Hét mér því að gefast ekki upp á skrifunum, né að heimsækja aðra bloggvini. Ræð ekki við fésið, en fésið á mér brosir hringinn. Undanfarin svo svo mörg ár höfum við bestimann farið til Spánar og safnað orku fyrir veturinn. Áttum kost á því núna fyrir lítinn pening, en þegar til kom gat ég ekki réttlætt evrukaupin. Litli púkinn á öxlinni hvíslaði ekki einu sinni: þú skalt! Þess í stað drifum við okkur í gott ferðalag innanlands, og erum ennþá brosandi yfir því. Í tíu daga vorum við í steikjandi sól og brakandi blíðu, en sjaldnast á sama stað lengi, eða á sömu torfunni. Skilyrði í svona ferðalagi er að vera skemmtilegur og frjór og taka því sem að höndum ber með brosi á vör. Það var auðvelt. Kaldidalur á brokki var æfing fyrir vegi á vestfjörðum, en mikið var hann fallegur. Enduðum hjá elskulegum bróður og mágkonu fyrir vestan. Við vissum ekki hvort af öðru fyrr en fyrir 10 árum eða svo, en þar er gott fólk á ferð. Sigldum út í Flatey, keyrðum í Breiðuvík og að Látrabjargi hvar ég kíkti niður í óendanleikann og klöngruðumst niður í franskt kaffihús á Rauðasandi. Á þeirri leið taldi ég á mér tærnar fram og til baka og komst að því endanlega að ég hef 10 flottar tær. Mér var sagt að útsýnið værir stórkostlegt, og ég dreg það alls ekki í efa! Tókum með okkur smávegis af rauðum og hvítum sandi sem sómir sér vel í eldhúsglugganum við hliðina á þeim svarta sem við búum við á mínu horni. Alls staðar var okkur vel tekið og þjónustan hvar sem við komum var óaðfinnanleg, sem gerði okkur kleift að takast á við Kjöl. Það var eins gott að ég er ekki ófrísk því þá hefði farið illa, en fallegur var fjallahringurinn. Heyrðum svo í útvarpinu daginn eftir í manni sem var á sömu leið og við bölsótast út í Vegagerðina fyrir þennan óþverra veg! Halló....það hafði ekki ringt í margar vikur og þetta er jú fjallvegur sem vitað er að er VONDUR. Maður keyrir bara á 30-40 og syngur fjallalög. Með augun full af ryki og nefið af skít lentum við eftir dúk og disk á yndislegu gistiheimili á Flúðum, Grund. Mæli með því. Yndislegt viðmót og huggulegheit einkenna fólkið sem þar ræður ríkjum. Ég hef ekki í mörg ár verið eins uppnumin af því að ferðast um landið mitt eins og núna. ---Spánn má bíða.--- Maður veit ekki hverjir ramba hér inn, en þeir sem lesa og hugsanlega hýstu okkur og fóðruðu til líkama og sálar eiga miklar þakkir skildar. Lífið semsagt leikur við hvurn sinn fingur og smitar okkur bestimann. Þar til næst kveður frúin með fallegu tærnar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
10 ummæli:
Gleymdi. Neðri myndin er af okkur systkinunm en hin skýrir sig sjálf. ég sjálf.
Myndirnar eru skemmtilegar og mjög gaman að sjá ykkur systkinin saman á neðri myndinni.
Þetta var ég mamma mín.Gettu nú hver:)
Heil og sæl Gulla, mér fannst skemmtileg frásögn þín af ferðalaginu, þar kemur ljóslega fram að allt verður auðveldara ef jákvæðni er með í för. Falleg er myndin af þér og bróður þínum, svo munaði litlu að þið hittuð Halldór bróður minn sem rekur golfvöll og veitingaskála á Efra Seli, rétt hjá Flúðum, þeir bestimann hefðu líklega haft gaman af að hittast. Kær kveðja úr kotinu með nýja heimasíðu.
Gott að heyra að þið áttuð gott ferðalag, við eigum sko mjög fallegt land og um að gera að vera ekki að æða út fyrir landssteinana þegar gengið er svona eins og það er.
Kveðja úr kuldanum í Aðaldal
Helga Sigurbjörg
svona jákvæð kona eins og þú Guðlaug getur ekki látið sér leiðast. eða það held ég að minnsta kosti:)
Hálendið er fallegt - en það mun fallegra á vetri til þakið snjó :)
Kveðja Inda
Gaman að lesa um ferðalagið ykkar. Það jafnast sko ekkert á við að ferðast um fallega landið okkar og ekki verra þegar það er gert með svona jákvæða hugarfari.
Kær kveðja,
já það jákvæða við "ástandið" er að nú eru Íslendingar loksins að skoða torfurnar sér næst - sem kannski hafa verið yfirlitnar vegna trúar um að "grasið sé grænna" hinum megin! gott að þið áttuð góðar ferð - veðrið á landinu er sko ekkert ofsalega íslenskt í sumar ef þannig má að orði komast, ég allavega er dekkri en ég hef lengi verið...
bestu kveðjur
Yndislegt blogg. Langt síðan ég hef kíkt :)
Frábært að koma vestur. Ég fór í fyrsta sinn á Rauðasand í vor og það var frábært. Systir tengdamömmu er með kaffihúsið þar og mér finnst þetta æðislegur staður :) Vegurinn þarna niður er ekki jafn æðislegur :) En kannski sjáumst við eitthvað á Hornafirði. Ætla að skella mér austur á morgun og stoppa fram að næstu helgi :) Bestu kv. Elsa Lára (sem er byrjuð að blogga aftur) :)
Skrifa ummæli