Kammerkórinn Hljómeyki er nýkominn úr vel heppnaðri tónleikaferð í Frakklandi, og óska ég þeim söngfuglum innilega til hamingju með árangurinn. Einn af forsprakksmönnum þar á bæ er dóttir góðra hjóna sem ég söng lengi með í den tid, og eftir að hafa hlustað á ferðasögu Hljómeykisfólksins rifjaðist upp fyrir mér skemmtileg upplifun frá 1967! Þá var ég kornungur meðlimur Pólýfónkórsins, en ég og vinkona mín vorum lang yngstar í þessum frábæra kór. Við vorum komin á Europa Cantat í Namur/ Belgíu. Þar voru samankomnir þúsundir til að syngja saman og hver fyrir annan. Dagurinn byrjaði á allsherjar söng í stórri "höll", þar sem allir sungu af blaði og hristu sig saman. Ég sat stundum hjá Týróla bassa sem hristist allur og nötraði þegar hann söng. Flottur, og í stuttbuxum.--- Pólýfón gisti í munkaklaustri, og höfðum við tvær hæðir fyrir okkur. ---Eins og títt er um ungar stúlkur urðum við vinkonurnar yfir okkur "ástfangnar" af tveimur bössum úr Bachkórnum frá Munchen, þeir voru sko á mótorhjóli, og við gengum oft far. Váááá...Eitt kvöld þegar Pólýfón var á heimleið í strætó langaði okkur vinkonurnar að hitta téða bassa og hlusta á þá syngja, nóttin var ung rétt eins og við, en prógrammið var stíft svo nú skyldi fara að sofa. Pabbi forsprakkans (sem áður er getið) sagði í lágum rómi að hurðin á okkar hæð yrði opin, en við mættum ekki vera lengi. Þar með laumuðumst við til baka og áttum skemmtilegt söngkvöld. Engan áttum við peningin til að greiða leigubílnum heim í klaustur, en sungum bara fyrir bílstjórann "hann Tumi fer á fætur". Gott mál og allir glaðir. Þegar við læddumst á hæðina okkar var hurðin læst.....Rúúnar! -- Nú voru góð ráð dýr fyrir lítil hjörtu-- Læddumst á neðri hæðina og drógum andann djúpt. Fyrsta herbergið var upptekið, númer tvö líka...það þriðja var autt og þangað pukruðumst við í myrkrinu. Þegar við kveiktum ljósið blasti við okkur munkakufl á vegg, opin biblía, hálfnagað epli og bælt rúm. Við bara settumst á einbreiða rúmið og héldum áfram að draga andann djúpt, og nú mjög djúpt. Lögðumst svo saman í þetta rúm og bærðum varla á okkur, biðum bara að munkurinn kæmi. Hann kom aldrei, og við lognuðumst útaf, en þá hálfflissandi af taugaveiklun. Morgunin eftir hafði velgjörðarmaður okkar frá því kvöldinu áður verulegar áhyggjur því hann fann vinkonurnar ekki á réttri hæð. Þannig var að hurðin var bara stíf, alls ekki læst, en við þorðum ekki að kippa í og gera óþarfa hávaða. Við vorum semsagt svo vel upp aldar! Kórstjóranum hins vegar fannst við ekki vel upp aldar þegar hann horfði á eftir okkur vinkonunum í íslenska búningnum sitjandi með strókinn aftur úr okkur á mótorhjóli þeirra Bachbassa! Efast um að gamlir Pólýfónfélagar læðist hér inn, en hver veit.....Bið að heilsa ykkur öllum og þakka fyrir góð ár með kórnum. Með þessari langloku um löngu liðna tíð kveð ég alla í kútinn að hætti dóttlu minnar. Þar til næst. |
miðvikudagur, 4. júní 2008
Sögustund á síðkvöldi
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Við lofum auðvitað að steinþegja um þetta ef við skyldum hitta einhvern úr Polyfonkórnun svo leyndarmálið þitt verði nú vel geymt :)
Kær kveðja í Fjörðin þinn fagra og líði þér vel.
hahahaha...ég hafði heyrt um strákana og mótorhjólin en man ekki til þess að hafa heyrt um herbegið og munkakuflana:)
Skemmtilega saga því það er alltaf gaman að heyra hvernig þú hagaðir þér hér einu sinni:)
hahaha, snilld, aumingja pabbi hefur verið að farast úr áhyggjum :D
yndislegt að eiga svona minningar og enn mikilvægara að deila þeim með öðrum, takk. það veitir manni innsýn á aðra daga fjarri mömmuhlutverki, góð áminning á að við eigum allar okkar sögur fyrir mömmutíð....sem virkilega mikilvægt er að varðveita, skrá niður setja þannig á spjöld sögunnar!!
bestu kveðjur
Minningarnar eru það mikilvægasta sem við eigum. Takk fyrir góða sögu :-)
kannski hímdi bara munkurinn (og herbergiseigandinn) undir rúmi allan tíma og þorði ekki að bæra á sér...hmmmm?
Skrifa ummæli