miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Algjört leyndó!

Það sem ég skrifa hér vil ég ekki segja nokkrum lifandi manni, því alþjóð veit er tveir vita. Það er alls ekki mér að kenna þótt einhver verði fúll vegna þagmælsku minnar, og hið rétta mun aldrei koma í ljós ef ég fæ einhverju ráðið. Ég ætla td. ekki að upplýsa hvar dóttir mín, þá ung að árum týndi fermingarfötunum sínum, ekki segja hvernig gekk á kvartettsæfingu í kvöld, ekki hvað ég set í jólapakkann til Ameríku og alls ekki hvernig mér leið í síðustu viku. Þetta er sko mitt mál, en ég veit þetta allt saman, og miklu meira. Ég kjafta semsagt ekki frá því ég held nefnilega trúnaðinn við mig, en hinir sem ekkert vita geta bara átt sig. ---Þessi inngangur er í takt við talsmáta ráðamanna þjóðarinnar. Yfirklór þeirra er afar sorglegt en bráðfyndið ef maður lítur þannig á málið. Ég hélt í barnaskap mínum að sandkassaleikurinn tilheyrði leikskólabörnum, en þarf greinilega að endurskoða þá trú mína á fyrirbærið. ---Hvað um það, hér er allt í góðu, (en látið ekki nokkurn mann vita af því ) og veðrið leikur við hvurn sinn fingur. Um helgina á ég frí að ég best veit, og ætla þá að baka smákökur, eta þær á síðkvöldum og drekka kalda mjólk með. Gjörssovel! ---Þeir segja að jólin byrji í IKEA, en ÉG veit að það er tómt bull, ef ekki bara eintómt samsæri. Ég fór í Húsó í dag til að "finna" þefinn af jólunum því búðin er full af jóla jóla. Ekki fann ég jólin, en sveif þess í stað á verslunarstjórann og bað hann um að gefa mér gamla, notaða og ryðgaða skeifu með fjöður í. (maðurinn er nefnilega hestamaður í húð og hár) Þarna datt ég niður á eina yndislega og þjóðlega jólagjöf, fer hún alla leið til Ástralíu og á að færa væntanlegum eiganda gæfu og gleði. (ekki segja frá ). Bráðum set ég svo upp hina helgu fjölskyldu með diskóljósunum. Þeir lesendur sem muna dramatíkina í kringum þau kaup "halda munn". Munið svo að þessi pistill er algjört leyndó þar til næst.

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ja þetta fer sko ekki lengra Guðlaug mín.
Kær kveðja,

Ameríkufari segir fréttir sagði...

tíhíhíhíhí-jeg skal hold mund og singe halelúja:)

Syngibjörg sagði...

hjá mér ríkir þögn- grafarþögn.

Nafnlaus sagði...

Ég sé að ég er komin hér á rúntinn þinn með réttri slóð og hvað eina. Ég reikna þá með að ég megi setja þína síðu á rúntinn minn eða hvað?

Leyndóið er vel geymt! :)

Kveðja Íris Gíslad

Lífið í Árborg sagði...

Ég verð að játa að ég er ein af læðupokunum sem laumast við að lesa bloggin ykkar mæðgna en laumast svo í burtu án þess að láta vita af mér. Reyni að bæta úr þessu á næstunni. Þú gætir ef til vill fundið smá-jólaþef ef þú ferð inná jólalista Þórunnar, hann er kominn á sinn stað.
Bestu kveðjur og áfram með jákvæðu fréttirnar.
Þórunn í jólakotinu í Portúgal

Álfheiður sagði...

Við Kristjana erum að vinna í nótunum :o)
Þú færð þær fljótlega!

Nafnlaus sagði...

týndi svanfríður fermingarfötunum? ég held ég hafi falið mín þegar mamma vildi að ég nýtti þau nú betur við næstu hátíðarhöld... (getur verið að hún hafi bara falið þau?)

bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegur pistill sem er vel geymdur :)

Kveðja Inda

Nafnlaus sagði...

Jólin byrja í hjarta okkar, hvergi annars staðar .. nema þá kannski eftirvæntingin í augum barnanna :) Knús á þig og ég þegi um pistilinn. Elsa Lára sem er komin með jólagleði í hjartað.

Nafnlaus sagði...

afi segir ekki eitt aukatekið orð. Fæst orð minnst ábyrgð. Hafðu það og hananú.

Nafnlaus sagði...

Sæl Gulla. Ég rakst á síðuna þína í haust og hef haft mikið gaman af því að fylgjast með skrifum þínum. En hálfskammast mín fyrir að kvitta ekki fyrir, líðanin er svona eins og maður sé að stelast í eitthvað sem er bannað. Ég kíkti í Húsasmiðjuna á Selfossi á fimmtudaginn ásamt mínum karli, rétt eins og þú. Það sem við höfðum upp úr þeirri ferð var röfl, hróp og köll í drukknum jólasveini, vonandi eru bræður hans tólf ekki eins hryllilega leiðinlegir. Þá hefði ég nú frekar þegið skeifu og það heilan kassa af þeim. Með kveðju frá Eyrarbakka, Súsanna Torfa.

Nafnlaus sagði...

segi engum að ég hafi lesið þennan stórgóða pistil, vona að þið hafið það gott um helgina:)

Nafnlaus sagði...

Auðvitað fer leyndóið ekkert lengra.. Hér er grafarþögn og allt löngu gleymt.. ;)

kollatjorva sagði...

Hæ Gulla
Langaði bara að kvitta fyrir mig, er nýbúin að finna síðuna þína aftur..
Góðir pislar hjá þér og bestu kveðjur heim.
Kolla Tjörva