föstudagur, 28. ágúst 2009

????

Ja það er spurning. Getur verið að það séu ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum eða er ég sú óskipulegasta sem um getur? Allavega þá flýgur tíminn og ég veit eiginlega ekki hvert hann fer. Síðan síðast hefur verið nóg að gera. Um verslunarmannahelgina skruppum við bestimann í smá ferðalag. Komum við á hóteli nokkru til að seðja hungrið, en vorum ekki á matmálstíma svo ekkert varð úr því. Eftir nokkra stund breiddist mikið bros yfir "andlit staðarins" og ég spurð/tilkynnt: Nú, þú ert bara með hækjur! --Hreint eins og ég hafi ekki vitað af því. --- Jamm, mér varð svarafátt, en var alveg komin að því að tilkynna andlitinu að það hefði gleraugu á nefinu. Óttalega hvað fólk getur verið eitthvað tvöþúsundogsjö! Einu sinni var mér meira að segja hrósað fyrir góðan píanóleik, og verandi á tveimur hækjum! Getið þið toppað þetta kæru vinir? --- Þrátt fyrir allt er ég ánægð með mínar hækjur og er byrjuð að kenna. Sumarið var yndislegt og er bara gott að byrja hina venjulegu vetrarrútínu endurnærð á sál og líkama. Ég skrifaði einhverntímann hér á síðuna að ég væri ættleidd og síðan tekin í fóstur. Blóðlega á ég alveg helling af systkinum sem ég þekki ekkert eða lítið, enda flestir búsettir andfætis. Núna eru hjá mér tvö af þessum ættboga og er það dulítið "eitthvað", en búskapurinn gengur þó mjög vel. Það sem ég á sennilega við er að ég vildi óska að fjölskylduflækjur væru ekki til í henni veröld, en mér verður aldrei að ósk minni í þeim efnum. Í æsku var ég aldrei lík neinum svo ég vissi til, en í dag veit ég að ég á mér marga tvífara, og svo er einnig um dóttlu mína. Tvífararnir búa bara í annarri heimsálfu. Þetta með eplið og allt það er sennilega engin vitleysa. --- Elskurnar mínar, á morgun, höfuðdag eru 33 ár liðin síðan við bestimann létum skíra dóttluna okkar, og hvort sem þið trúið því eða ekki heitir hún í höfuðið á mér! Þar til næst....

7 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Kæra nafna!Þó mér þyki erfitt að venjast nýjum ættingjum þá er það ekkert í samanburði við það sem þú gekkst í gegnum. Þetta með að ég er afi minn á vel við:)Best við allt þó er að ég ber nafnið þitt og á eftir allt saman,nöfnu.Ég elska þig:)

baun sagði...

fjölskylduflækjur geta verið ærnar og erfiðar, en maður verður samt að hafa í huga að maður velur sér ekki ættingja.

gott þetta með hækjurnar, athyglisgáfan greinilega í lagi hjá "andlitinu"

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa. Hafðu það gott mín kæra. Gangi þér vel í kennslunni. Bestu kv. Elsa Lára.

Íris Gísladóttir sagði...

Fegin að þú getir spilað á píanó þrátt fyrir hækjurnar :) þó ég skilji ekki alveg hvernig þær eigi að koma í veg fyrir það, en það er allt annar handleggur!
Ég finn bara alls ekki út hvernig hún Svanfríður heitir í höfuðið á þér, kannski ég sé bara svona takmörkuð :) Það væri nú gaman að lesa söguna af því á síðunni.

Góður pistill og til lukku með skírnarafmæli nöfnu þinnar.

Álfheiður sagði...

Bara að kvitta fyrir mig!

Lífið í Árborg sagði...

Þær eru ekkert grín þessar fjölskylduflækjur, en eitt veit ég að þú ert alin upp hjá góðu fólki sem var líka gott við mig, barnunga að ala upp barn. Og eitt enn, ég get ekki spilað á píanó þó ég noti ekki hækjur. Kveðjur úr sólinni í Kotinu. Þórunn

Nafnlaus sagði...

Do you have a spam problem on this blog; I also am a blogger, and I was wanting to know
your situation; many of us have created some nice procedures and
we are looking to swap methods with others, please shoot me an e-mail if interested.


Also visit my page :: online blogs