þriðjudagur, 21. október 2008
Að halda haus.
Alltaf er ég söm við mig, ef ég pirra ekki bloggvini þá pirra ég bara sjálfa mig. Ég get tekið því, en ég á bágt með að skilja afhverju landar mínir í útlöndum skammast sín fyrir að vera Íslendingar og tala tungum. Hvernig í veröldinni er hægt að leggja heila þjóð í einelti, og er ég þá að tala um hinn almenna Jón, en ekki þá fáu sem "bera ábyrgð". Þetta er forheimska af þeim sem stunda. Ég legg ekki fæð á Dana sem þó eru sagðir hafa kúgað íslenska þjóð, eða Breta sem töpuðu þorskastríðinu við okkur. Eftir það voru það sko ekki Bretar sem keyptu af okkur fisk eða seldu okkur olíu. Eigum við að spýta á Dani og Breta? Nei, nei, svona á fólk ekki að haga sér, og ég ætla að gerast svo djörf að halda mínu þjóðerni á lofti hvar og hvenær sem er. Stolt í lopapeysu eða á upphlut, og hinir mega bara eiga sig. Vonandi geta einhverjir tekið undir með mér, eða er ég kannski sú eina með þessa skoðun? ---Síðan síðast hefur tíminn flogið við ýmislegt. Karlakórinn tekur sinn tíma, svo er einnig um kvartettinn að ég tali nú ekki um Gleðigjafana. Allt á fullu í aukastörfunum, og er það vel, því söngurinn göfgar og glæðir. ---Í dag voru flottir tónleikar í tónskólanum þar sem 20 píanónemendur komu fram, og eingöngu með fjórhent. Lífið er gott, og ég ætla að halda haus og vera Íslendingur í húð og hár! Þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Góð lesning Gulla mín. Ég er alveg til í að standa með þér í lopapeysunni eða í upphlut, hvar sem er. Ég er montin með að vera frá Íslandi. Og vil hvergi annars staðar vera :) Sjáumst kannski um helgina. Er á leiðinni austur. Kv. Elsa Lára.
ég verð ætíð stolt af íslandi - sama hvað gengur á, sama hvað illa upplýstir vilja um það segja! það er ekkert í heiminum magnaðara en að vera frá íslandi - ekki neitt!!
(en þetta ætti vissulega að minna alla íslendinga á, að sýna sjálfir ekki fordóma gagnvart öðrum þjóðum, þjóðflokkum - vegna gjörða fárra...)
bestu kveðjur sendi ég þér syngjandi - og þú ættir að lofa þá lukku að þú heyrir ekki minn tón í gegnum tölvuna...
ta-ta í fjörðinn þinn fagra
mér finnst hreint glæpsamlegt þegar stjórnvöld reyna að troða þessu samviskubiti á okkur sem ekkert höfum til saka unnið, allt út af verkum helvítis hálfvita sem óðu um og sviku og prettuðu til að græða sjálfir. siðblindingjar, segi ég, og ég neita að teljast með þeim í hópi.
Halló halló ég ætla að skarta íslenska búningnum mínum hérna í danmörku á föstudaginn og hvað sem tautar og raular..Þetta er bara í nösunum á fólki.... Hér er ekkert verið að leggja fólk í einelti en maður er vitanlega spurður útí þetta allt saman. Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör og ég veit ekkert hvað er í gangi svo að ég er óhult og ekki hefur mér verið hent út úr neinni búð ennþá... Kveðjur í upphlut með skotthúfu og allt....Svava í DK
Það leysir engan vanda með því að svíkja þjóðerni sitt. Frekar að standa með því sem maður er og segja við þá sem ætla að ibba gogg; já, og hvað er að því að vera Íslendingur?
Alveg er ég þér hjartanlega sammála Guðlaug mín. Við skulum alltaf vera stolt af því að vera Íslendingar og við eigum eftir að sýna að við vinnum okkur út úr þessari raun eins og öðrum sem á vegi okkar hafa orðið, þó það kosti blóð svita og tár. Við erum nefnilega Íslendingar sem ekki gefumst upp.
Kær kveðja,
Einelti er ljótur siður hver sem í hlut á. Það finnst afa að minnsta kosti.
Heyr heyr! Alveg fáránlegt. Var einmitt að frétta af hópi kennara, frá grunnskóla hér á Íslandi, sem hugðist heimsækja nokkra skóla á Bretlandi nú í október. Búin að undirbúa ferðina lengi og í stöðugum samskiptum við gestgjafana. Á síðustu stundu, þá neituðu allir skólarnir að taka á móti kennurunum frá Íslandi... "Þeir" (Bretarnir) kunna að vera í stríði og vilja vera í stríði. Það er ekki hægt að skilja annað af þessu - ég meina, neita að taka á móti kennurum úr íslenskum grunnskóla...Kv. Silja
Skrifa ummæli