miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Ja nú er (s)-tuð.

Takk fyrir innlitið síðast, mér þótti vænt um það. Mér finnst að fólk ætti að vera duglegra að kvitta fyrir kaffið, og þá sérstaklega þeir sem segjast vera svokallaðir laumulesarar. Það er víst nóg um laumuspil í okkar annars ágæta landi! Eins og flestir, ef ekki allir er ég fyrir löngu orðin gáttuð og þreytt á fréttaflutningi/leysi dagsins, og hef tekið þann pól í hæðina að trúa engum í stöðunni. Ætla því að taka þessu með æðruleysi og sjá til, en finnst það fúlt. Reiði sem slík er ekki í mér, en mér ofbýður sukkið og óheiðarleikinn sem dúkkar upp á hverjum degi. Fréttamiðlar verða að gæta að því hvað þeir láta í loftið þó svo að þeirra skylda sé að upplýsa okkur, en það er allt á neikvæðum nótum. Ég veit að málin eru grafalvarleg, en það er bara fullt af fólki í þjóðfélaginu sem blátrúir öllu og þolir ekki svona neikvæðni daginn út og inn, og það dugir ekki að segja þeim að hætta að hlusta, þetta smýgur allsstaðar. Í síðustu viku fór ég nokkrum sinnum inn á heimasíðu okkar Hornfirðinga, hornafjordur.is og þar voru eingöngu góðar og spennandi fréttir. Ekki rötuðu þær í ísl. fréttamiðla. Hér er uppgangur, bæjarfélagið stendur vel, næg atvinna og mannlíf gott. Þórbergssetur fékk merka viðurkenningu á dögunum, Matís líka, Nýheimar/þekkingarsetrið fékk flotta viðurkenningu+ Hótel Höfn. 7.bekkingar í grunnskólanum urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð í Lego, og Sinfó kom í heimsókn. Í fyrra héldum við UMFÍ landsmót og landsmót ísl. kvennakóra, en hvorugt komst í fréttir nema í pínulitlu framhjáhlaupi. Það nefnilega var enginn drepinn! Eins var það á UMFÍ landsmóti í Þorlákshöfn í sumar sem leið. Ég er þess fullviss að góðar fréttir eru víðar en hér, en ekkert fréttist af því sem gott er og vel gert. Vissulega get ég tuðað vel og lengi um þetta, en læt staðar numið. Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir Pétri H. Blöndal eitthvað gáfulegt, og hann titlaður þingmaður Samfylkingar...Missti ég af einhverju af því að mér leiðast fréttirnar? Hafið það gott elskurnar og afsakið (s)tuðið þar til næst.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

haha, Pétur Blöndal í Samfylkingunni, góður þessi:D

Nafnlaus sagði...

það var þá eitthvað nýtt! Ekki að fólk geti ekki séð að sér :P

Nafnlaus sagði...

Heyr,Heyr. Gaman að heyra hvað það er bjart yfir firðinum þínum fagra. Það mætti vel koma með jákvæðar fréttir af þeim stöðum þar sem allt gengur vel. Ég finn á öllu að við höfum svipaðar skoðanir á þessu öllu og viljum ekki að allt leysist upp í æsing og látum. Látum hverjum degi nægja sína þjáningu, en reynum samt að breyta honum í eitthvað gott og skemmtilegt.
Ég sendi þér góðar kveðjur :)

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Blessuð mamma mín. Vonandi ertu orðin spræk sem læk(ur) og hress sem fress:) Góðar fréttir eiga alltaf að eiga upp á pallborðið-ég hef oft hugsað til þess að ég væri til í að stofna dagblað/vefsíðu sem kæmi bara með góðar fréttir...líklegast myndi enginn kaupa það samt:/
hafðu það gott og við heyrumst.

Nafnlaus sagði...

Það fúla er að góðar fréttir virðast aldrei rata í fjölmiðlana, því fréttir eru ekki fréttir nema þær séu slæmar..
Ég er svo fegin að búa ekki heima eins og ástandið er í dag að ég prísa mig sæla á hverjum degi.. ég reyni eins og hægt er að forðast íslensku fréttasíðurnar en kíki þó stundum við á 245.is þar sem bæjarlífi hins ofurfagra Sandgerðisbæjar eru gerð góð skil..
(okei, kannski fegurð og Sandgerði fara ekki of vel saman, en hverjum þykir sinn fugl fagur).. ;)

Bestu kveðjur frá Sikiley..

Nafnlaus sagði...

ég mæli með því að þú gerist frístundaritari, skrifir greinar í stóru blöðin með stórtæka titla sem ekki er hægt að missa af... fyllir greinarnar svo af góðu fréttunum sem þú finnur - og ert greinilega góð í að finna! og ég held að tækifærið sé núna, landann sárvantar, og þráir án nokkurs vafa, að lesa eitthvað jákvætt - eitthvað gott!

(ég fékk einhverskonar vakningu fyrir ástandinu þegar ég horfði á spaugstofuna - á netinu - í gær)

erfitt að trúa því að þessar umræður séu um landið sem hefur verið að flagga góðæri svo lengi...

"Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig"
kveðjur

Nafnlaus sagði...

Gulla mín. Á mínu heimili er mikið til slökkt á útvarpi og fréttum því ég vil ekki að börnin mín upplifi allt þetta neikvæða sem er í gangi. Auðvitað þurfa þau að vita að það er ekki hægt að kaupa allt og gera allt, enda felst hamingjan ekki í því.
Það þarf að koma með eitthvað jákvætt í fréttum og því miður úr bænum mínum eru bara neikvæðar fréttir sem rata inn á borð fréttaritara. Mætti halda að allt væri að fara í rass og rófu hérna á Skaganum miðað við fréttirnar sem koma héðan.
En ég verð samt að viðurkenna að ég er bálreið út í yfirstjórn bankanna, stjórnmálamenn og aðra ábyrgðaraðilla hvernig fyrir okkur er komið. En veit það borgar sig ekki.
Knúsur, Elsa Lára.

Nafnlaus sagði...

Halló sammála Svanfríði það myndi sjálfsagt ekki vera lengi við lýði jákvætt og skemmtilegt fréttablað. En hérna megin er bjart framundan allavega hjá okkur. Bestu kveðjur til ykkar Bróa frá okkur Sigga í DK Svava

Nafnlaus sagði...

Ég er ein af laumulesurunum(skamm)
Þú skrifar svo skemmtilega og vel.
Sé núna hvaðan dóttirin hefur
þetta :-)

Les frekar bloggið þitt en Moggann!
Kv. frá Colorado fylki.
Sísí Braga