sunnudagur, 7. mars 2010

Prjónles og blues.

Hreinlega varð að setja inn þessa mynd til að monta mig af nýja kjólnum/kápunni/peysunni eða hvað svo sem við viljum kalla þetta fat. Falleg er vinnan svo mikið er víst. Þegar ég var spurð hvort ég hefði prjónað þetta sjálf varð mér verulega skemmt. Ég get ekki gert svona, né heldur tengt rafmagn eða lagt skólplögn. Til þesslags verka fæ ég fagmann, en ég get spilað. Vildi svo gjarna geta gert þetta allt, en það er ekki á allt kosið í henni veröld.--- Hér á Höfn, eins og allsstaðar eru listakonur sem prjóna eins og enginn sé morgundagurinn og ég horfi bara öfundaraugum á afraksturinn og nýt góðs af þegar flott flík hentar mér. ---Norðurljósablús, hinn árlegi var haldinn á Höfn þessa helgina og var blúsað í öllum hornum. Ég er bara ekki nógu hrifin af þessari tegund tónlistar til að sitja kvöld eftir kvöld og hlusta því þá langar mig bara að heyra gamlan og góðan vals. En maður er manns gaman og fjöldi manns skemmtu sér vel og allsstaðar nánast fullt útúr dyrum. Ég hef oft furðað mig á hvað mikið er í boði hér í sýslunni, og það allan ársins hring. Byggðarlagið er ekki mjög mannmargt, en ef þú vilt hefurðu úr svo miklu að moða að vandinn er að velja og hafna, þannig að þetta getur kallast lúxusvandamál. Ef vandamálin væru ekki stærri en þetta yrði lífið auðvelt. ---- Er á fullu við að læra að spila "gömludansa" músík, er sko altso komin í "band", karlakóraband! Karlakórinn ætlar að halda gömludansaball bráðlega, og gera allt sjálfir nema náttúrulega að dansa. Aðrir verða að sjá um það. Þetta verður bara gaman, en ég vildi að ég væri svolítið svona örlítið meira þannig séð á píanóinu! Það er ekkert gaman að hlusta á ferkantaðan gömludansaspilara. Ok, æfingin skapar meistarann, en þeir í Tónó kenndu ekki svona húllumhæ í den tid. Lífið er gott, veðrið spillir ekki þessa stundina og innan tíðar kemur Tjaldurinn í fjöruna fyrir neðan Tónskólann. Þar til næst sendi ég ljúfar yfir.

9 ummæli:

Íris Gísladóttir sagði...

Þessi peysa/kjóll/kápa er bara æðisleg og þú ert stórglæsileg í henni. Já það þarf engin að láta sér leiðast í Hornafirðinum það er alveg ljóst.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þú ert svo fín í þessari fallegu peysu.
Nóg um að vera á Höfn og þar átt þú þinn sess;)

Álfheiður sagði...

Rosa flott!

Ragna sagði...

Þú ert mjög glæsileg í þessari fallegu flík.
Mér líst vel á gömludansaspiliríið þitt, en það er bara verst hvað það er langt til Hafnar til þess að bjóða sig fram til þess að taka danssporin við músikkina þína.
Kær kveðja,

baun sagði...

Vá! Segi ég nú bara. Geggjuð peysa sem fer þér vel:)

Egga-la sagði...

Glæsileg peysa.

Lífið í Árborg sagði...

Já þetta er alveg meiriháttar flík og sérlega fín í henni. Það er gaman að sjá allar þessar nýju útfærslur á gömlu góðu lopapeysunni. Það gefur lífinu lit að einn getur spilað, annar prjónað og sá þriðji dansað.
Kveðja til ykkar bestimann frá Kotinu í suðri.

Frú Sigurbjörg sagði...

Sammála Þórunni með lífinu í lit, enda kann ég ekki heldur að prjóna : D

Nafnlaus sagði...

Peysukápukjóllinn er sérdeilis frábær. Þú tekur þig virkilega vel út í honum. Það er greinilegt að brátt verður hasarfjör á höfn. afi óskar ykkur góðrar skemmtunar.