föstudagur, 20. nóvember 2009

Ferð til fjár!

Jú, jú, við bestemann komumst til Reykjavíkur þrátt fyrir darraðadans í Öræfunum. Það er svosem ekki í frásögur færandi þar sem krákan ég er á ferð.
Mig langaði helst til að snúa við en Ástardrykkurinn og fleira lokkaði. Ég fyllist alltaf lotningu og tilhlökkun þegar ég fer í Óperuna. Þar hef ég aldrei orðið fyrir vonbrigðum með það sem ég hef séð og svo var líka núna. Við eigum þvílíkar listaperlur, perlur sem verða láta sér nægja óviðunandi aðstæður. Mikið hlakka ég til þegar söngvarar og hljóðfæraleikarar fá almennilegt hús til að vinna í. Ég hafði nokkrar áhyggjur að tónsprota hljómsveitarstjórans á tímabili þegar bífur kórmanna dingluðu niður í gryfjuna, en auðvitað slapp það, því listamennirnir þekkja hvern millimetra í þessu húsi. --Yfir einu er ég þó hugsandi.--- Þarf endilega að selja vín í Óperunni? Sessunautur minn hefði betur setið heima með sitt vín. Ég á bágt með að líða þegar fólk kemur of seint, sendir sms og vill hjálpa hljómsveitarstjóranum að hafa hemil á sínu fólki. Allt þetta og fleira truflandi gerði sessunauturinn og uppskar olnbogaskot frá mér tvívegis. Mér finnst leiðinlegt að siða til fullorðið fólk. -- Hildigunnur, ef þú rekst hér inn skilaðu þakklæti til Giannettu.---Við bestimann fórum svo í Hallarmúlann að skoða og mynda Völuspá dóttlunnar, og mikið hvað við vorum stolt af hnátunni, og vona ég að þessi frumraun hennar skili sér í fleiri verkum. --- Ýmislegt annað gerðum við, en mikið hvað ég var glöð að komast heim. Við utanbæjarmenn tölum gjarnan um stress í Reykjavík, en sennilega eru það við sem sköpum mesta stressið. Við ætlum nefnilega að gleypa allt á tveimur dögum í öllu kraðakinu og helgarumferðinni. En heima er best, sama hvar svo sem við búum, en hér líður mér best og ætla ekki suður fyrr en vorar! --Mikil annavika er á enda og ef veður leyfir á morgun ætla ég að "skutlast" eitthvað í mínum fjallagalla og kaupa bland í poka fyrir Ameríkuguttana mína. Farið varlega út í helgina þar til næst.

10 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Halló.Gaman að sjá nýjan pistil og gott að þið séuð komin heim.Góða skemmtun á fjórhentu tónleikunum á morgun.Lufjú.

baun sagði...

Meiri dónaskapurinn í sumu fólki að vera að vesenast þetta í óperunni. Vona að olnbogaskotin þín hafi verið föst og ákveðin. Til hamingju með diskinn hennar Svanfríðar, ég verð að næla mér í eintak:)

Védís sagði...

Þetta líkar mér, gefa olnbogaskot ef fólk getur ekki hagað sér almennilega.
Ég hefði líka gert þetta.
Það var gaman að rekast á ykkur í Rúmfatalagernum.

Nafnlaus sagði...

Hjartans mín, við spiluðum dágóða stund og skemmtum okkur vel. Baun, takk fyrir, og þú og Védís, skotin voru svona 3 á Richter. ég sjálf.

Nafnlaus sagði...

Velkomin úr frægðar för. Já afi segir að dónaskapurinn og eigingirnin ríði ekki við einteyming í henni Reykjavík. Það getur sosum verið að það tíðkist líka á öðrum bæjum. Ekki veit sá gamli. En hitt veit hann að það getur verið ansans ári kvasst í Sveitinni milli sanda. Fauk ekki vegarklæðnin þar fyrir nokkrum árum. Og var það ekki sveitungi þinn fjallagrasa bóndinn sjálfur sem festi það á filmu? Bestu kveðjur á Hornarfjörð, afi. Verst að sjá ykkur ekki fyrir sunnan. En koma tímar koma ráð.

Íris Gísladóttir sagði...

Trúi því að hjartað hafi ætlað að springa þegar þú handfjatlaðir verkið hennar dóttlu þinnar.

Er selt vín í Óperunni ja,hérna,hér. Ekki skil ég tilganginn í því.

Lífið í Árborg sagði...

Mikið hefði ég viljað gefa fyrir að það hefði verið ég en ekki þessi dóni sem sat við hliðina á þér í Óperunni. Þú hefðir líklega ekki þurft að gefa mér olnbogaskot. Bestu kveðjur til þín og bestimann úr kisukotinu.

Nafnlaus sagði...

,,Við bestimann fórum svo í Hallarmúlann að skoða og mynda Völuspá dóttlunnar, og mikið hvað við vorum stolt af hnátunni, og vona ég að þessi frumraun hennar skili sér í fleiri verkum."

mín kæra hvað er þetta? dálítið langt síðan ég hef komið hér inn!!

Nafnlaus sagði...

Gleymdi að segja
kveðja
Eyba

Nafnlaus sagði...

Eyba mín, gaman að sjá þig hér. Kíktu í Hallarmúlann, þú ert ein af þeim sem treysti fyrir Völunni, og svo máttu alveg kíkja oftar. Er ekki á fésinu. Luv...ég sjálf.