hvítvínið ekkert með náttúruna að gera!) Ef ég þyrfti að velja milli helgarferðar til London og siglingu er ég ekki í vafa hvor ferðin yrði fyrir valinu. Nú á ég bara eftir að fara út í Flatey, og vona ég svo sannarlega að sú ferð verði farin fyrr en síðar. Við fórum svo fyrir jökul á sunnudeginum, og þótt Snæfellsjökull sé kyngimagnaður er sá stóri sem vofir yfir okkur hér öllu glæsilegri! Ekki dvöldum við lengi í Reykjavík, og fórum ekki niður fyrir Ártúnsbrekkuna. Reykjavík nefnilega þrengir að mér. Það er oft sagt að sunnanmönnum finnist svo óendanlega langt að fara upp fyrir brekkuna, en ég er ekkert betri þegar ég þarf að fara til borgarinnar. Rólegheitin og kyrrðin í umhverfinu hér á einfaldlega betur við mig. Á mánudeginum kom svo sumarið....byrjaði í gróðrarstöðinni Borg. Í gær potaði ég svo öllu niður, og nú getið þið svo sannarlega komið í sumarkaffi þegar ykkur hentar! Sumarrósaskálakaffi var það heillin. Tvíbíla vorum við helmingarnir heim, og var það skondið ferðalag. Ég var alltaf með hvíta bílinn fyrir aftan mig og fannst asnalegt að skipta upp helmingunum. Vera í sitt hvorum bílnum. Ég talaði upphátt við sjálfa mig megnið af leiðinni. Eitthvað var bóndinn að tala um þreytu hjá mér, fannst ég hægja fullmikið upp ef ég sá fé á beit uppi í fjalli, ég tala nú ekki um allar einbreiðu brýrnar. Lái mér hver sem vill, og það var gott að koma heim. Nú er bara að fara að yrkja garðinn sinn og huga að ýmsu sem hefur setið á stóra hakanum. Syngjandi sæl kveð ég þar til næst. |
miðvikudagur, 28. maí 2008
Syngjandi sæl öllsömul.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
hæ mamma mín. Gott að sjá nýtt blogg hjá þér, var farin að sakna þess.
Gott að þú sért farin að sinna sumaráhuganum og ég er viss um að gestabókin eigi eftir að fyllast af nöfnum þar sem undir stendur p.s, mikið var kaffið gott í sólskálanum:)
elska ykkur,SVanfríður og strákarnir.
það er einmitt eins og maður sé öðruvísi innstilltur - borgarbarn/dreifbýlisbarn. mér finnst kyrrðin í "sveitinni" næstum "ærandi" þegar ég kem út á land.
ætli þurfi ekki að endurstilla úr manni stressið og lætin?
Það er gott að fá kaffiboð.
Aldrei að vita hvað maður gerir í sumarfríinu. Kannski fer maður í kaffi til Gullu og Bróa.
Það yrði ljúft.
ÉG var einmitt að spyrja mömmu í gær, hvort hún hefði bragðað skelfisk úr Breiðafirðinum. ÉG fór þangað í skólaferðalag, og át hann hráan...með engu hvítvíni.
Kv,
B
Ég hlakka alltaf til að komast aðeins heim í heiðardalinn og nýt þess alveg í botn en eftir því sem ég eldist kann ég meira og meira að meta kyrrðina.(jésús nú tala ég eins og ég sé aldagömul!)
gott að finna nýtt blogg, alveg bannað að láta tvær vikur líða á milli, maður verður svona eins og "stalker" alltaf að kíkja...
ég hef rosalega gaman af því að heimsækja reykjavík, landsbyggðar barnið sem ég er, en mikið ofsalega er svo gott þegar keyrt er frá borginni. ég er ekki komin til íslands fyrr en ég er komin norður, og þar fyrst næ ég að fylla lungun, get slakað á....ohhh fæ bara heimþrá, ætla hætta að skrifa þetta áður en tárin fela skjáinn...bið að heilsa austur, vona að skjálftarnir séu ekki að trufla ykkur...
Það er engin smá vegalengd sem þið lögðuð að baki til þess að skreppa í smá skemmtiferð. Það er yndislegt að fara í bátsferð um Breiðafjörðinn og smakka skelfiskinn og hvítvínið í lokin. Frábært hvernig þeir leysa þann vanda að hafa ekki vínveitingaleyfi á bátnum. Selja manni bara glösin og gefa síðan hvítvínið. Alveg snilld.
Hver veit nema maður eigi eftir að kíkja í garðskiálakaffi hjá þér seinna í sumar á leiðinni lengra austur. Ég þakka allavega gott boð.
Kær kveðja
Það er notalegt að vera komin í sumargírinn og byrja á því að skreppa í bátsferð, gott hjá ykkur. Það er engin spurning að það er gott að fá sér kaffisopa í rósaskála. Ég kann líka bet við kyrrðina í sveitinni minni. Eigið þið gott sumar og njótið lífsins. Kveðja úr kotinu,
Þórunn
Skrifa ummæli