laugardagur, 6. febrúar 2010

Þefur af vorinu?

Jamm, fór í skutltúr í dag og sá fólk klippa í görðum sínum. Fór á markaðinn og keypti hrogn og lifur, og ég át yfir mig. (tilheyrir) Krakkar voru í boltaleik á götum úti en aðrir fóru í sund. Nú er bara að bíða eftir að rauðmaginn skili sér frá Djúpavogi og/eða Vopnafirði. Músarindillinn er ennþá að kroppa í sólskálanum, en það er sennilega orðið fátt um fína drætti þar. Þykir súrt að klippa frá honum rósirnar, látum það bíða enn um stund. Á svona dögum er engu líkara en að vorið sé handan hornsins þótt enn sé þorri. Ætli ég segi ekki bara eins og kerlingin: þetta hlýtur að koma í bakið á okkur, sennilega vísar þetta á gos! Suðursveitungar blóta þorra í kvöld, og eins gera burtfluttir Hornfirðingar í Reykjavík. Vonandi skemmtir fólk sér vel og fallega, en þar til næst ætla ég að fara út á pall (kem inn aftur)og þefa meira af vorinu.

3 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég finn líka þef af vori og það gleður mig óumsegjanlega.Lufjú.

Lífið í Árborg sagði...

Ég sé þig í anda skutlast um göturnar, annaðhvort með hárið flaksandi í golunni eða með húfuna góðu á kollinum til að halda hita á eyrunum. Það er öruggt að vorið er að koma, ég sé það líka á blómstrandi trjám hjá mér.Kveðja úr kotinu.

Stella sagði...

þefurinn af vorinu sem svanfríður fann fyrr í vikunni er nú horfinn undir snjó - hellingssnjó! enda sá blessaða "groundhogs" greyið skugga sinn og dæmdi okkur sex vikum af vetri til viðbótar...

bestu kveðjur í bæinn þinn - takk fyrir innlitið í minn