laugardagur, 28. nóvember 2009
Loksins, loksins!
Já, og auðvitað öllum til gleði er ég ofar moldu. Eins og mér finnst gaman að fá innlit á síðuna er ég ekki nógu virk, en svo verður bara að vera. Lífið gengur sinn gang hér á bæ, og er mikið að gera. Væri ég barn væri örugglega búið að setja mig á ritalín, en mér líður vel með það sem ég er að bardúsa. Tónskólinn er 40 ára 1. des. og er töluverð vinna í sambandi við það. Eins og við kennararnir höfum ekki nóg með okkar fullu kennslu þá erum við með "kennaraband" hvar ég sit sveitt við píanóið og reyni að vera ekki tréhestur þegar kemur að "swing" tónlist! 4 kvöld í viku er svo kórastarf, og ýmislegt annað dunda ég mér við, en líf tónlistarmannsins á litlum stað getur verið krefjandi og ýmislegt komið uppá. Er þó búin að nota Frelsið eins mikið og ég mögulega get. Meðan kökurnar eru í ofninum skutlast ég smárúnt til að kíkja á jólaljósin og banka á eldhúsglugga hjá vinum og nágrönnum! (um helgar n.b.) Mikið hvað ég held að bæjarbúar verði þreyttir á mér þegar vorar! ----Við bestemann höfum sennilega/vonandi fengið vetrargesti. Músarindill hefur gert sig heimakominn í sólskálanum og lifir þar á löngu dauðum lúsum. Honum hafa verið færðar krásir sem hann lætur ekkert í, en meðan hann getur fundið einhverja lús og lifað á henni erum við glöð. Hann lét jólahangikjötið vera og þá þykir mér hann kresinn, því ketið það er sko ekkert slor. Úr Nesjunum altso, en Hornafjörðurinn er matarkista mikil, allt frá hatti ofan í skó! --- Er að lesa frú Vigdísi, konan er frábær en bókin ekki rúmvæn. Bestemann stakk uppá að ég tæki hana með á Frelsið til að nota nú tímann, en maðurinn veit ekkert hvað hann er að tala um, ég þarf að vera á jólaljósaútkikkinu! Á morgun tökum við Jesú og hans fjölskyldu upp í tilefni aðventunnar, og ég er alveg orðin sátt við þann gjörning eftir að diskóljósin voru tekin úr sambandi. Íslensku sveinkarnir ásamt þeirra hyski fara svo í glerskápinn, og eftir það ætla ég að rifja upp jólalögin fyrir kórana. Látið ykkur líða vel þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Létt yfir þessum pistli móðir góð.Gaman fyrir ykkur að hafa gest í sólskálanum...ég get ásamt Védísi kvittað fyrir að þar er ágætt að sofa,svona ef maður er vel klæddur:)
Þú og Frelsið verðið orðin partur af Höfn áður en langt um líður og þegar fólk þarf að skilgreina þig þá minnist enginn á hækjurnar heldur "þarna konan með ættarnafnið sem keyrir um á skutlunni" :) Lufjú.
Gleðilega aðventu, bestu kveðjur...
Alltaf jafn yndisleg í skrifum þínum Guðlaug mín. Sendi mína kærustu kveðju í bæinn þinn og gangi þér vel með kórana þína og ferðirnar á frelsinu.
Já gott að sofa í skálanum.
Gaman að heyra frá ykkur
Hehe, sé þig alveg fyrir mér á skutlunni, bankandi á glugga nágrannanna:) Hafnarbúar (segir maður það?) hljóta nú bara að vera ánægðir með slíkt, nema náttúrlega þú farir að gægjast á glugga af miklum móð;)
Jú baun, Hafnarbúar erum við, og mér er allsstaðar tekið fagnandi! ég sjálf
Skrifa ummæli