mánudagur, 11. ágúst 2008

Fréttir af flækingi...taka tvö

Jæja gott fólk, þetta var langt bloggstopp, því ég var svo upptekin í að vera með faraldsfætur á flækingi. Settist niður áðan og skrifaði að ósk dóttlu minnar langan pistil, en hann fór fjandans til! Veit ekki hvernig gengur núna og krossa fingur. Fyrir allt þetta brölt mitt vil ég fá mikið af kommentum, og hana nú. Áður en við besti helmingurinn fórum til Spánar eyddum við dásemdardegi í að keyra um Reykjanesskagann, og mikið lifandi hvað hann er fallegur. Í mollunni sem tók á móti okkur syðra hugsaði ég fallega um skagann, og í raun um að ég tel að við búum í besta landi veraldar. Nú er ég ekki að deila á þá sem kjósa að búa annarsstaðar, af og frá, er bara að slengja á ykkur mínum heimóttarhætti. ---Ég tel mig vera frjálslynda konu og nokkuð siglda eins og sagt var í gamla daga, en nú var bleik brugðið í ferðinni syðra. Í sundlauginni busluðu tvær mæður með börn í sundfötum, en þær voru huldar svörtu frá toppi til táar. Eiginmennirnir höfðu það svo huggulegt á bakkanum í flottum NIKE stuttbuxum. "Ja, mikill er máttur þinn drottinn hugsaði ég." Við hinar fáklæddari höfum sennilega litið út eins og bjánar. Spánn, eins og venjulega tók vel á móti okkur og við nutum í botn allra gæða sem við gátum. Eyddum degi með spönskum vinum, það er svo dýrmætt að fá að upplifa það sem ekki liggur á lausu fyrir marga. Þegar við lentum í Keflavík var hitastigið þar ekki mikið lægra en syðra, og lá við að farþegarnir æjuðu. Tveimur dögum eyddum við svo með góðum vinum í Borgarfirði, ferðuðumst og pottuðumst í íslenskri náttúru. Við heimkomu fengum við góða gesti og þefuðum að rósunum, og brakandi þerrir gerði allt svo auðvelt. Svo var lagt aftur af stað, og nú í brúðkaup. Athöfnin fór fram í garði hjónanna og var yndisleg. Ég vil endilega endurtaka brúðkaupið með besta helmingnum, því þetta er svo fallegt! Á Spáni gerði ég það sem allar pæjur gera, ég keypti RAUÐA skó og tösku í stíl! Nú er ég hæf í hvað sem er, og auðvitað skartaði ég þessum fínheitum í brullaupinu. Um næstu helgi langar okkur til að eyða meiri olíu.... eftir það sláum við á puttana, heftum hægri fótinn, og etum fjallagrös og bláber fram yfir sláturtíð. Munið eftir kvittinu því ég hafði töluvert fyrir þessu. Þar til næst.

14 ummæli:

Guðlaug sagði...

svo ef að ferðaþráin er alveg að fara með ykkur þá eruð þið velkomin í lítið blátt hús:) Gott að sjá frá þér pistil móðir sæl. Luf jú og góða nótt.

Nafnlaus sagði...

Velkomin heim kæru ferðalangar. Það hefur verið eitthvað svo tómlegt að koma hérna í heimsókn, en nú verður meira fjör. Frábært hvað þetta hefur verið gott frí og þið ferðast víða. Alltaf gaman að ferðast en ég er nú alveg sammála þér að við búum í besta landi veraldar.
Hvað er þetta með rauða skó? Maður verður líklega að fara að kíkja eftir slíku til að vera í stílnum eins og þið Þórunn.
Kær kveðja í fjörðinn fagra,

Nafnlaus sagði...

hér er ég, og verst að hafa ekki náð heimsókn í litla bláa húsið í þetta sinn!

Nafnlaus sagði...

nei sko, nei sko, hér er aftur líf! en gaman að sjá það:)

það er aldeilis þið hafið lagt land undir fót, hljómar nú sem ykkur hafi ekki leiðst.

og rauðir skór eru mannréttindi.

Védís sagði...

Velkomin heim kæru hjón :)

Nafnlaus sagði...

ahhh hvað það er gott að "skjá" þig aftur hér, þín var saknað á bloggrúntinum en vel fyrirgefið fyrst tíma þínum hefur verið svona vel varið í ferðalög og vinahittinga....
vildi að ég gæti komist heim og lagst í móana, því alveg gæti ég lifað á bláberjum.....
(ef þú rekur augun í úberljóshærða skvísu á hornafirði í farabroddi hóps af spánverjum, faðmaðu hana þá fyrir mig-litlu frænkuna mína)...
bestu kveðjur í fjörðinn fagra

Nafnlaus sagði...

Kvitt, kvitt!!!! Það er aldeilis að þú ert orðin flott og fín. Það er svo gaman að kaupa sér svona fínerí í útlöndum. Þetta var annars ansi skemmtilegur pistill hjá þér Gulla mín. Over and out. Silja.

Nafnlaus sagði...

Jæja mikið er gott að þið komuð þá heil heim og hafið greinilega notið frísins ykkar. Þín var saknað eins og sjá má á fleiri færslum. Þetta með mömmurnar í fötunum frá toppi til táar og pabbana á flottum sundbuxum þekkjum við vel til hérna í DK því að það er mikið að aðfluttu fólki hérna megin.Mikill er mátturinn Gulla mín án þess að ég vogi mér út í að ræða þetta eitthvað frekar en ég er sammála þér..... Héðan er allt gott að frétta og rútínan að komast í gang eftir gestagott sumarfrí. Smelltu einum á Bróa fyrir mig og knúsaðu sjálfa þig.... Svava í DK

Nafnlaus sagði...

Velkomin heim, gaman að sjá líf á síðunni.
Kær kv. Elsa Lára.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ Lauga
Verst að við gátum ekki hitt þig þarna í Reykjavíkinni um daginn :) gengur bara betur næst.. Vonandi náðirðu nú samt að kíkja á mömmu og náðir henni heima :):).
Knús frá Svíþjóð....
Fríða, Selma og Julia

Nafnlaus sagði...

Elsku Fríða, leitt að missa af ykkur,en skoðuðum mikið af myndum af dömunum, og við mamma þín áttum góða stund. Kær kveðja frá Hornafirði.

Egga-la sagði...

Já ísland er eflaust besta landið svona ef maður hugsar fegurð og ferskleika en íslenskt samfélag er ekki endilega besta samfélagið fyrir alla.

Og ég verð nú bara hálf móðguð að lesa um allt þetta góða veður á Íslandi á sumrin. Hef ekki fengið sólarglennu á mig síðustu 3 frí í því landinu. Ætli það sé samsæri??

Egga-la sagði...

Já ísland er eflaust besta landið svona ef maður hugsar fegurð og ferskleika en íslenskt samfélag er ekki endilega besta samfélagið fyrir alla.

Og ég verð nú bara hálf móðguð að lesa um allt þetta góða veður á Íslandi á sumrin. Hef ekki fengið sólarglennu á mig síðustu 3 frí í því landinu. Ætli það sé samsæri??

Nafnlaus sagði...

Það er sannarlega ekki komið að tómum kofanum hérna núna. Gott að heyra hvað þið áttuð gott og fjölbreytt frí. Og svo er það toppurinn, rauðir skór og veski, velkomin í hópinn.
Kveðja til besta helmingsins,
Þórunn