miðvikudagur, 29. október 2008

Held enn haus

Þrátt fyrir lélega stöðu mína í bloggheimum held ég sjó og líður bara nokkuð vel. Vetur konungur er mættur og var snjór yfir öllu í dag, og merkilegt nokk, ég fékk ekki í hnén við að sjá þann hvíta. Gæti aldrei búið á snjóþungum stað nema eiga þrúgur, fjallajeppa með stóru effi, snjósleða og sexhjól með keðjum. Yrði líka að eiga "snjósjálfmokara", vélknúinn, því ég myndi ekki nota minn bestahelming í þvílík verk. Ég er semsagt ekkert að huga að búferlum og lúxustækin eru víst auðseld til útlanda nú um stundir. Dettur mér þá hug allar þær vörur sem hafa verið svo auðfengnar, höfum við eitthvað þær allar að gera? Af hverju þarf maður að vera í kvíðakasti að velja á milli margra tegunda af tómatsósu? Af hverju dádýrs- og kengúrukjöt, og afhverju danskan kjúlla og írskar svínalundir? Að vísu búum við ekki til tómatsósu, en Íslendingar eru sjálfum sér nógir á matvælasviðinu. ---Kaupum íslenskt.--- Ég er að mörgu leyti gamaldags í matarstússi, og finnst búmannlegt að eiga mat í kistunni minni. (við erum svo heppin að hér er sláturhús) Vetrarforðinn tekur kannski í budduna á haustin, en mér finnst þetta betra. Er yfirleitt ekki komin fyrr en seint heim úr kennslu, og kvöldvinna 4 kvöld í viku. Þá er bara að fara í kistuna og ákveða daginn áður hvað borðað verður það kvöldið. Elda svo fyrir fjóra og hita upp afgang...Bingó... Ameríkufarinn er alinn upp við að þurfa að gefa jafnvel út seint að kvöldi hvað hafa skuli í matinn kvöldið eftir! Þetta fannst dóttlunni alltaf svolítið spaugilegt, en svei mér þá, nú á hún kistu! Kannski spyr hún þá bræður/eiginmann hvað þeir vilji hafa í matinn á morgun, hver veit? Með þessu matarkjaftæði verð ég að láta fylgja með að í fyrsta sinn á ævinni bjó ég til sviðasultu um daginn, og mikið hvað hún er góð! ---Svona í lokin er ég að velta því fyrir mér hverjum ég á að trúa, er nefnilega komin með upp í kok af ráðleggingum fræðinga. Það er eins og þetta blessaða fólk hafi ekki lesið sömu skólabækurnar. Ég lærði að 2+2 væru 4, og ekkert hægt að teygja það né toga. Nú ætla ég hinsvegar að trúa á sjálfa mig í einu og öllu, standa með mér og falla, og draga engan með mér í svaðið. Þar til næst.

11 ummæli:

Védís sagði...

Alveg sammála þér með matinn, vildi bara óska að ég ætti frystikistu til að geyma fullt af mat í, litli ísskápsfrystirinn minn er alltof lítill.

Nafnlaus sagði...

mig langar líka í frystikistu en hef ekki pláss fyrir slíkan grip:(

ég trúi engu sem verið er að bulla í mann í fjölmiðlum þessa dagana..

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Frystikistur eru góðar og mér finnst ég alltaf hafa áorkað einhverju þegar mín er vel útilátin :/ Ég elska ykkur, hafið það gott.

Nafnlaus sagði...

Ég á frystikistu og hún er eiginlega alltaf full:)
Elfa

Nafnlaus sagði...

ef ég ætti kistu, þá yrði hún fyllt af pizzum og einhverjum skyndimat... ég er bara ekki góð í því að geyma birgðir - kann það ekki þó það sé það sem ég ólst upp við!
vona að íslenski veturinn verði ekki þungur veðurfarslega séð, nóg er við að glíma án þess, jökkó bara...

Nafnlaus sagði...

Ég á líka frystikistu og er alveg að verða kominn upp á lagið með að taka upp úr henni deginum áður!(tók að vísu upp kjúkling í kvölmatinn klukkan þrjú í dag....spurning hvort ég ætti ekki í þessum töluðu orðum að skella mér í kjallarann til að taka upp mat fyrir morgundaginn)
Kveðja í fjörðinn fagra og já ég er sammála þér að það er alveg lykilatriði hér á Norðurlandinu að eiga bæði jeppa, vélsleða og gönguskíði til að lifa af þennan blessaða vetur, ætli að við verðum svo ekki bara að flytja austur ef við neyðumst til að losa okkur við þessar græjur í kreppunni?
kv. Helga Sigurbjörg

Syngibjörg sagði...

já það ku vera nauðsynlegt að eiga kistu þess dagana allavega er móðir mín á því og bennti mér á í sláturgerðinni um daginn að ég þyrfti að eignast slíkan grip.
málið er í athugun.

Nafnlaus sagði...

Æ, ég sé svo eftir frystiskápnum mínum sem ég hef ekki pláss fyrir á nýja staðnum. Er einmitt að velta fyrir mér jólabakstri og fleiru sem alltaf hefur farið í frost. En nú er bara að finna önnur ráð. Það er nú annars meiri myndarskapurinn hjá ykkur bloggvinkonum mínum, ein búin að gera sultu, önnur búin að gera sviðasultu. Mér finnst ég bara úr leik að vera ekki búin að gera neitt til vetrarins.
Ég sendi góðar kveðjur í fjörðinn fagra þar sem kistur eru fullar af góðgæti.

Nafnlaus sagði...

Það er gott að eiga mat í kistunni,
það er gott að vera bjartsýnn,
það er bara þokkalega gott að vera til! þrátt fyrir allt :)
Má ég setja link á þig á síðuna mína?
knús og kveðja Kristín Jónsdóttir

Nafnlaus sagði...

Það máttu Kristín mín. Gulla

Nafnlaus sagði...

Leiðinlegt að heyra með vandræði þín og síðuna mína :)
slóðin er www.123.is/nokkvi

Kveðja Íris