fimmtudagur, 31. mars 2011

kafli 2

Jæja gott fólk, nú hefst kafli 2. Ekki varð mér að ósk minni um auðveldu leiðina út, ónei. Lyfja- og geislameðferð verður mitt aðalverkefni næstu mánuðina, en byrja ekki alveg strax. Er algjörlega meinalaus, og ekkert hefur dreift sér. Fyrir það má þakka. Nú hefur öllu mínu lífi verið snúið á haus og ég er greinilega ekki í neinum forréttindahópi sem sleppur alltaf! Ég ætla ekki að ríða grindum og görðum, reyni heldur að tækla þetta á annan veg. Bjartsýni og æðruleysi verða því að vera mínir fylgifiskar á næstunni, ég má ekki við öðru. Hvort það tekst alltaf veit ég ekki, en það veit sá sem allt veit að ég ætla að leggja mig alla fram, en ég er viss um að við bestimann eigum eftir að gráta, bölva og hlæja, en saman ætlum að komast í gegnum streðið. Þið þarna úti hafið veitt mér mikinn stuðning, og stuðning þarf ég áfram. Ég hef ákveðið að skrifa á síðuna mína eftir því sem ég get, finnst eins og það kunni að hjálpa mér. Nú ætlum við heim á Höfn í nokkra daga og ná vopnum okkar. Semsagt, svona fór um sjóferð þá þar til næst.

15 ummæli:

Frú Sigurbjörg sagði...

Bjartsýni og æðruleysi eru góðir fylgifiskar í lífinu, sér í lagi þegar maður er búinn að gráta og bölva og vantar að hlægja. Þú siglir í gegnum næstu sjóferð. Stórt rafheimaknús til þín.

Ragna sagði...

Þetta voru vitaskuld ekki fréttirnar sem ég átti von á, en ég er sammála Frú Sigurbjörgu að þú siglir í gegnum næstu sjóferð með bjartsýni þinni og æðruleysi.
það er gott að þú ætlar að leyfa okkur að fylgjast með á blogginu þínu. Svo vil ég að þú vitir að heimili mitt stendur alltaf opið vinum sem vilja kíkja í heimsókn og endilega láttu mig vita ef það er eitthvað sem ég gæti gert fyrir þig eða ykkur.
Kær kveðja og stórt knús.

Íris sagði...

Baráttukveðjur, Gulla mín.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Knús elsku mamma og pabbi:)VIð erum svo hér og gerum það sem við getum að létta á (vonandi verður það í "beinni" fyrr en seinna)

Lífið í Árborg sagði...

Æ, elsku Gulla þetta hlýtur að vera sárt en samt sem áður finnst mér það góðar fréttir að þú sért meinalaus, þetta með lyfjagjöf og geisla er gert til öryggis, þó erfitt sé. Ég þekki nokkrar konur sem hafa risið upp alheilar eftir svona meðferð og ég er viss um að þú gerir það líka. Það er ómetanlegt að hafa einhvern til að gráta og hlæja með og þar hefur þú þinn bestimann. Takk fyrir að láta vita hvernig gengur, hugur minn er hjá ykkur. Bestu kveðjur úr kattakotinu.

Nafnlaus sagði...

Æi mikið rosalega vonaðist ég til að lesa öðruvísi blogg frá þér í dag. Ég dáist hins vegar að jákvæðni þinni og hef fulla trú á að hún fleyti þér í gegnum þessi veikindi, neita að trúa öðru en þú sigrir í þessari baráttu!
Ég sendi ykkur góðar hugsanir og vona að þær hjálpi.
Gangi ykkur vel.
kv. Helga

Nafnlaus sagði...

Gangi þér allt í haginn,þetta voru bæði góðar frétti og slæmar.Risa knús Ásta.

Nafnlaus sagði...

Ég sendi risastórt baráttuknús til ykkar Gulla mín. Þið komist í gegnum þetta saman...og ef þið þurfið af og til að bölva og ragna til þess að komast á næsta stig þá gerið þið það!
Hugsa til ykkar,
Árdís

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með afmælið kæra frú. Baráttukveðjur til þín duglega kona.
Kv Íris Gíslad

Nafnlaus sagði...

Innilega til hamingju með daginn,gott að vera orðin fullorðin!!Bestu kveðjur Bensi og Ásta.

Elísabet sagði...

Hamingjuóskir með afmælið:)

Lífið í Árborg sagði...

Kæra Gulla, við sendum okkar innilegustu hamingjuóskir í tilefni dagsins.
Lífið heldur áfram og þú átt eftir að eiga marga svona góða daga.
Bestu kveðjur úr Kattakoti.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið Gulla mín. Vonandi hefurðu átt góðan dag;-)
kv. Helga

Friðbjörg sagði...

Það er ekki spurning Gulla mín, að þú átt eftir að standa þig vel hér eftir sem hingað til. Veit að þið farið saman á hamingjunni í gegnum þetta. Knús og kossar. Friðbjörg og Gummi

Egga-la sagði...

Bata og baráttukveðjur frá Noregi.