Takk kæru lesendur sem kvitta fyrir komuna. Veit ekki af hverju mér þykir vænt um það, en svona er það bara. Ég veit svosem ekki heldur af hverju ég/við erum að blogga, þetta er bara eitthvað svo notalegt. Hafði ætlað mér í byrjun sumar að setjast niður á HVERJUM degi og skrifa smá, en tíminn líður og ég geri það ekki. Eins og mér finnst gott að skrifa mig frá deginum. Fer þó minn reglulega rúnt og ætlast til að allir hinir hafi eitthvað nýtt fram að færa. Tvískinnungur frúarinnar aftur á ferð!. Ég ætla ekki að skrifa um síhækkandi verð á öllu eða um bangsana sem dóu, ég hreinlega nenni því ekki. Frekar að segja ykkur að rósirnar mínar dafna vel, ég er búin að juða hendurnar upp að öxlum í pallapússi, og líka búin að bera í þá. Fann vel fyrir því á tónleikunum s.l. laugardag. (Takk fyrir, þeir gengu mjög vel.) Það er eins gott að þetta stúss mitt fer fram bak við hús, því ég ligg ýmist á hliðinni, sit á rassinum, ligg á maganum og stundum hálf á bakinu! Vegfarendum þætti þetta brölt mitt skrítið svo ekki sé meira sagt. Ég er nefnileg góð þegar ég er komin á jörðina, get því mjakað mér ansi langt á rassinum, en vei ef símarnir hringja og ég ekki með þá hangandi á mér og hækjurnar of fjarri . Læt þá bara hringja. Nú ætla ég hins vegar að taka smápásu í þessari handavinnu því töluvert spilerí er framundan. Handaolíubað skal það vera heillin, og það á hverju kvöldi. --Tvennt til: --- Fyrir margt löngu vorum við hjónin með Ameríkufarann okkar í útlöndum, þá 13 ára og sem fyrr opna fyrir öllu. Eitt skipti sáum við hana standa kengbogna og aleina rýna í jörðina, og það í dulitla stund. Við fylgdumst með úr fjarlægð, og smám saman sáum við fólk bætast við og allir rýndu í sömu jörð og daman og var það fyndin sjón, en hún var að horfa á maura vinna sitt verk! Þegar samferðarfólkið sá að þetta var ekkert merkilegra en það svifu þeir á braut. Í minningunni segir þetta litla atvik mér svo mikið. Barnið sér og upplifir, en við hin fullorðnu höfum séð þetta allt áður og látum okkur fátt um finnast. Gleymum því ekki barninu í okkur. --- Humaruppskrift a la Gulla: Takið humarinn úr skelinni. ( auðveldast er að taka hann úr skelinni hálffrosinn). Setjið hveiti í poka+ humarskottin og hristið vel. Bræðið smjölíki/smjör á pönnu og sprengið karrý út í. Steikið skottin smá á hvorri hlið. Mjög stutt. Hellið alvörurjóma yfir. Þegar fer að búbbla þá hellið hvítvíni yfir allt og látið hitna í gegn. (þetta verður svolítið að vera eftir hjartanu) Borðist með hrísgrjónum og góðu brauði. Hvítvínið, ef eitthvað verður eftir drekkist með, annars þarf að opna nýja flösku! Verði ykkur að góðu. Ef einhver lesandinn prófar þennan syndsamlega góða rétt og hann tekst,( nú eða mistekst) látið mig vita.--- Þar til næst.--- |
miðvikudagur, 18. júní 2008
Svona gerum við, eða ég.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
14 ummæli:
Þú ert dugleg, þykir mér ... hamast með hækjurnar í garðvinnunni.
mmmmmmmm hvað humarhalauppskriftin hljómar vel - annars hefur mig alltaf langað á humarhátíð á Höfn ... hef heyrt að það sé stórgóð skemmtun - á líka frænda þar sem ég gæti böggað svolítið með innliti ;)
hmm, minnir mig á, áttum við ekki inni nokkra hala fyrir bækur? ;)
Komum annars á Höfn fyrstu helgina í ágúst. Verðum í bandi þá...
þú ert laglega dugleg, en hækjur eða ei, þá er nú garðvinnan mest og best unnin á niður við jörð....og þá er alltaf gott að tylla sér á mjúkan botninn!!
ég var að borða ágætiskvöldmat, en ég hreinlega fór að slefa, nú verð ég heldur betur að ná mér í nokkra humarhala......og elda þá a-la gulla!
bestu kveðjur
Hlustið nú vel þið sem hingað kíkið inn;mamma MÍN eldar alveg þrusugóðan mat og alltaf eftir hjartanu og það sem besta er, er að hún er líka aumingjagóð þegar ég spyr hana um aðferðir þannig að þið getið verið óhrædd um að spyrja hana:)
Líka annað; hún er seigari en andskotinn og það á rassinum!!!
Góður pistill, hafðu það gott, kysstu pabba og segðu honum að skrifa einn pistil hingað inn líka:)(nú mega allir hlæja)
Ég tek undir það með Svanfríði að þú eldar góðan mat, og kannski prófa ég þennan humarrétt einhverntímann, verst að mér þykir svo agalega leiðinlegt að stússast í mat.
Oh mig langar í humar .... mmm
Kveðja á Hólabrautina - Guðrún
aldeilis líst mér sérdeilis vel á þessa uppskrift, ætla að prófa hana þegar vel liggur á mér.
ja..ha..há.... þessa uppskrift á ég pottþétt eftir að próf og í leið laga að mínum vesenismaga.
Mikil seigla er í þér duglega kona að vinna garðverkin en það segir manni líka að þú lætur ekkert stoppa þig að fá sem mest út úr lífinu þó þú hafir tvo "auka" fætur:O) að drattast með.
Kem við á hverjum degi og hef gaman af ...
Ætla að prófa þetta með humarinn, hljómar allavega vel:)
Kveðja Inda
Ps takk fyrir innlitið og kveðjuna ..
Það verður ekki hjá því komist að prófa humaruppskriftina, veit bara ekki hvort ég fæ góðan humar hérna. þú þarft sko ekki að skammast þín fyrir að nota þína aðferð við vinnuna, ég dáist að þeim sem vinna verkin hver með sinni aðferð. Takk fyrir skemmtilegan pistil,
kveðja úr kotinu
Þórunn
Heil og sæl mín kæra. Nú sé ég að það er kominn tími til að setja í gang dekurkvöld því að Baldur bróðir Sigga kom hérna með humar handa okkur og Lax. Hann fór svo og keypti eðalhvítvín sem að eingöngu má drekka með þessum humri og laxinum og við eigum bara að vera ein og ekki bjóða neinum með okkur. Þannig er það og ég er svolítið smeik með þetta allt saman því að ég er alltaf að spar mig og vil endilega gefa með mér ef að ég á eitthvað gott í pokahorninu. Þegar ég sá uppskriftina þína fékk ég vatn í munninn og er viss um að ég læt slag standa og geri það sem að fyrir mig er lagt. Segi þér svo frá því seinna hvernig til tekst.... Bestu kveðjur til Bróa og passaðu nú á þér hendurnar því að annars verður þú atvinnulaus.... ;) Knús og kossar frá DK Svava
Ég verð hreinlega að fara í humarferð til Hafnar... Sendi þér og þínum hlýjar kveðjur. Silja.
Hæ mín yndislega,
Datt óvart inn á bloggið þitt og varð bara heltekin.
Takk fyrir síðast, en það var í jarðaförinni hennar Guðrúnar! Það er agalega langt síðan.
kv
Eyba
Eyba Dóra!!! Hvar ertu? Gulla
Skrifa ummæli