Maður slær um sig með "fínum" orðum sem betur væru komin uppá íslensku. --Af Hólabrautinni er allt gott og ég dudda mér við ýmislegt þessa dagana. Garðvinnan og rósaskálinn eru í öndvegi en veit þó ekki hvort mikið liggur eftir mig. Er samt ánægð, sérstaklega af því að ég hef harðsperrur í leggjunum í öll mál! Rafmagnsmeðferð hjá sjúkraþjálfara gerir greinilega eitthvert gagn þótt ég vinni alls ekki fyrir þessum harðsperrum. Það gerir tæknin. Í þá tíð þegar ég gekk á fjöll á haustin og smalaði rollum í þrjá daga fann ég fyrir þreytu í vöðvum. Það var eðlilegra því ég vann fyrir þeim sjálf. Í dag getur maður hins vegar látið tæknina vinna fyrir sig, en ég vildi þó gjarna puða fyrir þessu sjálf. Greinilega ekki hægt að gera mér til geðs í þessum málum. ---Það eru mörg mál annars sem brenna á mér, ætla ekki að tíunda þau hér svosem! --- Samt--- Ég skil ekki heimsmálin í dag, skil ekki olíuverðið, skil ekki mannvonskuna, skil ekki auglýsingaflóðið í öllu krepputalinu og skil ekki af hverju ég þoli ekki að mávurinn steli þrastarungum. Ég veit að ég gef krumma að borða, en BARA yfir háveturinn. Ég borða kjöt af lambi sem einhver drap, ég smakka kríuegg á vorin, (ég þoli þó ekki þegar hún er rænd), ég elskaði litla sæta þýska ísbjarnahúnann þótt ég vilji ekki að afinn gangi laus hér á landi, og mér finnst hreindýrskálfur eitthvað það fallegasta sem ég sé, en kjötið gott! Er svolítið græn að mörgu leyti, endurnýti hlutina og flokka, en var rétt í þessu að drepa alla maðkana á trjágróðrinum mínum. Er til meiri tvískinnungskona á ferð? ---Á fimmtudagskvöldið ætlar litla skólalúðrasveitin að halda tónleika í Haukafelli, dásamlegum útivistarreit okkar Hornafirðinga, og veðrið ku eiga að vera gott. Þau eru að fara til Svíþjóðar á mót og veit ég að þau verða okkur til sóma. Þetta fólk, stórt og smátt, á heiður skilinn, eru búin að vinna hörðum höndum til að fjármagna ferðina. Á laugardaginn verða svo tónleikar hjá mínum eldri ásamt kór úr Reykjavík. Þess á milli eldum við HUMAR.. Með þessum nammikveðjum kveð ég þar til næst. |
þriðjudagur, 10. júní 2008
dittin og dattið!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Tvískinnungur, ég veit það ekki. Í ströngustu meiningu orðsins ertu það kannski(en hver er það ekki) en það bíttar engu. Ekki vil ég að þú gangir í the raw food movement þar sem maturinn er varla soðinn og þeir éta ekkert sem er drepið eða tínt af trjám-það banna ég.Þannig að haltu áfram að vera þú og veistu hvað? Núna sakna ég þín svo mikið að ég vildi óska að þú gætir komið og knúsað okkur öll. Kannski í næstu viku?
Sömuleiðis hjartans mín, ég kem, er á hjóli! ég sjálf
Eigum við ekki að segja að þetta sé svona Ragnars Reykáss syndrome, sem við erum flest haldin. það hafa víst allir hlutir tvær hliðar og stundum er erfitt að vita hvora hliðina maður velur.
En þið á Hornafirði eruð svei mér heppin að eiga greiðan aðgang að góðum Humri og það er sko sama hvernig á hann er litið - góður öllu megin.Ummmm.
Kær kveðja,
Ragna
Erum við ekki öll svona hingað og þangað - dittin og dattin? Held það. (Annars átti ég búð sem hét þessu nafni ;-) )
við erum nú öll flækt í alls konar "tvískinnung". maður gerir bara eins vel og maður getur.
bestu kveðjur í humarbæinn:)
ég sendi með endurvinnslutrukknum allt sem hægt er að endurvinna, stend mig vel í því, og held að ég sé þokkalega grænni vænni.....en ég fæ eiginlega aldrei humar, búhú!!
bestu kveðjur
Þetta er nú bara svona.
Öll reynum við að gera okkar besta held ég, og reynum að lifa lífinu lifandi.
mmmmm humar.....ég fæ vatn í munninn af tilhugsuninni einni saman.
Sendi þér sumarkveðjur.
Kæra Gulla. Rósir og humar! Lýsandi fyrir þig og frábær samsetning. Tóm yndislegheit á Höfn heyri ég. Svona á að gera þetta kona! Kv. Silja
Sammála ykkur öllum, kannast vel við svona tvískinnung hjá sjálfri mér, vil helst ekki drepa flugu en er svo að vinna í því að finna ráð til að losna við sniglana sem éta kálið mitt og blómin á nóttunni meðan ég sef. Ekki dugar að henda þeim inn í næsta garð, ekki fæ ég mig til að stappa á þeim eins og tíðkast hér svo ég enda með því að strá kalki í slóð þeirra til að murka úr þeim lífið, svona er ég.
Kveðja úr kotinu
Þórunn
Skrifa ummæli