sunnudagur, 17. maí 2009

Skólalok og fjör (ur)

Síðan síðast hefur mikið gengið á. Próf og glæsileg skólaslit með óvissuferð kennara á eftir. Hér á Hornafirði er boðið upp á ýmislegt til afþreyingar, og þar á meðal fjöruferðir. Ég lét mig hafa það og skemmti mér sennilega betur en allir aðrir. Það er nefnilega svo að það sem flestir telja auðvelt getur vafist fyrir mér. Skemmst er frá að segja að ég fór í litlum báti yfir fjörðinn, og lærði á fjórhjól sem ég keyrði svo alveg sjálf! Ég var afar varkár en komst samt það sem hinir komust þótt færi aðeins hægar yfir. Yndislegt veður, sól og regnbogi þótt engin væri/kæmi rigningin, jöklahringurinn óendanlega fallegur og krían í þúsundatali. Þarna á fjörunum átti ég heiminn, og þið sem hingað komið verðið hreinlega að upplifa þessa stemningu.--- Í gær fór ég svo með oktettinn minn í tónleikaferð austur á land og heppnaðist allt mjög vel, og þá er bara eftir að klára upptökur með þeim. Síðustu tónleikar þetta vorið verða svo með Gleðigjöfum 21. maí og tónleikaferð þeirra 26. maí. Ég held svei mér þá að ég loki hljóðfærinu eftir það og taki til við að huga að Ameríkuferð okkar bestamanns. Þetta er að verða gott þennan veturinn.--- Smá hugleiðingar um fésið.... Bestimann er þar en stundar fyrirbærið lítið, það er helst ég sem stelst til að kíkja á hana dóttlu mína, en svona örskeytaháttur á ekki við mig, og ætla því að halda mig við pistlaskrif af og til. Hvort einhver nennir að lesa er svo annað mál, en vænt þykir mér um heimsóknirnar. Þar til næst kveð ég úr undurblíðu og segi enn og aftur: það var fjör á fjórhjóli á fjörunum.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Langt síðan ég hef kíkt hérna inn. Frábært að skella sér í fjöruferð, fór í þannig fyrir 3 vikum síðan og það var æðislegt, útsýnið, sjórinn í kring og allt saman.
Bestu kv austur og gangi þér vel Gulla mín.
Kv. Elsa Lára.

Guðlaug sagði...

Kossar og knús á fjórhjólakappann!

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þetta var ég mamma mín,gleymdi að skrá mig út.

Védís sagði...

Ég hef alltaf sagt það, þið hafið eitt fallegasta útsýnið á landinu og kríurnar eru fallegustu fuglarnir að mínu mati, sama hversu háværar þær eru.

Þú tekur þig vel út á fjórhjólinu.

Stella sagði...

glæsileg á fjórhjóli - þetta hlýtur að hafa verið frábært...

bestu kveðjur

Íris Gísladóttir sagði...

Ég er búin að prófa svona fjöruferð og er sammála þér þetta var æðislegt. Frábært að þú skulir ekki láta neitt stoppa þig, og þú tekur þig ljómandi vel út á fjórhjóli.

Nafnlaus sagði...

Það er gaman að sjá þig á fjórhjólinu, þetta hefur verið mjög gaman.
Ég er sammála þér með fésbókina, það á ekki vel við mig þessi stuttorða stíll. Þú skilur mig þegar þú lest bloggið mitt.
Bestu kveðjur
Þórunn