þriðjudagur, 19. maí 2009

Hugleiðingar um strák.

Fyrir nokkrum árum fékk ég nemanda sem langaði að læra á hljóðfæri. Ég var óörugg, og nokkuð viss um að ég gæti ekki staðið undir væntingum hans. Samt fór það svo að við byrjuðum. Þá var ég búin að undirbúa mig, að ég hélt, en bara að einu leyti: Ég betrekkti einn veginn í stofunni með öllum nótnatáknum sem þurfti til að veggurinn fylltist! Hugsaði með mér að þetta væri gott fyrir alla nemendur. Stráksi kenndi mér margt, hann t.d. sagði mér hvenær ég var orðin svöng, ég lærði að kúrekaglás væri bragðgóð, hann kenndi mér allt sem ég gat innbirgt um Malasíubrautina, hann kenndi mér hreinskilni og hrekklausa gæsku, og hann þoldi mig ekki væri ég í rauðum fötum í kennslustund.-- Það var altso vont.-- Í nokkur ár kom vinur hans alltaf með honum, en beið frammi og þeir röltu svo saman til baka. Eftir fyrstu önnina kunni stráksi allt betrekkið utanbókar! Sjónminnið alveg brilljant, takturinn er honum í blóð borinn og gáfurnar í besta lagi. Stráksa líkar ekki þegar ég veikist, eðlilega, því þá hleypur kannski einhver annar í skarðið ef vel liggur á mönnum. Svo var komið að fyrstu tónleikum þar sem minn maður lék einleik. Ég sat svona til hliðar með smá hnút og var til taks. Í dag er ég ennþá á hliðarlínunni, hnútlaus að mestu, en stráksi þarf mín varla með. Sér einfaldlega um hlutina sjálfur. Nú er strákurinn minn orðinn jafnhár mér og kemur alltaf einn í tíma. Búinn að segja vininum upp! Hann þolir mig ekki ennþá í rauðu, og er ég farin að hallast að því að sá litur einfaldlega klæði mig bara alls ekki. (fyrir utan rauðu bomsurnar!) Núna á dögunum spilaði þessi nemandi minn fyrir bláókunnan prófdómara og gerði það með bravör, og stefnum við á grunnpróf á vetri komanda. Af hverju er ég að skrifa þessar hugleiðingar? Jú, þessi vinur minn og nemandi hefur sýnt það og sannað að þrátt fyrir einhverfu getur maður gert það sem kennarablókin taldi í upphafi nokkuð ljóst að ekki væri hægt. Sem betur fer erum við ekki öll eins, en við eigum að geta lifað og leikið saman. Þar til næst kveð ég úr hornfirsku vori.

11 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Og hugsaðu þér að hér einu sinni voru þeir sem ekki voru eftir "norminu" faldir,settir hjá og látnir eiga sig að mestu.
Þú átt tugi nemenda sem þú hefur kennt í gegnum árin en ætli þessi góði nemandi sé ekki einn af þeim sem virkilega skilur mikið eftir sig.Hann sprengdi kúrfuna:)

Elísabet sagði...

þetta er falleg frásögn, takk!

Stella sagði...

þú ert yndisleg!

Maja sagði...

Frábær frásögn hjá þér Gulla og flott vinna sem að þú hefur verið að gera þarna. Svona skrif hjálpa til að vinna á fordómum gegn þeim sem eru öðruvísi, því að öll höfum við eitthvað fram að færa sama hvernig við erum. Gaman að fylgjast með hvað þú ert að gera flotta hluti kv.Maja

Hanna sagði...

Jæja Gulla mín, það var gaman að lesa þessa frásögn þína. Þú átt þinn stað í hjarta þessa drengs og mínu líka. Takk fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir hann og okkur. Í byrjun tónlistarnámsins vissum við ekki hvort það myndi ganga, en þú vildir taka þetta verkefni að þér og við vitum öll hvaða árangrin drengurinn hefur náð. Þú færð stórt knús frá okkur. ÞÚ ERT FRÁBÆR

Íris Gísladóttir sagði...

Falleg frásögn hjá þér Gulla. Svo vill til að ég þekki stráksa, sem varla er hægt að kalla stráksa lengur og foreldra hans. Þú hefur unnið gott starf með honum og þið lært mikið hvort af öðru. Ég veit líka að þið hafið gert nokkuð sem margir, alltof margir töldu að væri ekki hægt. Þetta er duglegur strákur og hæfileikaríkur, og ég held að hann hafi hitt fyrir góða konu þegar hann kynntist þér, konu sem viðurkennir hann eins og hann er.

Nafnlaus sagði...

:)

Nafnlaus sagði...

Yndisleg frásögn Gulla mín, ég bara táraðist. Ég þekki þetta svo vel í minni dömu. Hún t.d. þolir mig alls ekki í karrýgulu og blágrænu ;) Segir að hún þoli mig ekki þannig. Á dögunum fór rautt líka á bannlista en stoppaði nú alls ekki lengi þar ;)
Hún hefur fengið frábært tónlistaruppeldi á leikskólanum sínum og nú er komið að leiðarlokum þar og grunnskólinn að taka við. Daman vildi fara í tónlistarskóla og núna er búið að innrita hana í blokkflautunám í forskólanum þar og við sjáum til hvernig það mun ganga. Og svo á hún erfitt með að ákveða sig ... vill fá að spila á klarinett (kann ekki að skrifa þetta) eða þverflautu eða fiðlu. Eða bara allt eins og hún sagði áðan ... en ég held ekki. Finnum eitt gott ef vel gengur.
Jæja, þetta er orðin heil ritgerð hérna hjá mér. Bara yndisleg færsla.
Þessar elskur með einhverfuna geta svo margt og gefa okkur svo margt. Og ég þoli alls ekki fordóma í garð þeirra, sem ég er því miður enn að rekast á ... seinast í gær :/ og þá varð ég bara reið.
Knúsur til þín kæra vinkona, Elsa Lára.

Kristbjörg sagði...

Ég ,sem betur fer, lærði fyrir löngu að einstaklingar sem glíma við hinar ýmsu fatlanir eru yfirleitt bestu kennararnir. Þeir kenna okkur að taka því sem berst, bjóða hinn vangann og meðtaka gleðina. Hafa verið mínir bestu kennarar í lífinu. Verst er að þó margt hafi breyst þá eru þessir einstaklingar enn "faldir" í þjóðfélaginu. En þetta var falleg frásögn og ég veit að þú hefur þolinmæði og gæsku til að sinna og kenna þeim sem þurfa kannski aðeins meira en við hin :)

Hugskot sagði...

Takk Gulla mín :) Ég á reyndar einn lausan tíma 9. júní klukkan 13. Tek hann frá fyrir þig :)Ég vona að það gangi upp - langar mikið til að hitta þig! Sendu mér staðfestingu á toggam(hjá)simnet.is

kærust kveðja til þín og dótturinnar :*

Nafnlaus sagði...

Þetta fannst mér hugljúf frásögn, ég óska þér til hamingju með að taka að þér þetta verkefni og drengnum til hamingju með að hafa fengið að njóta tilsagnar þinnar. Kær kveðja úr Kotinu, Þórunn