laugardagur, 29. nóvember 2008
Stígvél og fleira gott!
Þrátt fyrir góðan ásetning líður of langur tími til skrifa, en nú skrifta ég. Fyrir nokkrum vikum kom hér góð vinkona í heimsókn í þessum líka flottu gúmmístígvélum, eldrauðum með svörtum hulsum, reimum og alles. Ég bókstaflega slefaði yfir túttunum háu og einfaldlega varð að eignast eins! Vinkonan reddaði kaupunum og mikil varð ég glöð þegar sendingin kom. Hins vegar er ég alltaf að bíða eftir veðri og færð til að nota dýrðina, varla get ég plampað á þeim rauðu í sól og blíðu. Ég bara máta þau reglulega og dáist að þeim. Síðasta sunnudag fór ég með kvartettinn minn í söng á Breiðdalsvík, hávetur og örugglega not fyrir tútturnar. Nei, ónei, dandalablíða, og alls engin túttufærð. Ég, sem þoli ekki vonda færð er farin að bíða eftir slyddu og snjó! ---Ég hef ákveðið að aflétta leyndóinu úr síðasta pistli, og láta allt í loftið.---Er nánast búin að baka, jólapakkinn til Ameríku farinn, skeifan fer eftir helgi til Ástralíu og ég er búin að læra þá músík sem fyrir liggur. Íslensku jólasveinarnir komnir í glerskápinn, folaldið (dautt náttúrulega) skorið og hakkað, (síðurnar af dýrinu fékk krummi) og síðast en ekki síst, Jesú og fjölskylda með diskóljósunum er komin á nótnaskápinn, og fallegi jólabangsinn gægist undan flyglinum. Mikil herlegheit! --Nú er tíminn sem ég sakna, altso aðventan. Ég aflétti leyndóinu og viðurkenni hér með að ég sakna litlu fjölskyldunnar í bláa húsinu, og það verulega. Nú hefst tími stóra kökksins, en honum kyngi ég ekki fyrr en á jólanótt. Þá er einhvernveginn sá tími liðinn, og ég get farið að hlakka til að fara í bláa húsið. Tíminn líður nefnilega svo hratt segir Pollýanna mér reglulega. Kæru vinir þarna úti, látið ykkur líða vel þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Sæl Gulla mín! Ég skil vel að þú hafir kökk í hálsinum. Það er rétt hjá þér að tíminn líður hratt og fyrr en varir verður þú líka komin í bláa húsið og það verður gaman og örugglega mikil gleði framundan hjá ykkur. En jólin er jú tími fjölskyldunnar og erfitt að vera án fólksins síns. Ég fæ hana Þórdísi mína til okkar hingað þann 18 des og get varla beðið eftir henni. Góða skemmtun á aðventunni þetta verður örugglega gaman eins og alltaf hjá ykkur söngfólki í desember. Knúsaðu Jólasveininn þinn frá okkur í DK þín Svava
Þetta með kökkinn skil ég vel kæra frú. Ég fékk eiginlega kökk þegar ég las um kökkinn! Ég bíð hins vegar spennt eftir slyddu og snjó svo maður fái að berja flottu rauðu tútturnar augum.....
Kveðja Íris Gíslad
svakalega langar mig að sjá mynd af þessum bomsum, til hamingju með þær!
Gleðilega Aðventu*
Bestu kveðjur frá Þýskalandi*
Guðrún
Gaman að heyra frá þér, það kom engin færsla síðasta miðvikudag eins og vanalega.
Svona er maður vanafastur.
ohhh þessi kökkur, erfiður með eindæmum!! en pollyanna hefur rétt fyrir sér, um leið og jólin/áramót eru liðin - er eitthvað svo stutt í vorið!
vona að ég standi upp núna með jólaundirbúningsorkuna þína í mig þrædda - þarf svo að fara koma mér að verki!
bestu kveðjur
Ég segi eins og hinir, mig langar í mynd af þér í túttunum og mér finnst að þú ættir að vera með jólasveinahúfu líka:)
Hvað segirðu??? Kökkur-kannast ekki við hann, hjá hvorugri okkar. Skil ekkert hvað þú ert að tala um kona:)luf jú.
Í sambandi við stígvélin þá hef ég eina uppástungu - prufaðu að setja þau í gluggann. Aldrei að vita hvað gerist, ha,ha.
Ég hef hinsvegar ekkert ráð til þess að losa þig við kökkinn. Hann er nokkuð sem enginn annar getur læknað - nema kannski Pollýanna og sé sé að þið eruð góðir vinir svo þetta verður allt í lagi.
Góða aðventu Guðlaug mín.
Kær kveðja,
Skrifa ummæli